XXI.
Eftir það opinberaði sig Jesús við sjóinn Tiberiadis. [ En hann opinberaði sig so: Þar voru til samans Símon Petrus og Tómas sá er kallaðist tvíburi og Natanael sá er var af Kana úr Galileahéraði og synir Zebedei og enn aðrir tveir af hans lærisveinum. Símon Petrus segir til þeirra: „Eg vil fara að fiska.“ Þeir sögðu honum: „Vér viljum og koma með þér.“ Þeir gengu út og stigu strax á skip og á þeirr nótt fengu þeir ekkert. En að morni komnum þá stóð Jesús í sjávarfjörunni. Lærisveinarnir vissu eigi að það var Jesús. Þá sagði Jesús til þeirra: „Börn, hafi þér ekki til matar?“ Þeir svöruðu honum: „Nei.“ En hann sagði til þeirra: „Kastið út netinu til hægri handar við skipið og þá munu þér nokkuð finna.“ Þá köstuðu þeir út og gátu ei dregið fyrir fjölda sakir fiskanna. Þá sagði sá lærisveinn til Péturs sem Jesús elskaði: „Herrann er það.“
En þá Símon Petrus heyrði það að herrann væri það vafði hann um sig möttlinum það hann var nakinn og varpaði sér út á sjáinn. En aðrir lærisveinarnir komu á skipi það þeir voru ei langt frá landi, so sem nær tvö hundruð álna, og drógu netið með fiskunum. Og er þeir stigu á land sáu þeir eldsglæður og fisk yfirlagðan og brauð. Jesús segir til þeirra: „Færið hingað af þeim fiskunum þér fenguð nú.“ Símon Petrus stóð upp og dró netið að landi fullt af stórum fiskum, hundrað þremur og fimmtíu. Og þótt það væri so margir þá rignaði þó eigi netið. Jesús segir til þeirra: „Komi þér og snæðið.“ En enginn lærisveinanna þorði að spyrja hann að: „Hver ertu?“ því að þeir vissu að það var herrann. Þá kom Jesús og tók brauðið, gaf þeim það og líka einnin fiskinn. Og þetta er nú hið þriðja sinn er Jesús opinberaði sig sínum lærisveinum eftir það hann var upprisinn af dauða.
Þá þeir höfðu nú snætt segir Jesús til Símonar Péturs: [ „Símon Jónasson, elskar þú mig meir en þessir?“ Hann sagði honum: „Já herra, þú veist að eg elska þig.“ Hann sagði þá til hans: „Fæð þú lömb mín.“ Enn segir hann aftur í öðru sinni til hans: „Símon Jónasson, elskar þú mig?“ Hann segir honum: „Já herra, þú veist eg elska þig.“ Hann segir þá til hans: „Fæð þú sauði mína.“ Hann segir enn aftur í þriðja sinn til hans: „Símon Jónasson, elskar þú mig?“ Þá hryggðist Pétur við því hann sagði þrisvar: „Elskar þú mig?“ og sagði til hans: „Herra, þú veist alla hluti. Þú veist að eg elska þig.“ Jesús segir til hans: „Al þú þá sauði mína.
Sannlega, sannlega segi eg þér: Þá þú vart yngri gyrtir þú sjálfur þig og gekkst þangað þú vildir en þá þú eldist muntu þínar hendur útbreiða og annar mun þá gyrða þig og þangað leiða sem þú vilt eigi.“ En þetta sagði hann teiknandi með hverjum dauða að hann skyldi Guð dýrka.
Og þá hann hafði þetta sagt segir hann til hans: [ „Fylg þú mér eftir.“ Pétur sneri sér við og leit þann lærisvein eftirfylgjanda sem Jesús elskaði, sá er og um kveldmáltíðina hafði á hans brjósti legið og sagt: „Herra, hver er sá þig forræður?“ Þá Pétur leit nú þennan segir hann til Jesú: „Herra, hvað skal þessi?“ Jesús segir til hans: „Ef eg vil að hann blífi til þess að eg kem hvað kemur það við þig? Fylg þú mér eftir.“ Þá gekk sú orðræða á meðal bræðranna: „Þessi lærisveinn deyr eigi.“ Jesús sagði eigi til hans: „Hann deyr eigi“ heldur: „Ef eg vil að hann blífi til þess að eg kem, hvað kemur það við þig?“ Þessi er sá lærisveinn er um þetta ber vitni og þetta skrifaði. Og vér vitum að hans vitnisburður er sannur.
Þar eru og margir aðrir hlutir sem Jesús gjörði hverjir ef þeir skyldu allir skrifast hver eftir öðrum þá held eg að heimurinn mundi eigi yfirgrípa þær bækur sem skrifast mættu.
Hér endast S. Johannis evangelium