X.
Sannlega, sannlega segi eg yður: [ Hver hann gengur eigi inn um dyrnar í sauðahúsið heldur stígur hann inn með öðrum hætti, sá er þjófur og spillvirki. En sá sem gengur inn um dyrnar, hann er hirðir sauðanna. Fyrir honum lýkur dyravörðurinn upp og sauðirnir heyra hans rödd og hann kallar sína sauði með nafni, leiðir þá og út. Og þá hann hefur sína sauði út látið gengur hann frammi fyrir þeim. Sauðirnir fylgja honum og eftir því að þeir þekkja hans rödd. En öðrum annarlegum fylgja þeir ei eftir heldur flýja þeir frá honum því að þeir kenna eigi annarlega rödd.“ Þennan málshátt talaði Jesús til þeirra en þeir vissu eigi hvað hann sagði þeim.
Þá sagði Jesús enn aftur til þeirra: [ „Sannlega, sannlega segi eg yður: Eg em dyr sauðanna. Allir hverjir helst fyri mér komu þeir voru þjófar og spillvirkjar og sauðirnir hlýddu þeim eigi. Eg em dyrnar. Ef nokkur gengur inn um mig, sá mun frelsast. Hann mun og ganga út og inn og finna sitt fóður. Þjófurinn kemur ei til annars en hann steli, drepi og fordjarfi. Eg em kominn til þess að þeir skyldu hafa líf og fulla gnægð.
Eg em góður hirðir. [ Góður hirðir gefur sitt líf út fyrir sína sauði. En leigumaðurinn, sá eigi er hirðir og hvers sauðirnir eru eigi eiginlegir, hann sér úlfinn komanda og yfirgefur sauðina og flýr en úlfurinn grípur og sundurdreifir sauðunum. En leigumaðurinn flýr af því að hann er leigumaður og hirðir ekki um sauðina. Eg em góður hirðir og eg þekki mína sauði og eg þekkjunst af mínum, so sem að þekkir mig minn faðir og eg þekki föðurinn. Og mitt líf legg eg út fyrir mína sauði. Eg hefi og aðra sauði sem eigi eru af þessu sauðahúsi. Þá byrjar mér og hingað til að leiða og þeir munu heyra mína rödd og þar mun verða eitt sauðahús og einn hirðir. [
Fyrir því elskar mig minn faðir að eg legg út líf mitt. [ Eg tek það og aftur. Enginn tekur það og af mér heldur legg eg það út af mér sjálfur. Eg hefi vald til það af að leggja, eg hefi og vald til það aftur að taka. Þetta boðorð fékk eg af mínum föður.“ Þá varð enn sundurþykkja í millum Gyðinga fyrir sakir þessara orða. En margir af þeim sögðu: „Djöfulinn hefur hann og óður er hann, til hvers heyri þér honum?“ Aðrir sögðu: „Þessi orð eru einskis óðs manns. Fær djöfullinn nokkuð blinds manns augum upplokið?“
Þá gjörðist musterisvígsla til Jerúsalem. [ Það var um vetur. Og Jesús gekk í musterinu í forbyrgi Salomonis. Þá umkringdu hann Júðar og sögðu til hans: „Hversu lengi þá heldur þú vorri sálu upp? Ef þú ert Christus þá seg oss það berlega.“ [ Jesús svaraði þeim: [ „Eg sagða yður það en þér trúið eigi. Þau verk er eg gjöri í míns föðurs nafni bera vitni af mér. En þér trúið eigi því að þér eruð eigi af mínum sauðum so sem eg sagða yður. Því mínir sauðir heyra mína rödd. Eg þekki þá og þeir fylgja mér eftir og eg gef þeim eilíft líf og eigi skulu þeir fyrifarast að eilífu. Enginn skal þá og grípa úr minni hendi. Faðir minn, sá eð mér gaf þá, hann er öllum meiri og enginn fær þá gripið af míns föðurs hendi. Eg og faðirinn erum eitt.“
Þá tóku Gyðingar enn steina upp að grýta hann. Jesús svaraði þeim þá: „Mörg góðverk sýndi eg yður af mínum föður. Fyrir hvers verks sakir þá vilji þér grýta mig?“ Gyðingar svöruðu honum þá so segjandi: „Fyrir gott verk grýtu vér þig eigi heldur fyrir þá guðlastan þar sem þú ert maður og gjörir þig sjálfan að Guði.“ Jesús svaraði þeim: [ „Er eigi so skrifað í yðru lögmáli: Eg sagða það þér eruð guðir? Nú ef það kalar þá guði til hverra Guðs orð eru skeð og Ritningin má eigi rjúfast en við þann sem faðirinn helgaði og í heiminn sendi þá segi þér: Þú guðlastar, af því eg sagða: Eg em sonur Guðs. Ef eg gjöri ekki míns föðurs verk þá trúið mér ekki. Nú fyrst eg gjöri þau þá trúið verkunum þó þér viljið mér ekki trúa so að þér kennið og trúið það faðirinn sé meður mér og eg meður honum.“
Þeir sóttu þá enn til að grípa hann en hann gekk út frá þeirra höndum og fór aftur í þann stað hinumegin Jórdanar sem Jóhannes hafði áður skírt og var þar. Margir komu til hans og sögðu: „Jóhannes gjörði að vísu ekkert teikn en allt hvað Jóhannes sagði af þessum þa er satt.“ Og margir trúðu þar á hann.