XXXIII.

Job, heyr þú mína ræðu og hygg vel að öllum mínum orðum. Sjá þú, eg upplýk mínum munni og mín tunga talar í munni mínum. Mitt hjarta skal rétt tala og mínar varir skulu framsegja þann sanna skilninginn. Guðs andi hefur gjört mig og innblásturinn Hins almáttuga hefur gefið mér lífið. Kannt þú, þá svara mér, bú þig til og gegn mér. Sjá þú, eg heyri Guði til jafn vel sem þú og eg er gjörður af því hinu sama leiri. En þú þarft þó ekki að hræðast fyrir mér og mín hönd skal ekki vera þér of þung.

Þú talaðir svo fyrir mínum eyrum, eg hlaut að heyra raustina þíns máls: Eg er hreinn fyrir utan misverka, saklaus og hefi öngva synd. Sjá þú, hann hefur fundið mér sök, þar fyrir reiknar hann mig fyrir sinn óvin. Hann hefur sett mína fætur í stokk og hefur forsvarað alla mína vegu. Sjá þú, að rétt út af þessu hinu sama þá álykta eg á móti þér, það þú sért ekki réttlátur, því Guð er meiri en maðurinn. Hvar fyrir vilt þú deila kappi við hann þó hann gjöri þér ekki reikningsskap út af öllum sínum gjörningi? Því þá nær eð Guð fyrirætlar sér nokkurn tíma eitthvað þá [ hugsar hann ekki um það þá hið fyrsta þar eftir á.

Í sjónhendingu draumsins á nóttinni nær svefninn fellur yfir menn þá eð þeir sofa á sængunum þá opnar hann eyrun mannanna og ógnar þeim og agar þá so það hann í burtsnúi manninum frá sínum ásetningi og frelsi han í frá ofstækinni og í burt rykki hans sálu í frá fordjörfuninni og hans lífi svo það falli ekki í sverðseggjar. Hann hegnir honum með sjúkleik á sinni sæng og öllum hans beinum harðlegana og hann temur hans líkama svo til að hann klígjar við matnum og hans sál so hún hefur öngva lysting til matar. Hans hold það í burt hverfur og sýnin sljóvgast og hans bein taka að brotna svo þau eru herfileg ásýndar svo að hans sála flýtir sér til fordjörfunar og hans líf til dauðans.

Ef þar væri einn engill af því þúsund talandi fyrir honum til að kunngjöra manninum hvernin hann mætti gjöra rétt þá mundi hann honum líknsamur vera og segja: Hann skal frelsast svo að hann fari ekki héðan niður í fordjörfunina því að eg hefi fundið eina forlíkan svo að hans hold skal blómgast aftur líka sem í æskunni og láta hann verða ungan aftur. Hann mun og biðja Guð og hann mun vera honum líknsamur og láta hann sjá sitt andlit með gleði og hann mun þeim manni endurgjalda sína réttvísi. Og hann mun viðurkenna sig fyrir fólkinu og segja: Eg vildi hafa syndgast og umvent réttinum en það hefði mér engin nytsemd verið. Hann hefur frelsað mína sálu so hún fór ekki í fordjörfunina heldur so að mitt líf sá ljósið.

Sjá þú, þetta allt saman gjörir Guð [ tvisvar eða þrisvar sinnum við hvern sem einn mann að hann kalli so hans sál aftur út af fordjörfuninni og upplýsi hann með því ljósinu lifandi manna. Merk þetta, Job, og hlýttu á meðan eg tala. En hafir þú nokkuð að segja mér þá svara þú mér. Seg þú fram, ert þú réttlátur? Eg vil gjarnan heyra það. En ef þú hefur ekki neitt til þá hlýð þú á og þegi þú og mun eg kenna þér vísdóm.“