XXXII.
Þá létu þeir þrír menn af að gefa Job andsvar með því að hann hélt sig að vera réttlátan. En Elíhú son Barakeel af Bús út af slekti Ram hann varð reiður Job fyrir það hann hélt sína sálu réttvísari en Guð. Hann varð og reiður við þá þrjá hans vini af því að þeir fundu honum ekki neitt andsvar en fordæmdu þó Job. Því að Elíhú biðlíkaði við þangað til þeir höfðu út talað við Job af því að þeir voru eldri en hann. Og fyrst hann sá það að þar var ekki neitt andsvar til í þeirra þriggja manna munni þá reiddist hann. Og þannin svaraði Elíhú son Barakeel af Bús og sagði:
„Eg er ungur en þér eruð gamlir, því forðaðist eg og hræddunst að auðsýna mína list á meðal yðar. Eg þenkta svo: Lát þú árin aldursins tala og lát þú þann aldurdómsins mikilleik auglýsa vísdóminn. En andinn er í mönnunum og sá innblásturinn Hins almáttuga gjörir þá skilningsfulla. Hinir voldugu eru ekki hinir vísustu og hinir gömlu skilja ekki það réttdæmið. Þar fyrir þá vil eg nú tala, heyrið mér, eg vil og láta sjá mína snilld. Sjáið, eg hefi biðlíkað við á meðan þér töluðuð, eg hugleidda að yðrum skilningi þangað til að þér funduð upp á þá réttu ræðu. Og eg hefi gefið gætur að yður en sjáið, þar er enginn á meðal yðar sem vandi um við Job eður svaraði hans máli.
Svo að þér þurfið ekki að segja: Vér hittum á vísdóminn, að Guð hafi útskúfað honum en enginn annar. Það máltæki fullnægir ekki mér, eg vil og ei svara honum eftir yðrum orðum. Óhó, þeir eru óttaslegnir, þeir kunna ekki meir að svara, þeir kunna og ekki fleira að tala. En af því að eg tafði so við og þeir kunna ekki fleira að tala (því þeir stóðu kyrrir og svöruðu öngvu) þá vil eg fyrir minn part svar gefa og auðsýna so mína visku. Sj´aþú, að minn kviður er líka sem annað nýtt vín það þétt til dýptað er hvert að í sundursprengir nýja legla. Eg hlýt að tala svo eg fái vindrúm, eg verð að uppljúka mínum vörum og gefa svar. Eg vil og einskis persónu álíta og eg vil og öngvan mann lofa. Því að eg veit ekki (ef að eg gjörði það) nema að minn skapari mundi þá svipta mér í burt innan lítils tíma.