XXII.

Þá svaraði Elífas af Tema og sagði: [ „Hvað þarf Guðs hins öfluga við eða hvar til er honum sá hinn ráðklóki nytsamlegur? Hvert þenkir þú að það þóknist svo vel Hinum almáttuga að þú gjörir þig svo réttferðugan eða hvað stoðar það honum þó að þú haldir þína vegu so lýtalausa? Þenkir þú það hann muni ei þora að straffa þig og ganga í dóm við þig? Já, þín illska er of mikil og þar er enginn endi á þínum misgjörningum. Þú hefur einhvern tíma tekið borgan af þínum bróður að nauðsynjalausu og burtflett hinna nöktu klæðum. Þú hefur ekki gefið vegmóðum vatn að drekka og dregið þitt brauð af hungruðum. Þú hefur gjört ofríki í landinu og harðúðlega þar inni setið. Ekkjurnar hefur þú með tómum höndum frá þér látið fara og armleggina þeirra föðurlausu í sundur brotið. Þar fyrir ert þú umvafinn með snörum og hræðslan hefur skyndilega skelft þig. Skyldir þú ekki sjá [ myrkrið og skyldi ekki vatsflóðið hylja þig?

Sjá þú, Guð er hátt þar uppi yfir í himninum og sér þær Merkistjörnurnar sem so hátt eru. Og þú segir: Skýin þau skyggja á hann og hann sér það ekki og hann gengur út í því hvelfinu himnanna. Vilt þú hyggja að veginum veraldarinnar á hverjum það hinir ranglátu hafa gengið? Þeir eð glötuðust áður en þeirra tími kom og vatnið hefur í burt þvegið þeirra grundvöll. Þeir sem sögðu til Guðs: Far þú frá oss og hvað skyldi Sá almáttugi kunna að gjöra þeim þar eð hann uppfyllir þó þeirra hús með auðæfum? En meiningin hinna óguðlegu sé langt frá mér. Hinir réttvísu munu sjá það og gleðjast við og sá hinn saklausi mun hæða að þeim. Hvað gildir það að þeirra umsýslan mun í burt hver fá og eldurinn mun foreyða þeirra eftirkomendum?

Þar fyrir þá forlíktu þig nú við hann og haf frið, þar af munt þú fá mikið gott. Heyr þú lögmálið af hans munni og höndla hans ræðu í þínu hjarta. Ef þú snýr þér til Hins almáttuga þá munt þú uppbyggður verða og láta ranglætið fjarlægt verða þinni tjaldbúð. Svo mun hann gefa þér gull fyrir jörð og gulllæki fyrir grjótsteina. Og sá Hinn almáttugi mun vera þitt gull og þú munt fá stóra hrúgu silfurs. Þá skalt þú þína lysting hafa til Hins almáttuga og upphefja þitt auglit til Guðs. Þá munt þú og tilbiðja hann og mun hann bænheyra þig og þú skalt enda þín heit. Hvað sem þú ásetur þér það mun hann láta þér vel lukkast og ljósið mun skína á þínum vegi. Því þá sem sig lítillæta þá upphefur hann og hver hann niðurlægir sín augu þann mun Guð frelsa. Og sá hinn saklausi mun frelsaður verða og hann mun frelsast fyrir hreinferðis sakir hans handa.“