II.

Bræður mínir, þér skuluð eigi meina það trúan á Jesúm Christum vorn Drottin dýrðarinnar líði manngreinarálit. Því þó að inngangi í yðra samkundu maður berandi gullbaug og í kostulegum klæðum en þar kæmi og einnin einn fátækur í ljótum klæðnaði og þér sæuð á þann sem dýrlegan klæðnað bæri, segðuð til hans: „Sit þú hér í góðu sessi“ og til hins fátæka segðuð: „Statt þú þarna eða set þig hér á skör fóta minna“ þá úrskurðið þér ekki rétt með sjálfum yður heldur verði þér dómarar vondra hugrenninga.

Heyrið til, bræður mínir elskulegir. Hefur Guð ekki útvalið fátæka þessarar veraldar þá í trúnni ríkir eru og erfingjar ríkisins hverju hann hefur fyrirheitið þeim sem hann elska? En þér hafið vanheiðrað hina fátæku. Eru hinir ríku eigi þeir sem með yfirgangi niðurþrykkja yður og þeir eð framdraga yður fyrir dómstóla? Hæða þeir ekki það hið góða nafn sem þér eruð af kallaðir?

Og ef þér fullkomnið það konunglega lögmál eftir Ritningunum það elska skulir þú náunga þinn so sem sjálfan þig þá gjöri þér vel. [ En ef þér hafið manngreinarálit þá drýgi þér synd og verðið ávítaðir af lögmálinu so sem yfirtroðslumenn. [ Því þótt að einhver héldi allt lögmálið og brotlegur verður í einu þá er sá þegar alls þess sekur. Því að hann sem sagt hefur: „Eigi skalt þú hór drýgja“ sá hefur einnin sagt: „Eigi skalt þú í hel slá.“ Þótt að þú drýgir nú engi hór en í hel slær þá ertu yfirtroðslumaður hins lögmálsins. Líka so talið og so gjörið sem að þeir eð fyrir lögmál frelsisins dæmdir verða. En þar mun ómiskunnsamur dómur yfir þann ganga sem öngva miskunnsemi hefur gjörða og miskunnin hún hrósar sér í móti dóminum.

Hvað stoðar það, kærir bræður, þótt einhver segi hann hafi trúna og hefur eigi verkin? Getur trúan gjört hann hjálplegan? En ef nokkur bróðir eða systur væri nakin og þörf hefði daglegrar næringar og þó einhver yðar segi til þeirra: „Farið í friði, gjörið yður heitt og mettið yður“ en gefi þeim ekki hvað líkamans nauðþurft er, hvað hjálpaði þeim það? So og líka trúan nær eð hún hefur engin verk þá er hún dauð í sjálfri sér.

En þar mætti einhver segja: „Þú hefur trúna og eg hefi verkin.“ Sýn þú mér trú þína út af verkum þínum og eg mun sýna þér mína trú af mínum verkum. Þú trúir að einn sé Guð. Það gjörir þú vel. Djöflarnir trúa einnin og eru þó óttaslegnir.

En viltu vita, þú hégómamaður, það trúan án verkanna sé dauð. Er eigi Abraham faðir vor af verkunum réttlátur vorðinn þá hann offraði syni sínum Ísaak yfir altarið? [ Þar sér þú það trúan hefur samverkað hans gjörðum og út af verkunum er trúan fullkomleg orðin. Og Ritningin er uppfylld sem að segir: „Abraham trúði Guði og það er honum talið til réttlætis“ og er Guðs vin kallaður. [ So sjái þér nú það maðurinn er af verkunum réttlátur og eigi alleinasta út af trúnni. So og einnin portkonan Rahab. [ Er hún ekki af verkunum réttlát orðin þá hún meðtók sendiboðana og lét þá um annan veg fara? Því að líka sem líkaminn er án andans dauður so er og einnin trúan án verkanna dauð.