XI.

Þá Ísrael var ungur hafða eg hann kæran og kallaði hann „Minn son af Egyptalandi“. [ En ef nokkur kallar þá nú þá snúa þeir þar frá og offra Baal og veifa reykelsinu fyrir bílætum. Eg tók Efraím við hans arm og leiddi hann. En þeir merktu það ekki með hverju móti eg hjálpaði þeim. Eg lét þá draga eitt mannlegt ok og ganga í kærleiksböndum og hjálpaði þeim að bera okið á sínum hálsum og eg gaf þeim fóður að þeir skyldu ei snúa sér aftur til Egyptalands. So er nú Assúr orðinn þeirra kóngur því þeir vilja ekki umvenda sér. Því skal sverðið koma yfir þeirra staði og gjöra þeirra járngrindur til einskis og uppsvelgja þær sökum þeirra uppsáturs. Mitt fólk er þreytt að vernda sér til mín og þó mann prédiki fyrir þeim þá uppréttir enginn sig.

Hvað skal eg gjöra af þér, Efraím? Skal eg vernda þig, Ísrael? Skal eg ekki með réttu gjöra einn Adamas af þér og gjöra þig líka sem Sebóím? En mitt hjarta er öðruvís sinnað, mín miskunnsemd er so mjög heit að eg vil ekki gjöra eftir grimmd minna reiði, eg vil ekki snúa mér að fordjarfa Efraím aldeilis. Því eg er Guð en ekki maður, eg er Þann heilagi á meðal þín. En ei vil eg í staðinn koma. Þá skulu menn eftirfylgja Drottni og hann skal öskra sem eitt león. Og þegar hann öskrar þá skulu þeir hræðast sem eru í móti vestrinu. Og þeir í Egyptalandi skulu og fælast sem einn fugl og þeir í Assyrialandi sem dúfur. Og eg vil setja þá í þeirra hús, segir Drottinn.