V.

Hugleittu að því, Drottinn, hvernin það oss veitir. Álít þú og hygg að vorri forsmán. Vor arfleifð er orðin þeim annarlegum að hlutskipti og vort hús hinum útlensku. Vér erum föðurlausir og höfum öngvan föður, vorar mæður eru sem ekkjur. Vort eigið vatn hljótum vér að drekka fyrir peninga, vorn við verðum vér að láta sækja með verði bitalaðan. Þeir keyra oss fram yfir um þveran hnakkann og nær eð vér erum uppgefnir af mæði þá láta þeir oss þó öngva hvíld hafa. Vér höfum orðið að gefa oss undir þá í Egyptalandi og í Assyria svo að vér mættum saddir verða af brauði. Vorir feður þeir syndguðu og þeir eru ekki meir fyrir höndum og vér hljótum að gjalda þeirra misgjörninga. Þrælar drottna yfir oss og þar er enginn sem frelsar oss út af þeirra hendi. Vér hljótum að sækja vort brauð með vorum lífsháska fyrir sverðinu á eyðimörkina. Vort hörund er forbrennt so sem í öðrum ofni af því hræðilegu hungrinu.

Þeir hafa skammað og vanvirt þær kvinnurnar í Síon og þær meyjarnar í stöðunum Júda. Þeir höfðingjarnir eru hengdir af þeim og þeir hafa öngva virðing gjört hinum gömlu. Hinir ungu karlmenn hlutu að mala kvarnarsteinum og hinir smáu áfram að hrasa í viðardrættinum. Hinir gömlu sitja ekki lengur í portdyrunum og hinir ungu iðka ekki meir nein hljóðfæri. Vor hjartans gleði hefur einn enda, vor danslæti eru umsnúin í sorgarkvæði. Kórónan vors höfuðs er af fallin. Ó vei að vér höfum so syndgast! Þar fyrir er einnin vort hjarta so harmþrungið og vor augu daupur orðin fyrir sakir þess fjallsins Síon að það liggur í eyði so það refar hlaupa þar yfir um.

En þú, Drottinn, sem ert eilíflegana og þinn veldisstóll um aldur og eilífu, hvar fyrir viltu so öldungis forgleyma oss og með öllu yfirgefa oss so lengi? Drottinn, leið oss aftur til þín svo að vér mættum komast heim igen. Endurnýja vora daga líka sem forðum tíð. Því að þú hefur kastað oss í burt og ert orðinn ofreiður viður oss.

Ending þess Harmagrátsins Jeremie