Og höggormurinn var slægari heldur en öll önnur kvikindi á jörðunni sem Guð Drottinn hafði skapað. [ Og hann sagði til kvinnunnar: „Já, skyldi Guð hafa sagt: Þið skuluð ekki eta af allskyns trjám í aldingarðinum?“ Þá sagði konan til höggormsins: „Við etum af ávexti trjánna í aldingarðinum. En um ávöxt þess trés sem stendur í miðjum aldingarðinum, þá sagði Guð: Etið ekki þar af og komið ekki við það so að þið deyið ekki.“ Þá sagði höggormurinn til kvinnunnar: „Í öngvan máta munuð þið dauða deyja, heldur veit Guð það að á hverjum degi sem þið etið þar af þá munu ykkar augu opnast og þið munuð vera líka sem Guð og vita skyn góðs og ills.“
Og kvinnan sá að tréð var gott að eta af og fagurt að sjá og eitt girnilegt tré til fróðleiks. [ Og hún tók af ávextinum og át og gaf sínum manni þar af. Og hann át. Þá upplukust beggja þeirra augu og formerktu þau að þau voru nakin. Og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér af laufkyrtla.
Og þá er þau heyrðu Guðs Drottins rödd sem gekk um kring í aldingarðinum þá dagurinn var orðinn kaldur þá faldi Adam sig og hans kvinna fyrir augliti Guðs Drottins á milli trjánna í aldingarðinum. [ Og Guð Drottinn kallaði á Adam og sagði til hans: „Hvar ertu?“ Hann svaraði: „Eg heyrði þína rödd í aldingarðinum og eg hræddunst því eg var nakinn. Og af því falda eg mig.“ Og hann sagði: „Hver sagði þér að þú værir nakinn? Nema hafir þú etið af því tré sem eg bannaði þér að eta af.“ Þá svaraði Adam: „Kvinnan sú sem þú gafst mér til samlags, hún gaf mér af trénu og eg át.“ Þá sagði Guð Drottinn til kvinnunnar: „Því gjörðir þú það?“ Kvinnan svaraði: „Höggormurinn sveik mig so að eg át.“
Þá sagði Guð Drottinn til höggormsins: „Af því að þú gjörðir þetta þá vert þú bölvaður á meðal allra kvikinda og á meðal allra dýra á jörðu. [ Þú skalt ganga á þínum kviði og eta mold jarðar alla þína lífdaga. Og eg vil setja óvinskap á milli þín og kvinnunnar og á milli þíns sæðis og hennar sæðis. [ Það sama skal í sundur merja þitt höfuð. Og þú skalt bíta hann í hælinn.“
Og hann sagði til kvinnunnar: „Eg vil fjölga eymdir þínar, þegar þú verður ólétt, þá skaltu fæða þín börn með sótt, og þinn vilji skal vera þínum manni undirgefinn og hann skal vera þinn herra.“ [
Og til Adams sagði hann: „Sökum þess þú hlýddir röddu konu þinnar og átst af því tré af hverju eg bauð þér að þú skyldir ekki eta af, þá skal jörðin vera bölvuð fyrir þína skuld. Með erfiði skaltu þig af henni næra alla þína lífdaga. Þyrna og klungur skal hún bera þér og þú skalt eta grös jarðarinnar. Í þíns andlits sveita skaltu neyta þíns brauðs þangað til þú verður að jörðu aftur, af hverri þú ert tekinn. Því að þú ert jörð og þú skalt að jörðu aftur verða.“
Og Adam nefndi sína kvinnu Heva, því að hún er allra lifendra móðir. Og Guð Drottinn gjörði Adam og hans kvinnu skinnkyrtla og í klæddi þau þeim.
Og Guð Drottinn sagði: „Sjáið, Adam er orðinn so sem einn af oss og veit bæði gott og illt. En uppá það hann ekki skal útrétta sína hönd og taka af því lífsins tré og eta og lifa eilíflega.“
Þá lét Guð Drottinn hann burt úr þeim aldingarði Eden svo að hann skyldi erja jörðina af hverri hann var tekinn. [ Hann rak Adam burt og setti cherúbim fyrir aldingarðinn Eden með eitt nakið sveipanda sverð til að geyma veginn (sem liggur) til lífsins trés.