Nú kallaði Ísak Jakob, son sinn, fyrir sig og blessaði hann, bauð honum og sagði til hans: „Þú skalt ekki taka þér eiginkonu af þeim Kanaans dætrum, heldur tak þig upp og far í Mesopotamian til Batúels, þíns móðurs föðurs húss, og tak þér þar eiginkonu til handa af dætrum Laban, þíns móðurbróður. [ Almáttugur Guð blessi þig og gjöri þig ávaxtarsaman og margfaldi þig so þú verðir til eins mikils fólks. Hann gefi þér Abrahams blessan, þér og þínu sæði með þér, so að þú eignist það land í hverju þú ert framandi, hvert Guð gaf Abraham.“ So sendi Ísak Jakob þangað og lét hann fara í Mesopotamian til Labans Batúelssonar hins sýrlenska, hver að var bróðir Rebekku móður Jakobs og Esaú.
En sem Esaú sá það að Ísak hafði blessað Jakob og sent hann til Mesopotamian að hann skyldi giftast þar og að hann hafði blessað hann, boðið honum og sagt so: „Þú skalt ei taka þér eiginkonu af Kanaans dætrum“ og að Jakob var sínum föður og móður hlýðugur og fór burt í Mesopotamian, hann sá og einnin að hans föður Ísak var ekki um þær Kanaans dætur, þá gekk hann burt til Ísmael og tók sér til eiginkonu dóttur Ísmael Abrahamssonar, Mahalat, systir Nebajót, að auk þeirra kvenna sem hann átti áður. [
En Jakob fór frá Ber-Saba og reisti til Haran. Og hann kom í nokkurn stað, þar var hann um nótt, því að sólin var undirgengin. Og hann tók einn stein í þeim sama stað og lagði hann undir sitt höfuð og lagði sig til svefns í þeim sama stað. Og hann sá í svefni og sjá þú: Einn stigi stóð á jörðu og hann tók allt til himins og sjá, Guðs englar fóru upp og ofan eftir stiganum. Og Drottinn stóð við ofanverðan stigann og sagði: „Eg er Drottinn Guð þíns föðurs Abrahams og Ísaks. Þetta land á hverju þú liggur nú vil eg gefa þér og þínu sæði. [ Og þitt sæði skal verða sem duft á jörðunni og þú skalt útbreiðast til vesturs og austurs, norðurs og suðurs. Og í þér og þínu sæði skulu allar þjóðir á jörðunni blessast. [ Og sjá þú, eg er með þér og eg vil varðveita þig hvert sem þú fer og eg vil færa þig í þetta land aftur. Og eg vil ekki yfirgefa þig fyrr en eg hefi fullkomnað það allt sem eg hefi sagt þér.“
Og sem Jakob vaknaði af sínum svefni sagði hann: „Sannlega er Drottinn í þessum stað og eg vissi það ekki.“ Hann óttaðist og sagði: „Hversu [ heilagur er þessi staður? Hér er ekki annað en Guðs hús og hér er hlið himins.“ Og Jakob stóð upp snemma morguns og tók þann stein sem hann hafði lagt undir sitt höfuð og reisti hann upp til eins marks og hellti viðsmjöri yfir hann. Og hann kallaði þann sama stað Bet-El; áður hét sá staður Lús. [
Og Jakob strengdi eitt heit og sagði: „Ef Guð er með mér og varðveitir mig á þessum vegi sem eg nú ferðast og gefur mér brauð að eta og klæðir mig og færir mig heim aftur til míns föðurs húss með friði, þá skal Drottinn vera minn Guð. [ Og þessi steinn sem eg hefi hér uppreist til eins teikns skal verða Guðs hús. Og eg vil færa þér tíundir af öllu því sem þú gefur mér.“