II.

Og Anna baðst fyrir og sagði: „Mitt hjarta gleður sig í Drottni og mitt horn er upphafið í Drottni. Minn munnur opnaðist mjög yfir mínum óvinum því eg gleð mig í þínu hjálpræði.

Þar er enginn svo heilagur sem Drottinn og fyrir utan þig er enginn annar. Og þar er enginn svoddan frelsari sem vor Guð er.

Afleggið yðvart dramb og hrokan, látið það gamla í burt af yðrum munni, því Drottinn er einn Guð sem gaumgæfir það og lætur ekki svoddan fyrirætlan lukkast.

Boginn þeirra öflugu er brotinn en þeir veiku eru umgyrtir með styrkleika.

Þeir inu söddu eru seldir fyrir brauð en þeir sem líða hungur hungra ekki meir, þar til að sú in óbyrja fæddi sjö og sú sem mörg börn hafði varð veik.

Drottinn deyðir og lífgar, færir niður til helvítis og í burt aftur þaðan. [

Drottinn gjörir fátækan og so ríkan, hann lítillækkar og hann upphefur. [

Hann upplyftir þeim þurftuga úr duftinu og upphefur þann fátæka úr saurnum svo hann setji hann á meðal höfðingjanna og lætur hann erfa stól dýrðarinnar. Því endir veraldarinnar heyrir Drottni til og þar upp á setti hann jarðarkringluna.

Hann mun varðveita fætur sinna heilagra en þeir óguðlegu skulu verða að öngu í myrkrinu því að stór magt hjálpar öngvum.

Þeir sem keppa við Drottin skulu falla í grunn, hann lætur skruggur af himni koma yfir þá.

Drottinn mun dæma veraldarinnar enda og mun gefa sínum kóngi magt og upphefja horn síns Hins smurða.“

Og Elkana gekk heim til Ramót í sitt hús. Og sveinninn var þénari Guðs hjá Elí kennimanni.

En synir Elí voru skálkar, þeir hirtu ekki um Drottin, eigi heldur um embætti kennimannskaparins fyrir fölkinu. [ Þá nokkur vildi færa fórn þá kom prestsins þénari á meðan kjötið sauð og hafði í hendi soðkrók með þrimur greinum og hjó honum í ketilinn, pönnuna eða pottinn og hvað helst sem hann færði upp með soðkróknum það tók presturinn til sín. Svo gjörðu þeir við allt Israelisfólk sem kom til Síló.

Sömuleiðis áður en það feita var upptendrað þá kom prestsins þénari til þeirra sem fórnina færðu og sagði: „Gef mér kjöt að steikja fyrir prestinn því hann vill ekki taka soðið kjöt af þér heldur hrátt.“ Ef nokkur sagði þá til hans: „Lát það feita verða upptendrað fyrst svo sem siður er til í dag og tak síðan hvað þitt hjarta lystir“ þá svaraði hann: „Þú skalt nú í stað gefa mér það en viljir þú ekki þá skal eg taka það með afli.“ Því var þessara sveina synd mjög stór fyri Drottni því fólkið lastaði Drottins matarfórnir.

Samúel þjónaði fyrir Drottni klæddur [ lífkyrtli af líni. Þar til gjörði hans móðir honum einn lítinn kyrtil og færði hann honum upp á ákveðnum tíma þá hún gekk upp með sínum bónda fórnir að færa í heyrilegan tíma. Og Elí blessaði Elkana og hans kvinnu og sagði: „Drottinn gefi þér sæði af þinni kvinnu sökum þeirrar bænar sem hún bað Drottin.“ Og þau gengu til síns heimilis. En Drottinn vitjaði Aunnu svo að hún varð ólétt og fæddi þrjá sonu og tvær dætur. En sveinninn Samúel óx upp fyrir Drottni.

Elí var orðinn mjög gamall og heyrði allt það sem hans synir gjörðu öllu Israelisfólki og að þeir lágu með þeim kvinnum sem þjónuðu fyrir vitnisburðarins tjaldbúðardyrum. Og hann sagði til þeirra: [ „Því gjöri þið slíkt? Eg heyri ykkart vont athæfi af öllu þessu fólki. Ekki svo, mínir synir, það er ekki gott rykti sem eg heyri, þið komið Guðs fólki til yfirtroðslu. Þó að maður misgjöri við mann þá kann dómarinn að slétta þar yfir. En ef nokkur syndgast í móti Drottni, hver kann þá að biðja fyrir hann?“ En þeir hlýddu ekki þeirra föðurs orðum því að Drottinn vildi slá þá í hel. En sveinninn Samúel óx með aldri og var þekkur bæði Guði og mönnum.

En þar kom einn Guðs maður til Elí og sagði til hans: „Svo segir Drottinn: Eg opinberaði mig fyrir þíns föðurs húsi þá þeir enn voru í Egyptalandi í húsi Pharaonis. Og eg útvaldi mér hann af öllum Ísraels kynkvíslum til kennimannsskapar að hann skyldi færa fórnir yfir mitt altari og upptendra reykelsi og bera þann lífkyrtil fyrir ásýnd minni og eg gaf þínu föðurs húsi allan Ísraelssona eld. Hvar fyrir bakspyrnir þú við mínum fórnum og matoffri sem eg bauð (að offra) í tjaldbúðinni? Og þú vegsamar þína sonu meir en mig að þér alið yður með því besta af öllu matoffri Israelisfólks.

Og því segir Drottinn Ísraels Guð: [ Eg hefi talað að þitt hús og þíns föðurs hús skyldi ganga fyrir mér ævinlega. En nú segir Drottinn: Það sé langt frá mér, heldur hver mig heiðrar þann vil eg og heiðra og sá mig foraktar hann skal fyrirlitinn verða. Sjá, sá tími skal koma að eg vil í sundurbrjóta þinn armlegg og þíns föðurs húss armlegg og þar skal enginn gamall verða í þínu húsi. [ Og þú skalt sjá þinn mótstandara í tjaldbúðinni í öllum þeim farsællegum hlutum sem Ísrael skal til falla og þar skal enginn gamall verða í þíns föðurs húsi ævinlega – þó vil eg öngvan uppræta af þér frá mínu altari – svo að þín augu ofskyggnist og þín sál syrgi og mestur fjöldi af þínu húsi skal deyja nær þeir eru komnir til manna.

Og það skal vera þér eitt merki sem koma skal yfir þína tvo syni, Ofní og Píneas, að á einum degi skulu þeir báðir deyja. Og eg vil uppvekja mér einn trúlyndan kennimann. Hann skal gjöra það sem að líkar mínu hjarta og minni sálu og eg vil byggja honum eitt staðfast hús að hann gangi alla daga fyrir mínum Smurða. Og hver sem eftirblífur í þínu húsi hann skal koma og falla niður fyrir honum fyrir einn silfurpening og fyrir einn bita brauðs og skal segja: Kæri, lát mig ná einum kennimannshlut so eg megi eta einn bita brauðs.“