XIX.
En Saul mælti við sinn son Jónatan og so alla sína þénara og bauð þeim að drepa Davíð. [ En Jónatas elskaði Davíð sem sitt eigið hjarta og kunngjörði honum þetta og sagði: „Minn faðir Saul stundar eftir að drepa þig. Þar fyrir gæt þín til morguns og fel þig. En eg skal fara út með föður mínum í mörkina þar þú ert og skal eg tala við minn föður um þig og hvers eg verð af vís skal eg kunngjöra þér.“
Og Jónatas talaði við sinn föður og lagði til hið besta með Davíð og sagði til hans: [ „Kóngurinn gjöri ekki þann glæp á sínum þénara Davíð því að hann hefur ekkert misgjört við þig heldur eru hans verk þér miskunnsamleg. Og hann lagði sitt líf í hættu og sló þann Philisteum og Drottinn gjörði mikla hjálp Israelisfólki. Þetta sástu og varst glaður við. Því viltu þá glæpast á saklausu blóði að þú vilt drepa Davíð án sakar?“ Sál hlýddi fortölum Jónatas og sór (segjandi): „Svo sannarlega sem Drottinn lifir skal hann ekki deyja.“ Þá kallaði Jónatas á Davíð og sagði honum öll þessi orð og leiddi hann inn fyrir Saul. Og hann var fyrir honum sem fyrr.
Þar hófst enn ófriður og Davíð dró út að berjast í mót Philisteis og veitti þeim mikið slag so að þeir hrukku fyrir honum. [ En illur andi af Drottni kom yfir Saul þar hann sat í sínu húsi og hélt á einu spjóti. En Davíð lék á hörpu sína. Og Saul ætlaði að nísta Davíð í gegnum við vegginn. En hann hallaðist undan og spjótið stóð fast í veggnum. En Davíð flúði og komst undan þá sömu nótt.
Þá sendi Saul boð til Davíðs húss og bauð sínum mönnum að gæta hans þar þá nótt en strax að morni skyldi drepa hann. [ Þetta kunngjörði Míkól Davíð og sagði: „Ef þú forðar ekki þinni sálu á þessari nóttu þá muntu deyja á morgun.“ Þá lét Míkól hann síga út um eitt vindauga so hann gekk burt, flýði og komst undan. Og Míkól tók eitt manlíkan og lagði í sængina og lét eina geitstöku undir þess höfuð og huldi það með klæðum. Þá sendi Saul boð og skipaði að sækja Davíð. En hún sagði: „Hann er sjúkur.“ Enn sendi Saul aftur og skipaði þeim að skoða Davíð og sagði: „Berið hann hingað til mín í sænginni so hann sé drepinn.“ En sem sendimenn komu, sjá, þá lá mannlíkan í sænginni og geitarskinn undir höfðinu. Þá sagði Saul til Míkól: „Því hefur þú svikið mig og látið minn óvin í burt komast?“ Míkól svaraði: „Hann sagði við mig: Lát mig fara elligar skal eg drepa þig.“
Davíð flýði nú og komst undan og fór til fundar við Samúel í Rama og sagði honum allt frá hvað Saul hafði gjört honum. [ Og hann gekk með Samúel og þeir dvöldust í Najót. Og Saul fékk það að spyrja: „Sjá, Davíð er í Najót í Rama.“ Þá sendi Saul menn að þeir skyldu færa Davíð til hans. Og þeir fundu spámannaflokka sem spáðu og Samúel var þeirra tilsjónari. Jafnsnart kom Guðs andi yfir sendimenn Saul svo að þeir spáðu með öðrum. Þá Saul spurði það sendi hann þegar aðra menn. Þeir spáðu og svo. Hann sendi hina þriðju og fór á sama hátt að þeir spáðu einnin.
Þá fór hann sjálfur til Rama. En sem hann kom að þeim stóra brunni sem stendur í Sekú spurði hann að og sagði: „Hvar eru þeir Samúel og Davíð?“ En honum var sagt: „Sjá, þeir eru til Najót í Rama.“ Og hann gekk til Najót í Rama. Og Guðs andi kom og so yfir Saul og hann gekk fram og spáði þar til hann kom allt til Najót í Rama. Og hann kastaði af sér klæðum og spáði fyrir Samúel og féll fram nakinn allan þann dag og þá nótt með. Þaðan hófst sá orðskviður: „Hvort er Saul og á meðal spámanna?“