XVIII.

Nú sem Davíð hafði endað ræðu sína við Saul þá kveiktist ástarband í hjarta Jonathe til Davíðs og Jónatas elskaði Davíð sem sitt eigið hjarta. Og á þeim degi tók Saul Davíð að sér og lét hann ekki koma aftur í síns föðurs hús.

En Jónatas og Davíð bundu sáttmál með sér því hann elskaði hann svo sem sitt hjarta. [ Og Jónatas tók sinn kyrtil af sér sem sjálfur hann íklæddist og gaf Davíð, þar með sína skikkju, sitt sverð, boga sinn og belti. Og Davíð gekk út þangað sem Saul sendi hann og hegðaði sér viturlega. Og Saul setti hann yfir sitt stríðsfólk og hann var geðþekkur öllum mönnum og Sauls þénörum.

Það bar að þá hann var kominn aftur frá bardaga Philisteis að kvinnur af öllum borgum gengu út í mót Saul kóngi og slógu hringleika með söngfærum, með hörpum og gígjum og mikilli gleði. [ Og kvinnurnar sungu til skiptis, léku fyrir og sögðu: „Saul vann sigur á þúsund en Davíð á tíu þúsundum.“ Þessu reiddist Saul mjög og það mislíkaði honum og sagði: „Þær gefa Davíð tíu þúsund en mér eina. Hvað skortar hann nema kóngdóminn?“ Og Saul leit ekki réttum augum til Davíðs frá þeim degi og ætíð síðan.

Á næsta degi æsti illur andi Guðs Saul og hann spáði heima í sínu húsi. En Davíð lék á hörpu sína með hendi sinni sem hann var daglega vanur. Og Saul hélt á einu spjóti og skaut því til hans og hugsaði: „Eg vil nísta Davíð í gegnum upp við vegginn.“ En Davíð veik sér tvær reisur frá honum. Og Saul var hræddur við Davíð því Drottinn var með honum en var horfinn frá Saul. Eftir það skikkaði Saul Davíð frá sér og setti hann höfðingja yfir þúsund menn og hann gekk út og inn fyrir fólkinu. Davíð hélt sig forsjálega í öllum sínum gjörningum og Drottinn var með honum.

Og sem Saul sá það að hann hegðaði sér svo forsjálega þá hræddist hann Davíð. En allur Israelislýður og Júda elskaði Davíð því að hann gekk út og inn fyrir þeim.

Og Saul mælti við Davíð: „Sjá, eg vil gifta þér mína elstu dóttir Merób. [ Vertu aðeins hraustur að heyja bardaga fyrir Guðs fólk.“ Saul hugsaði svo: „Ei skal eg leggja mínar hendur á hann heldur skal hann koma í hendur þeirra Philisteis.“ En Davíð svaraði: „Saul, hver em eg og hvað er mitt líf og mitt föðurkyn í Ísrael að eg skuli verða kóngs mágur?“ Nú sem sá tími kom að Merób dóttir Saul skyldi giftast Davíð þá varð hún gefin öðrum manni sem hét Adríel Mehalachiter.

En Míkól dóttir Saul elskaði Davíð. Sem Saul fékk það að vita sagði hann: „Það er vel, hann skal fá hennar so það verði honum til falls so að hendur Philistei falli yfir hann.“ Og hann sagði til Davíðs: „Á þessum degi skalt þú verða minn mágur að annarri minni dóttur.“ Og Saul bauð sínum þénurum að tala heimuglega við Davíð og segja: „Sjá þú, kóngurinn hefur mikla þóknan á þér og allir hans menn hafa þig kæran. So verð nú kóngsins mágur.“

Og öll þessi orð töluðu kóngsins þénarar fyrir Davíðs eyrum. En Davíð svaraði: „Þykir yður það so lítilsvert að vera kóngsins mágur? Eg em einn fátækur og lítilsháttar maður.“ Þénarar Saul kunngjörðu Saul aftur orð Davíðs. En Saul svaraði: „Segið svo aftur Davíð: Kóngurinn girnist öngva morgungáfu utan hundrað forhúðir af þeim Philisteis so að goldin verði hefnd kóngsins óvinum.“ Því Saul hugsaði að fella svo Davíð fyrir hönd Philisteis. Þessi orð Saul fluttu hans þénarar til eyrna Davíð og Davíð líkaði þetta vel, að verða mágur kóngsins.

Og fyrir ákveðinn tíma bjó Davíð sig og sló af Philisteis tvö hundruð manns. Og Davíð bar með sér forhúðirnar og taldi þær fram fyrir kóngi so að hann yrði mágur kóngs. Þá gaf Saul honum Míkól sína dóttir til eiginkvinnu. En Saul sá og merkti að Drottinn var með Davíð. Og Míkól, dóttir Saul, elskaði Davíð. [ Þá óttaðist Saul enn meir Davíð og fékk þá fjandskap til hans alla sína daga. Og þá Philistei höfðingjar herjuðu á Ísrael þá var Davíð forsjálari en allir þénarar Saul nær sem þeir áttu út að fara so að hann varð mjög nafnfrægur.