V.
Synir Símeon voru Nemóel, Jamín, Jaríb, Sera og Saul. [ Hans son var Sallúm, hans son var Mibsam en hans son var Misma. En sonur Mismas var Hamúel, hans son var Sakúr og hans son var Símeí. En Símeí hafði sextán syni og sex dætur en hans bræður höfðu ekki mörg börn. Og hans ætthringur jók sig ekki svo sem Júdasynir.
Og þeir bjuggu í Bersaba, Mólada, Hasar Súal, Bílha, Esem, Tólad, Betúel, Harma, Siklag, Bet Markabót, Hasar Sússem, Bet Bíerí, Saaraím. Þetta voru þeirra staðir allt til daga Davíðs kóngs. Þar með þorp þeirra: Etam, Aín, Rimmon, Tóken, Asan, þeir fimm staðir og öll þau þorp sem að voru í kringum þessa staði allt að Baal. Það eru þeirra heimili og þeirra ættleifð á meðal þeirra sjálfra.
Og Mesósab, Jamlek og Jósa son Amasía, Jóel, Jehú sonur Jósibja, sonar Saraja, sonar Asíel, Elíóenaí, Jeakóba, Jósóhaja, Asaja, Adíel, Ísmael og Benaja, Sísa son Sífeí, sonar Alon, sonar Jedaja, sonar Simrí, sonar Semaja. Þessir voru þeir nafnkunnugu höfðingjar í þeirra ætt og í þeirra feðra húsi og þeir margfölduðust mjög.
Og þeir drógu í burt svo þeir kæmi til Gedor að austanverðum dalnum og leituðu að haglendi handa sínum hjörðum. Og þeir fundu feitt og gott haglendi og eitt land bæði vítt og breitt, spakt og frjósamt því að þeir af Kam höfðu búið þar forðum. En þeir sem nú eru skrifaðir komu í Ezechie Júdakóngs tíð og slógu hinna annarra tjaldbúðir og heimili sem þar urðu fundnir og foreyddu þeim inn til þessa dags og bjuggu í þeirra stöðum því að þar var ágætt haglendi fyrir fé. Og þar gengu út af sonum Símeon fimm hundruð manns allt til fjallsins Seír með sínum höfðingjum: Platja, Naerja, Refaja og Úsíel, synir Jesei, og slógu þá í hel sem eftir höfðu orðið af þeim Amalechiter og bjuggu þar inn til þessa dags.