XIIII.

Eftirfylgið kærleikanum og kostgæfið í andlegum gjöfum en þó mest í því að þér mættuð spádóma fyrirsegja. [ Því að hann sem [ tungunar talar hann talar eigi mönnum heldur Guði því að honum heyrir enginn en í andanum talar hann leynda dóma. En hann sem spádóma segir fyrir sá talar mönnum til betrunar og til áminningar og til huggunar. Sá tunguna talar hann forbetrar sjálfan sig en sá sem spádóma segir fyrir hann forbetrar Guðs söfnuð. Eg vilda að þér kynnið allar tungur að tala en þó miklu heldur þér segðuð spádóma fyrir. Því að sá sem spádóma segir fyrir hann er þeim meiri sem tunguna talar utan að so sé hann leggi það út so að söfnuðurinn fái þar af forbetran. En nú, góðir bræður, þótt eg kæmi til yðar og talaði tungur, hvað væri eg yður gagnlegur? Nema að eg talaði til yðar annaðhvort fyrir opinberan eða fyrir skynsemi eða fyrir spásagnir eða fyrir lærdóm. Er þeim hlutum eigi so háttað er hljóða en lifa eigi? Hvort það er nú pípa eður harpa. Fyrst það gefur öngvan greinilegan hljóm af sér, hvernin má þá vitast hvað pípað er eða hvað harpað er? Og ef lúðurinn hefur óskilmerkilegt hljóð hver mun þá vilja búast til bardagans? Líka og þér: Nær þér talið tungur, utan þér gefið fram skilmerkilega ræðu hvernin má þá vitast hvað talað er? Því að þér talið þá í vind.

Sennilega er margt raddarkyn í þessum heimi og þó er ekkert þeirra óskilmerkilegt. Og fyrst eg veit ekki þýðing málsins þá verð eg þeim sem talar óskiljanlegur og hann sem talar verður mér óskiljanlegur. So og líka þér. Fyrst þér eruð eftirfylgjarar andlegra gjafa þá leitið eftir því að forbetra söfnuðinn upp á það þér gefið og fulla nægð.

Hvar fyrir sá sem tunguna talar hann biðji so að hann útleggi það. Því fyrst eg bið með munninum þá biður og minn andi en mitt hugskot ber öngvan ávöxt. Hvernin fer þá? Einkum so: Það eg vil með andanum biðja og eg vil biðja í hugskotinu. Sálmana vil eg syngja með andanum og eg vil sálmana syngja [ með hugskotinu.

En þá þú blessar í andanum hvernin skal þá sá sem í leikmannsins stað stendur amen segja yfir þinni blessan með því hann veit eigi hvað þú segir? Sennilega gjörir þú góðar þakkir en hinn annar betrast þar eigi af. Eg þakka Guði mínum það eg tala meir tungur en allir þér og heldur vil eg tala fimm orð í söfnuðinum með mínu [ sinni so að eg lærði aðra heldur en tíu þúsundir orða með tungunni.

Góðir bræður, verið engin börn í skilningarsinnunum heldur verið börn í illskunni en verið algjörðir í skilningarsinnunum. Í lögmálinu er so ritað: „Eg mun með annarlegum tungum og annarlegum vörum tala til lýðs þessa og eigi munu þeir heldur mig heyra, segir Drottinn.“ Þar fyrir eru tungurnar til teikns, eigi þeim sem trúa heldur vantrúuðum. En spádómurinn er eigi vantrúuðum heldur trúuðum.

Þótt nú allur söfnuðurinn kæmi til samans í einn stað og töluðu allir tungur en þar gengi inn ólærður leikmaður eða vantrúaður, segðu þeir ekki að þér væruð galdir? En ef þér segðuð allir spádóma fyrir og þar gengi inn einhver vantrúaður eða ólærður, sá yrði þegar af öllum þeim yfirunninn og af öllum dæmdur og þá yrði so leyndir dómar hans hjarta opinberir og so væri hann framfallandi á sitt andlit Guð að tilbiðja, sannarlega það viðurkennandi að Guð sé með yður.

Hversu á það að fara, góðir bræður? nú so oft sem þér komið til samans þá hafi hver yðar einn lofsálm eða hafi hann lærdóma eða hafi hann tungur eða hafi hann opinberanir eða hafi útlegging, þá látið það allt ske til betrunar. Og ef einhver talar tungur þá verði það annað hvert af tveimur eða mest af þrimur og það sín á milli so að einn leggi það út. En ef hann er enginn útleggjari þá þegi hann í söfnuðinum og tali sér sjálfum og Guði.

En spámenn tali tveir eða þrír og hinir aðrir dæmi um. En ef öðrum birtist þeim eð hjá situr þá þegi hinn fyrri. Því að allir megi þér spádóma fyrir segja, hver eftir annan, so að allir læri og allir verði áminntir. Og andi spámannanna er spámönnunum undirvorpinn. Því að Guð er eigi Guð vanheiðursins heldur friðarins, svo sem í öllum söfnuðum heilagra. Yðrar húsfreyjur látið þegja í söfnuðinum því að þeim má ei leyfast að tala heldur undirgefnar að vera eftir því sem lögmálið vottar. En ef þær vilja nokkuð læra þá spyrji þær menn sína að því heima. Því að konunni eru það lýti að tala í safnaðinum. Eða er Guðs orð af yður útkomið? Eða er það til yðra einnasaman komið? Ef nokkrum þykir það hann sé spásagnamaður eða andlegur þá viðurkenni sá hvað eg skrifa yður því að það eru boðorð Drottins. En ef nokkur er skynlaus þá sé hann skynlaus. Fyrir því, góðir bræður, kostgæfið spádómana að segja og fyrirbjóðið ekki tungurnar að tala. Látið allt siðsamlega og eftir skikkan ske yðar á milli.