Nær eð þar er nökkurt kærumál manna í millum þá skulu þeir koma til dóms að þar dæmist á millum þeirra og láta þann hinn réttferðuga ske rétt og dæma hinn sakaða. [ Og ef sá hinn rangláti hefur forþént slög þá skal dómarinn slá hann þar niður fyrir sér og skal veita honum slög eftir því sem hans misgjörð er stór til. Nær eð maður hefur gefið honum fjörutígi högg þá skal ekki slá hann meira so að hann verði ekki ofmjög sleginn ef að honum verða fleiri högg gefin og að þinn bróðir líði minnkun fyrir þínum augum.
Þú skalt ekki múlbinda það nautið sem kornið þreskir.
Hvar sem bræður búa hvor hjá öðrum og einn af þeim deyr barnlaus þá skal húsfreyjan þess hins framliðna öngvan framandi mann taka þar utan að heldur skal hennar eigin mágur liggja hjá henni og taka hana sér til húsfreyju og eiga hana. [ Og þann fyrsta son sem hún fæðir skal hann staðfesta eftir síns framliðins bróðurs nafni svo að hans nafn skuli ekki útsléttast af Ísrael.
En ef sá sami maður vill ekki taka sína bróðurkonu til húsfreyju þá skal hún, hans bróðurkona, ganga upp til portdyranna fyrir öldungana og segja: „Minn mágur hann vill ekki uppvekja sínum bróður eitt nafn í Ísrael og vill ekki eiga mig.“ [ Þá skulu öldungarnir af staðnum kalla hann fyrir sig og tala við hann. Nær eð hann stendur þá á því og segir: „Ég vil ekki eiga hana“ þá skal hans mágkona ganga að honum fyrir öldungunum og taka annan skóinn af hans fæti og hrækja á hann og skal svara þessu og segja: „Svo skal mann gjöra við sérhvern þann sem ekki vill uppbyggja síns bróðurs hús.“ Og hans nafn í Ísrael skal kallast hús hins berfætta.
Nær eð tveir menn deila sín á millum og hins annars eiginkona hleypur að og vill hjálpa manni sínum af hans höndum sem slær hann og hún útréttir þá sína hönd og grípur um hans leyndarlim þá skalt þú höggva af hennar hönd og þitt auga skal ekki vægja henni.
Þú skalt ekki hafa í þínum sjóð tveggja handa vogir, aðra stærri en aðra minni. [ Þú skalt ekki heldur hafa í þínu húsi tvenna mæliaska, einn stóran og annan lítinn. Þú skalt hafa eina fulla og rétta vog og einn fullan og réttferðugan mælir so að þú megir lengi lifa í því landi sem Drottinn Guð þinn mun gefa þér. Því að hver sem gjörir þetta hann er ein svívirðing fyrir Drottni Guði þínum svo em að allir eru þeir eð illt gjöra. [
Minnst þú á það hvað Amalechiter gjöru þér á veginum þá er þér dróguð út af Egyptalandi, hvernin að þeir ofurféllu þá á veginum og slógu þá sem aftast gengu, alla þá sem veikir voru og eftir á fóru, þá þú vart bæði lúinn og dasaður, og þeir hræddust ekki Guð að því. [ Nær eð Drottinn Guð þinn gefur þér nú hvíld fyrir öllum þínum óvinum kringum þig í landinu sem Drottinn Guð þinn gefur þér til eignar að erfa þá skalt þú með öllu afmá minning þeirra Amalechitis undir himninum. Forgleym því ekki.