V.
Og á þeim þriðja degi skrýddist Ester konunglegum skrúða og gekk inn í forgarðinn að kóngsins höllu innan til gegnt kóngsins herbergi. Og kóngurinn sat í sínu kónglega hásæti gagnvart húsdyrunum. Og þegar kóngurinn sá Ester drottningu standandi í forgarðinum fékk hún náð fyrir hans augliti. Og kóngurinn útrétti gullspíruna þá hann hafði í sinni hendi í mót Ester. Hún gekk að og snart oddinn á spírunni. Þá sagði kóngurinn til hennar: „Ester drottning, hvað er þér? Og hvers beiðist þú? Þó þú biðjir mig um helft míns ríkis þá skal þér gefast það.“ Ester svaraði: „Ef það þóknast svo kónginum þá bið eg að kóngurinn komi í dag og svo Aman til þess gestaboðs sem eg hefi tilbúið.“ Kóngurinn sagði: „Farið sem skjótast og kallið á Aman að hann gjöri so sem Ester hefur sagt.“
Og sem kóngurinn og Aman voru komnir til gestaboðsins hvert Ester hafði tilbúið sagði kóngurinn til Ester þá hann hafði nú drukkið vín: „Hver er þín bæn Ester? Hvað þú vilt skal þér veitast þó það væri helmingurinn míns kóngsríkis, þá skal það ske.“ Þá svaraði Ester og sagði: „Mín bæn og bón er það: Hafi eg fundið náð fyrir kónginum og ef það líkar kónginum að veita mér mína bæn og að gjöra sem eg bið þá komi kóngur og Aman til þess gestaboðs sem eg vil reiðubúa fyrir þeim. So vil eg gjöra á morgun eftir kóngsins orði.“
Svo gekk Aman út á þeim degi, glaður og með góðum huga. En sem hann sá Mardokeum í kóngsins porti, að hann stóð ekki upp og hrærði sig hvergi úr sínu sæti fyri honum varð hann bólginn af reiði við Mardokeum. En hann stillti sig þó. Og sem Aman kom heim þá sendi hann út og lét samankalla sína vini og sína hústrú Seres og framtaldi fyrir þeim sína ríkdóms dýrð og fjölda sinna sona og svo allt saman hversu kóngurinn hafði gjört hann formegtugan fram yfir alla kóngsins höfðingja og þénara. Einnin sagði Aman: „Og drottningin Ester lét öngvan koma til gestaboðsins með kónginum utan mig, eg er og svo boðinn til hennar á morgun aftur með kónginum. En allt þetta nægist mér ekki svo lengi sem eg sé þann Gyðing Mardokeum sitja hjá kóngsins porti.“ Þá svaraði hans kvinna Seres honum og allir hans vinir: „Bjóð þú að reisa skuli upp eitt tré fimmtígi álna hátt og seg þú á morgun til kóngsins að Mardokeus sé hengdur á því. So kemur þú glaður til gestaboðsins með kónginum.“ Þetta líkaði Aman vel og hann lét tilbúa tréð.