XLVII.

Og hann leiddi mig inn aftur að dyrunum musterisins og sjá þú, að þar flaut eitt vatn út undan þröskuldinum musterisins mót austrinu. Því að dyrnar musterisins horfðu og einnin á móti austrinu. Og vatnið rann á þá hægri hliðina hjá musterinu, hægra megin hjá altarinu í mót suðrinu. Og hann leiddi mig út af portinu mót norðrinu í frá því yðsta portinu mót austrinu og sjá þú, að þar spratt út vatn af hinn hægri hliðinni.

Og maðurinn gekk út mót austrinu og hafði einn mælistreng í hendinni. Og hann mælti þúsund álnir og leiddi mig í vatnið þangað til að það tók mér í ökkla. Og hann mælti enn einu sinni þúsund álnir og leiddi mig í vatnið þangað til að það tók mér í hné. Hann mælti enn einu sinni þúsund álnir og lét mig vaða þangað til að það tók mér enn í mitt lær. Þá mælti hann enn þúsund álnir og þá varð það so djúpt að eg grynnta ekki því að vatnið var so djúpt að þar mátti synda yfir um og eg kunni eigi að ná til grunnsins. Og hann sagði til mín: Þú mannsins son, þetta hefur þú nú séð.

Og hann leiddi mig aftur um sama veg til lands og sjá þú, að þar stóðu nærsta mörg tré hjá ströndinni beggjamegin. Og hann sagði til mín: Það vatnið sem rennur út héðan móti austrinu það skal rinna í gegnum það sléttlendið út í sjávarhafið og í frá því eina sjávarhafinu í það annað. Og nær eð það kemur út í hafið þá skal það sama vatn vera heilsusamlegt, já allt það sem þar lifir út í og hrærir sig, þangað sem er þessir vatsstraumarnir þeir koma það skal lifa og skal hafa mjög marga fiska og allir skulu þeir lifa og heilsusamlegir verða hvar eð þessi vatsstraumur hann kemur.

Og fiskararnir skulu standa við þann hinn sama í frá Engeddí og inn til En Egglaím þá skulu þeir útbreiða fiskinetin. Því að þar skulu vera mjög margir fiskar líka sem í því hinu mikla sjávarhafinu. En síkin og pyttirnir þeir munu ekki heilnæmir vera heldur saltir.

Og hjá ströndinni við sama vatsfall beggjamegin skulu vaxa allra handa frjósamleg aldintré og þeirra laufblöð skulu ekki visna og þeirra aldin skulu ekki rotna og hvern mánað skulu þau bera nýjan ávöxt því að þeirra vatn rennur út af helgidóminum. Þeirra ávöxtur skal duga til matar og þeirra laufblöð til lækninga.

So segir Drottinn Drottinn: Þessi eru þau landamerkin eftir hverjum þér skuluð útskipta landinu á millum þeirra tólf kynkvísla Ísraels því að tvö hlutskiptin heyra Jósef ættlegg til og þér skuluð skipta því jafnt út eins sem öðrum því að eg hefi upphafið mína hönd so það eg vil gefa yðar forfeðrum og so yður landið til arfleifðar.

Þessi eru nú endimörkin landsins móti norðrinu: Í frá því mikla sjávarhafinu, í frá Hetlón inn til Sedat sem er Hemat, Beróta, Sibraím sem nálægir sig við Damasco og Hemat og Haser Tíkón sem liggur við Haveran. Það skulu vera landamerkin frá hafinu inn til Haser Enón og Damascus og Hemat skal vera landsendinn móti norðrinu.

En landamerkin mót austrinu skulu þér mæla millum Haveran og Damasco og millum Gíleað og millum landsins Ísraels hjá Jórdan inn til sjávarhafsins móti austrinu. Það skulu vera landamerkin móti austrinu.

En landamerkin móti suðrinu eru í frá Tamar inn til Þrætuvatsins í Kades og móti því vatsfallinu til hins mikla hafsins. Það skulu vera landamerkin móti suðrinu.

Og landamerkin móti vestrinu eru í frá því Hinu mikla hafinu beinleiðis inn til Hemat. Það skulu vera landamerkin móti vestrinu.

So skulu þér nú útskipta landinu á meðal þeirra kynkvislanna Ísraels. Og nær eð þér kastið því hlutfallinu til að útskipta landinu á meðal yðar so skulu þér halda þá hinu framandi sem þá búa hjá yður og ala þar börn hjá yður líka sem þá innbyggjarana landsins á meðal Ísraelssona. Og þeir skulu einnin hafa sína hlutdeild í landinu, hver sem einn á meðal þess slektisins sem hann býr hjá, segir Drottinn.