VIII.

Og þeir menn af Efraím sögðu til hans: „Því gjörðir þú svo að þú vildir ekki kalla oss þá þú fórst í þetta stríð í mót þeim Madianitis?“ Og þeir þráttuðu harðlega við hann. Þá sagði hann til þeirra: „Hvað hefi eg þess gjört sem jafnast má við yðar gjörninga? Er ekki einn vínkvistur betri af Efraím heldur en öll vínyrkja Abíeser? Drottinn hefur gefið höfðingja þeirra Madianitis, Óreb og Seb, í yðar hendur. Hvernin mátta eg gjöra það sem þér hafið gjört?“ Og þá hann hafði það talað stilltist þeirra reiði.

En þegar að Gideon kom til Jórdanar fór hann yfir um með þau þrjú hundruð manns sem voru með hönum og þeir þreyttust að reka herflóttann. Og hann sagði til þeirra innbygjara í Súkót: „Eg bið yður, gefið þeim mönnum sem með mér eru nokkuð brauð því þeir eru þreyttir so eg megi sækja eftir þeim Seba og Salmúna Madianiters kóngum.“ [ En þeir yppustu í Súkót svöruðu: „Eru hnefar þeirra Seba og Salmúna alla reiðu í þínum höndum svo vér skulum gefa þínum hermönnum brauð?“ Gideon svaraði: „Nú vel, þá Drottinn gefur Seba og Salmóna í mína hönd þá vil eg í sundurþreskja yðart hold með þyrnum af eyðimörku og þistlum.“ Og hann reisti þaðan og upp til Pnúel og talaði eins til þeirra. [ Og þeir menn í Pnúel gáfu honum eins svar og hinir sem voru í Súkót. Og hann sagði eins til þeirra í Pnúel: „Ef eg kem aftur í friði þá vil eg og niður brjóta þennan kastala.“

En Seba og Salmúna voru í Karkór með sínum her sem var nær fimmtán þúsundir og þessir voru eftir orðnir af þeim öllum her úr austurlandi. En það herlið sem fallið var var hundrað og tuttugu þúsundir manna sem vopnfærir voru. [ Og Gideon ferðaðist upp á þann veg þar menn bjuggu í tjaldbúðum austur frá Nóba og Jagbeha og sló þann her því sá her óttaðist ekki að sér. Og Seba og Salmúna flýðu en hann rak flóttann eftir þeim og handtók báða Madianitis kónga, Seba og Salmúna, en hræddi allan herinn.

En sem Gideon son Jóas kom aftur úr þessum bardaga fyrir sólaruppruna þá handtók hann einn mann af því fólki í Súkót og aðspurði hann. Hann skrifaði honum upp þá yppustu í Súkót og þeirra öldunga, sjö og stjötígi menn. Og hann kom til þeirra í Súkót og sagði: „Sjáið, hér er Seba og Salmúna um hverja þér hædduð mig og sögðuð: Er þá Seba og Salmúna hnefar með öllu þér í höndum að vér skulum gefa brauð þínu fólki sem þreytt er?“ Og hann tók þá hina elstu í staðnum og þyrna og þistla í eyðimörku og lét fólkið í Súkót kenna á þeim. Og þann kastala í Pnúel braut hann niður en drap fólkið í staðnum.

Eftir þetta sagði hann til Seba og Salmúna: „Hvernin voru þeir menn í hátt sem þér í hel slóguð í Tabor?“ Þeir svöruðu: „Þeir voru þér líkir og hver þeirra so prýðilegur sem kóngson væri.“ Hann sagði: „Það voru mínir bræður, synir minnar móður. Svo sannlega sem Drottinn lifir: Hefðuð þér látið þá lifa þá skylda eg ekki hafa slegið ykkur í hel.“ Og hann sagði til síns frumgetins sonar Jeter: „Statt upp og drep þá.“ En sveinninn dró ei sitt sverð út því hann óttaðist sökum þess að hann var ennþá barn að aldri. Seba og Salmúna sögðu: „Statt þú upp og vinn á okkur því að afl fylgir aldri mannsins.“ Þá stóð Gideon upp og sló Seba og Salmúna báða í hel og tók þær spangir sem voru um háls þeirra úlfalda.

Þá töluðu nokkrir af Ísrael til Gideon: „Vert þú herra yfir oss, þú og þinn son og þinn sonarson, sökum þes að þú hefur frelsað oss af höndum þeirra Madianiter. En Gideon svaraði þeim: „Eigi vil eg vera herra yðar, minn son skal og enginn herra yfir yður vera, heldur Drottinn, hann skal vera herra yfir yður.“

Gideon sagði til þeirra: „Eins hlutar beiðunst eg af yður að hver yðar einn gefi mér þær ennisspengur sem hann hefur að herfangi fengið.“ Því að þeir Ísmaelítar höfðu gullhlaðir um enni. Þeir sögðu: „Þær viljum vér gefa þér.“ Og þeir breiddu niður eitt klæði og lagði hver einn og einn þar upp á þær ennisspengur sem hann hafði fengið. En þessar ennisspengur sem hann eftirbaðst vógu eftir réttri vigt þúsundruð og sjö hundruð secel gulls fyrir utan þær spangir og keðjur og skarlatsklæði sem þeir Madianiter kóngar báru og so án þeirra hálsbanda sem þeirra reiðskjótar báru. Og af þessu gjörði Gideon einn lífkyrtil og setti hann í sinn stað til Ofra. [ Og allur Ísrael framdi hór þar með og það varð Gideoni og hans húsi til [ hneykslunar.

So lægðist ofstopi þeirra Madianitis fyrir Ísraelssonum svo þeir hófu ekki meir upp sitt höfuð. Og landið var kyrrt um fjörutígi ár, svo lengi sem Gideon lifði.

Og Jerúbbaal son Jóas fór og bjó í sínu húsi. Og Gideon hafði sjötígi sonu sem komnir voru af hans lendum því hann átti margar konur. [ Og hans frilla sem hann hafði í Síkem fæddi honum einn son og kallaði hann Abímelek. Og Gideon son Jóas andaðist í góðri elli og var jarðaður í síns föðurs gröf, Jóas í Ofra, sem heyrði til þeirra fauður Efriter. [

Eftir fráfall Gedeonis þá sneru sér Ísraelssynir og frömdu hóranir eftir Baalím og gjörðu sér Baal Berit til eins afguðs. [ Og Ísraelssynir minntust ekki á Drottin sinn Guð þann sem þá hafði frelsað af alra þeirra óvina hendi allt um kring og þeir veittu öngva miskunn Jerúbbaal Gideons húsi so sem hann hafði þó allt gott gjört Israelis húsi.