XVII.

Þar kom og einn af sjö englunum sem höfðu sjö skálirnar, talaði við mig og sagði til mín: [ „Kom, eg man sýna þér dóm hinnar miklu hórkonu sem á mörgum vötnum situr meður hverri hóranir drýgt hafa konungar jarðarinnar og þeir sem á jörðu búa eru drukknir orðnir af hennar hórunarvíni.“ Og hann flutti mig í anda á eyðimörk. Og eg sá þá konu sitja á fagurrauðu dýri, fullu af nöfnum háðungarinnar, hafandi sjö höfuð og tíu horn. Og konan var klædd purpura og pelli rauðu og umprýdd gulli og gimsteinum og perlum. Og í hennar enni skrifuð nöfn [ leyndardómsins: Hin mikla Babýlon, móðir frillulifnaðanna og allrar svívirðu á jörðu. Og eg sá þá konu drukkna af blóði heilagra og af blóði píslarvotta Jesú. Og eg undraðist mjög þá eg sá hana.

Og engillinn sagði til mín: „Hvar fyrir undrast þú? Eg man segja þér leyndan dóm konunnar og dýrsins þess sem hana ber og hefur sjö höfuð og tíu horn. Það [ dýr sem þú hefur séð það var og er eigi og mun upp aftur koma af undirdjúpinu og mun svo fara í fyrirdæmingina. Og þeir sem á jörðu búa, hverra nöfn eigi eru skrifuð á lífsbókinni í frá upphafi veraldar, munu undrast nær þeir sjá dýrið það er var og eigi er, hvert þó er. Og hér er það hugskot hvert speki hefur.

Þau sjö höfuðin eru sjö fjöll á hverjum konan situr og það eru sjö konungar. Fimm eru fallnir og einn er enn og sá annar er ei enn kominn og nær hann kemur hlýtur hann stuttan tíma að blífa. Og það dýrið sem var og er eigi það er sá inn áttandi og er út af þeim sjö og fer í fordæmingina. Og þau tíu horn þú hefur séð það eru tíu konungar þeir eð ríkið enn eigi meðtóku en munu um stutta stund líka sem konungar meðtaka magt með dýrinu. Þessir hafa það eitt ráð að þeir munu gefa sinn kraft og magt dýrinu. Þeir munu og stríða við lambið og lambið mun þá yfirvinna því að það er Drottinn drottnanna og konungur konunganna og með því þeir sem kallaðir og útvaldir og trúaðir eru.“

Og hann sagði til mín: „Vötnin þau þú hefur séð þar eð hórkonan situr á eru fólk og lýðir og heiðnar þjóðir og tungumál. Og þau tíu hornin sem þú hefur séð á dýrinu þau munu hata hórkonuna og munu hana sneyða og nakta gjöra og munu hennar hold eta og hana með eldi brenna. Því að Guð gaf í þeirra hjörtu að gjöra hvað honum þóknast að þeir gjöra einn vilja og að þeir gefi dýrinu sitt ríki þangað til að fullkomnað yrði Guðs orð. Og konan sem þú hefur séð er hin mikla borg hver sitt ríki hefur yfir konungum jarðarinnar.“