XX.

Á einum þvottdeginum þá kemur María Magdalena snemma þá að enn var myrkt til grafarinnar og sér að steinninn er burttekinn af gröfinni. [ Þá hleypur hún og kemur til Símonar Péturs og til hins annars lærisveins þann eð Jesús elskaði og segir til þeirra: [ „Þeir hafa tekið burt herrann úr gröfinni og vér vitum eigi hvar þeir hafa lagt hann.“ Þá gekk Pétur út og hinn annar lærisveinn og komu til grafarinnar. En þau tvö hlupu jafnt því hinn annar lærisveinn hljóp vakrara fram en Pétur og kom fyrst til grafarinnar. Og er hann laut niður þá sá hann línlökin lögð þar en þá sté hann eigi inn. Þá kemur Símon Petrus eftir honum, stígur í gröfina og sér að línlökin eru lögð þar og þann sveitadúk er var um Jesú höfuð ei lagðan með línlökunum heldur sérdeilis saman undinn í einum öðrum stað. Þá sté og hinn annar lærisveinn inn sá er fyrri kom til grafarinnar, sá það og trúði [ því. Því að þeir kunnu þá eigi enn Ritningina það honum byrjaði upp að rísa af dauða. Og þá gengu lærisveinarnir aftur til sjálfra sinna.

En María stóð við gröfina úti og grét. Og er hún grét þá laut hún niður í gröfina og sá tvo engla hvítklædda sitjandi þar, einn til höfða en annan til fóta sem þeir höfðu lagt líkama Jesú. Og þeir sögðu til hennar: „Kona, hvað grætur þú?“ Hún sagði þeim: „Þeir hafa tekið burt herrann minn og eg veit eigi hvar þeir hafa lagt hann.“ Þá hún hafði þetta sagt snerist hún við og leit Jesúm standa þar og veit þó ei að það er Jesús. [ Þá sagði Jesús til hennar: „Kona, hvað grætur þú? Að hverjum spyr þú?“ En hún ætlaði grasvörðinn vera og sagði til hans: „Herra, ef þú bart hann burt þá seg þú mér hvar þú hefur lagt hann so eg taki hann í burt þaðan.“ Jesús sagði til hennar: „María.“ Hún snerist við og sagði til hans: „Rabbóní!“ Það kallast: „Meistari.“ Jesús sagði til hennar: „Snert þú mig eigi því að eg er eigi enn uppstiginn til míns föðurs. Far heldur til bræðra minna og seg þeim: Eg stíg upp til míns föðurs og til yðars föðurs, til míns Guðs og til yðvars Guðs.“ María Magdalena kom og kunngjörði lærisveinunum: „Eg hefi séð herrann og þetta sagði hann mér.“

En að kveldi þess hins sama þvottdags þá er lærisveinarnir voru samankomnir að luktum dyrum fyrir hræðslu sakir við Gyðingana kom Jesús þar og stóð í miðið og sagði til þeirra: [ „Friður sé með yður.“ Og þá hann sagði þetta sýndi hann þeim hendurnar og sína síðu. Þá glöddust lærisveinarnir við að þeir sáu herrann. Þá sagði Jesús enn aftur til þeirra: „Friður sé með yður. Líka sem faðirinn sendi mig so sendi eg yður.“ Og er hann sagði þetta blés hann á þá og sagði til þeirra: „Meðtaki þér heilagan anda. Hverjum helst þér fyrirgefið syndirnar þá eru þær þeim fyrirgefnar og hverjum helst þér þær afturhaldið þá eru þær afturhaldnar.“

En Tómas, einn af tólf, sá er kallaðist tvíburi, var eigi meður þeim þá Jesús kom. [ Þá sögðu aðrir lærisveinarnir til hans: „Vér höfum séð herrann.“ En hann sagði til þeirra: „Nema eg sjái naglaförin í hans höndum og láti minn fingur í naglaförin og eg leggi mína hönd í hans síðu þá trúi eg eigi.“

Og átta dögum eftir það þá voru hans lærisveinar þar aftur enn inni og Tómas meður þeim. [ Þá kom Jesús að luktum dyrum, sté í miðið og sagði: „Friður sé með yður.“ Því næst segir hann til Thomam: „Réttu þinn fingur hingað og skoða mínar hendur, lyft upp þinni hendi og legg í mína síðu og vert eigi vantrúaður heldur trúaður.“ Tómas svaraði og sagði til hans: „Drottinn minn og Guð minn!“ Jesús sagði til hans: „Því að þú sátt mig, Thoma, þá trúir þú. Sælir eru þeir er eigi sjá og trúa þó.“

Mörg önnur teikn þá gjörði Jesús í augliti sinna lærisveina hver eð eigi eru skrifuð í þessari bók. En þetta er því skrifað að þér trúið það Jesús sé Kristur, Guðs sonur, og að þér fyrir þá trú hefðuð líf í hans nafni.