XV.
Nær allir tollheimtumenn og bersyndugir nálægðust hann að heyra honum. [ Og Pharisei og skriftlærðir mögluðu og sögðu: „Þessi meðtekur synduga og etur meður þeim.“ En hann sagði þessa eftirlíking til þeirra og sagði: „Hver er sá í bland yður sem hefur hundrað sauða og ef hann týnir einum af þeim forlætur eigi hann níu og níutigu í eyðimörku og fer eftir þeim er týndist þangað til hann finnur hann? Og nær hann hefur hann fundið leggur hann hann upp með fagnaði sér á herðar, kemur heim og samankallar vini og nágranna og segir til þeirra: [ Samgleðjist með mér því að eg hefi minn sauð aftur fundið sem tapaður var. Eg segi yður að líka svo mun fögnuður verða á himnum yfir einum syndugum þeim er iðran gjörir, meir en yfir þeim níu og níutígu réttlátum er eigi þurfa yfirbótar við. Eða hver sú kona eð hefur tíu peninga og ef hún týnir einum, kveikir hún eigi ljós og sópar húsið og leitar vandlega þar til hún finnur hann? Og nær hún hefir fundið hann samankallar hún vinkonur sínar og grannkonur og segir: Samgleðjist mér því að eg hefi minn pening aftur fundið hverjum eg hafða týnt. Líka so segi eg yður að fögnuður mun vera fyrir englum Guðs yfir einum syndugum þeim yfirbót gjörir.“
Og hann sagði: [„Nokkur maður var sá er hafði tvo syni. Og hinn yngri af þeim sagði til föðus síns: Faðir, gef mér þá deild af góssinu sem mér ber. Og hann skipti með þeim góssinu. Og innan fárra daga þá dró hinn yngri sonurinn allt til samans og reisti síðan lagt burt í fjarlægt ríki og fortærði þar sínu góssi í eyðslulegum lifnaði. Og eftir á er hann hafði öllu sóað gjörðist megnt hungur í því sama ríki so hann tók vesöld að þola. Hann fór og hélt til hjá einum borgari þess ríkis. Og sá sendi hann út á sinn bústað að hann gætti þar svína. Hann fýsti og að seðja sinn maga af drafi því er svínin átu og enginn gaf honum.
En hann komst þá við og sagði: [ Hve margir leigumenn þá eru í míns föðurs húsi þeir eð hafa nægð a brauðum en eg ferst í hungri þessu! Því skal eg upp standa og fara til föður míns og segja til hans: Faðir, eg syndgaði í himininn og fyrir þér. Því er eg eigi verðugur að kallast þinn sonur. Gjör mig því sem einn af þínum leigumönnum. Hann reis upp og kom til föður síns. Og er hann var enn langt í burt þaðan leit hann faðir hans og sá aumur á honum, hljóp að og féll um háls honum og kyssti hann. En sonurinn sagði til hans: Faðir, eg syndgaði í himininn og fyrir þér. Af því em eg nú eigi verðugur að kallast sonur þinn. En faðirinn sagði til þjóna sinna: Berið strax hingað hið æðsta klæði og færið hann í og gefið hring á hans hönd og skó á hans fætur, sækið alinn kálf og slátrið honum og neytum so og verum kátir. Því að þessi minn sonur var dauður og endurlifnaði, hann týndist og er nú fundinn. Og þeir tóku að gleðjast.
En hans hinn eldri sonur var á akri og er hann kom og nálgaðist húsið heyrði hann kveðskap og danslæti og kallaði einn af þjónustumönnunum til sín og spurði hvað þetta væri. [ Sá sagði honum: Bróðir þinn er kominn og slátraði faðir þinn öldum kálfi það hann fékk hann heilan aftur. En hann þykktist við og vildi eigi inn ganga. Þá gekk faðir hans út og bauð honum. En hann svaraði og sagði til föður síns: [ Sjá, hve mörg ár þjóna eg þér og aldrei enn yfirgefið þín boðorð og þú gafst mér enn aldrei kið so að eg mætti meður mínum vinum glaður vera. En nú er þessi þinn sonur kominn hver eð hafði svælt sínu góssi meður portkonum, þá slátraðir þú honum alinn kálf. En hann sagði honum: Son minn, þú ert jafnan hjá mér og allt hvað mitt er þa er þitt. Því ættir þú nú að vera kátur og góðsinnaður það þessi þinn bróðir var dauður og endurlifnaði, hann týndist og er aftur fundinn.“