XI.
Og kóngurinn í Egyptalandi safnaði miklu liði so sem þá er sjóvarsandur og miklum skipafjölda og festi með sér þá ætlan að vinna Alexandri ríki undir sig með svikum so að hann hefði bæði ríkin. [ Þar fyrir reisti hann í Sýrland með því yfirvarpi að hann lést vera kominn so sem hans vinur. Þá létu þeir upp fyrir honum allar borgir og fóru út í móti honum og fögnuðu honum hið veglegasta so sem Alexander hafði boðið því að hann var faðir hans kvinnu. En í hvern þann stað sem Ptolomeus inn kom þá lét hann þar eftir einn flokk stríðsmanna til varnar. Og þá hann kom til Asdód þá sýndu þeir honum hvernin Jonathas hafði uppbrennt musterið Dagon og staðinn foreytt og hversu að þeir dauðu líkamir lágu hér og þar og að haugar voru gjörðir við veginn hvar þeir höfðu dysjað þá í hel slegnu. Og þeir sögðu kónginum frá að Jonathas hefði gjört þennan skaða, hvar af kóngurinn fékk óvild til hans en þó lét hann ei á sér finna. Og Jonathas reisti í móti kónginum til Jeppen. Þar töluðust þeir við og voru þar báðir um nótt. Og Jonathas fylgdi kónginum allt að því vatni sem kallast Elevterus. [ Eftir það fór hann heim aftur til Jerúsalem.
Og Ptolomeus inntók borgirnar allt að Seleucia við hafið og tók sér fyrir þá ætlan að reka Alexandrum úr landi. Og hann gjörði Demetrio boð að koma til sín og gjöra sáttmála við sig. Þá vildi hann gefa honum sína dóttir þá sem Alexander hafði og efla hann til ríkis og kvað sig angra það að hann hefði gefið sína dóttur Alexandro. Og hann gaf Alexandro það að sauk að hann hefði stundað eftir sínu lífi og kóngsríki. Hann lét og sitt hatur opinberlega í ljósi og bakhverfðis Alexandro og tók frá honum sína dóttur og gaf hana Demetrio. [ Og þá Ptolomeus kom til Antiochiam þá setti hann upp báðar kórónur, bæði Egyptalandsríkis og Asiaríkis.
En í þann tíma var Alexander kóngur í Cilicia það nokkrar borgir höfðu þar snúið sér frá honum. Þá hann heyrði nú af Ptolomeo þá dró hann í móti honum til bardaga. En Ptolomeus hafði óvígan her og réðst í móti honum og rak hann á flótta. [ Og Alexander flýði til Arabia að hann mætti vera þar óhræddur. En Ptolomeus kóngur var mjög megtugur. Þar fyrir lét Sabdíel í Arabia hálshöggva sinn gest Alexandrum og sendi Ptolomeo hans höfuð. Og á þriðja degi þar eftir deyði Ptolomeus. Þá urðu og stríðsmennirnir sem Ptolomeus hafði sett í borgirnar og so í hel slegnir af borgarmönnum. So tók Demetrius kóngdóm á því hundraðasta sextugasta og sjöunda ári. [
Á þeim tíma samankallaði Jonathas sitt fólk í landi Júda að vinna kastalann aftur í Jerúsalem. Og hann lét uppsetja trékastala og önnur vopn þar fyrir. Þá fóru nokkrir níðingar til Demetrium kóngs og klöguðu á móti Jonatha, segjandi að hann hefði sest um kastalann. [ Þá varð kóngurinn mjög reiður og reisti skjótlega til Ptolemais og skrifaði til Jonathas að hann skyldi ei setjast um kastalann og að hann skyldi koma strax til sín í Ptolemais, þar vildi hann við hann tala um nokkur erindi.
En þá Jonathas fékk þennan boðskap lét hann ekki af að umsitja kastalann og útvaldi nokkra af öldungunum og kennimönnunum í Ísrael þeir sem með honum fara skyldu og hann tók sig upp og hætti sínu lífi. Og hann tók með sér marga kostulega dýrgripi af gulli, silfri og klæðum og fór til Ptolemais til kóngsins og fann náð fyrir honum. [ Og þegar þeir frásnúnu af hans fólki klöguðu hann þá hélt kóngurinn hann ærlega so sem hann var haldinn áður fyrri og veitti honum miklar virðingar fyrir öllum sínum höfðingjum og staðfesti hann í höfuðkennimannsembætti og í öllum öðrum virðingum sem hann hafði þangað til haft og hélt hann fyrir sinn ypparsta vin.
Og Jonathas baðst af kónginum að hann léti allt Gyðingaland og þau þrjú héröð í Samaria og Galilea vera frí frá skatti og bauðst til að gefa fyrir þetta frelsi þrjú hundruð centener gulls. Þessu játaði kóngurinn og gaf Jonathe þar upp á bréf svohljóðandi:
„Demetrius kóngur sendir sínum bróður Jonathe og Gyðingafólki sína kveðju. Vér sendum yður eina útskrift af því bréfi sem vér höfum skrifað vorum föður Lasteni til yðar vegna so að þér vitið það. [
Demetrius kóngur sendir) Lasteni sínum föður sína kveðju. [ Vér hugsum að að gjöra gott vorum vinum og trúum lagsmönnum, Gyðingum, vegna þeirra trúskapar og vináttu við oss. Þar fyrir staðfestum vér að kennimennirnir til Jerúsalem skuli eignast allt landið Júda og þær þrjár borgir, Lyda og Ramata, og það sem þeim tilheyrir. Vér gefum þeim og einnin kvitt allt það sem þeir hafa áður orðið að gefa kónginum árlega: Korn, ávöxt, tolla, tíundir, saltskatt og kórónupeninga. Um allt þetta skulu þeir hér eftir kvittir vera og slíkum fríheitum skulu þeir halda ætíð óbrigðanlega. Útskrift þessa bréfs skal í hendur seljast Jonathe so að það verði uppslegið á því heilaga fjalli, so sem á einum ærlegum og opinberum stað.“
Þegar Demetrius kóngur sá nú að friður var í öllu hans ríki og enginn reisti sig upp í móti honum þá lét hann frá sér stríðsfólk það sem heima átti í ríkinu og lét hvern fara til sinnar borgar. En það útlenska stríðsfólk sem hann hafði til sín tekið hér og hvar í eyjunum því hélt hann hjá sér. Þar fyrir reiddist það innlenska fólkið honum mjög.
En þegar höfuðsmaðurinn Trýfon, sá sem fyrrmeir hafði verið vinur Alexandri, sá það að stríðsfólkið hafði fengið hatur til Demetrius kóngs þá fór hann í Arabiam til Emalkúel hver eð hafði þann unga Antiochum Alexandri son að fóstri. [ Og hann hélt sér til hans að hann skyldi fá sér í hendur þann unga svein, þá vildi hann setja hann inn í síns föðurs ríki. Og hann tjáði fyrir Emalkúel hvernin og hvar fyrir að stríðsfólkið hefði hatur til Demetrium kóngs. Og hann var lengi hjá þeim í Arabia.
Þess á millum skrifaði Jonathas Demetrio kóngi til og beiddist af honum að hann vildi skipa þeim sem í kastalanum voru að þeir skyldu fara í burt og gefa kastalann í hans vald því að þeir gjörði Ísrael stóran skaða. [ Þá skrifaði Demetrius Jonathe til, so látandi: „Ekki aðeins þetta sem þú girnist heldur vil eg og gjöra þér og þínu fólki miklu meiri sæmd og velgjörninga það fyrsta eg kann við að komast. En nú er eg í miklum voða staddur. Þar fyrir gjörðu so vel og send mér styrk því að allt mitt stríðsfólk er mér fráhorfið orðið og setur sig upp í móti mér.“ Þar fyrir sendi Jonathas til hans þrjú þúsund einvala liðs. Þeir komu til Antiochia til kóngsins og kóngur varð mjög feginn þeirra komu.
Nú gjörði fólkið í staðnum eitt upphlaup, nær hundrað og tuttugu þúsund manna, og vildu slá kónginn í hel. [ En kóngurinn flýði upp á sitt slot. Þá tók fólkið strætin inn og vildi storma upp á slotið. Þá kallaði kóngurinn Gyðingana til sín að þeir skyldu hjálpa honum. Þá hlupu allir Gyðingar til kóngsins og skiptust um strætin og í hel slógu á þeim degi hundrað þúsundir manna og settu eld í borgina og ræntu hana. So hjálpuðu þeir kónginum.
En þegar borgarmenn sáu að Gyðingar höfðu fengið vald yfir borginni þá örvæntu þeir sér og kölluðu til kóngsins og báðust friðar að Gyðingar skyldu láta af að vega fólkið og foreyða ekki borgina með öllu. Þá varð friður og Gyðingar lögðu frá sér vopnin. Og þeir fengu stóran heiður af kónginum og urðu prísaðir í öllu ríkinu. Og þeir reistu heim aftur til Jerúsalem og fluttu með sér nægð fjár sem þeim hafði aflast í bardaganum.
Þá Demetrius var nú óhræddur orðinn og hélt ríki sínu með spekt þá hélt hann ekkert af þeim hlutunum sem hann hafði heitið Jonathe og hann sneri sér frá honum með öllu og var honum óþakklátur fyrir hans velgjörninga og sýndi honum alla ótrú. [
Skammt eftir þetta kom Trýfon aftur með hinn unga Antiochum. Þessi Antiochus varð kóngur og setti upp kórónuna. Og allt stríðsfólkið kom til hans hverju Demetrius hafði orðlof gefið. Og þá þeir börðust við Demetrium þá slógu þeir hann á flótta og ráku hann á burt. Og Trýfon tók fílana til sín og vann Antiochiam. Og sá ungi Antiochus skrifaði til Jonathas og staðfesti hann í sínu hæðsta kennimannsembætti og samþykkti að hann skyldi eignast og bíhalda þeim fjórum stöðum og vera konungsins vinur og sendi honum eitt gullker og leyfði honum að hafa gullker á borði og að bera purpura og belti af gulli. [ Og Símon Jónatas bróðir setti hann til höfuðsmanns yfir löndin frá Týrus allt til Egyptalands.
Þá Jonathas reisti nú út yfir um Euphrates og fór um kring í borgunum þá fór allt stríðsfólkið í Sýrlandi til hans honum til fulltings. Og þá hann kom til Askalon þá gengu borgarmennirnir út í móti honum og meðtóku hann heiðarlega og gáfu sig undir hans vald. Því nærst reisti hann fyrir Gasa. En þeir af Gasa vildu ei uppláta borgina fyrir honum. Þar fyrir settist hann um staðinn og uppbrenndi undirborgirnar allt um kring og rænti þær. Þá báðust þeir af Gasa friðar og Jonathas gjörði einn frið við þá og tók nokkra af þeirra sonum í gísling og sendi þá til Jerúsalem. En hann reisti framvegis í gegnum landið allt til Damascum.
En þá hann frétti að Demetri höfuðsmenn voru komnir í Kedes í Galilea með miklum her þau lönd að inntaka sem kóngurinn hafði honum gefið þá réðst hann í móti þeim og lét sinn bróður Símon eftir í landinu. [ Hann reisti fyrir Bet Súra og settist um hana langan tíma, so harðlega að þeir þorðu ekki að gefa sig út. Því beiddust þeir friðar og Símon gaf þeim frið og lét þá fara í burt með frelsi og vann staðinn og setti þar inn stríðsfólk til varnar. [
En Jonathas með sínu liði fór til sjávarins Genesara og var árla morguns uppi og kom Hasar sléttlendis. Þá réðust heiðingjarnir á móti honum á sléttlendinu og höfðu falið einn flokk manna undir fjallinu. Þá Jonathas réðst nú á móti einum flokknum þá féll hinn annar flokkur, sá sem sig hafði falið fram undir fjallinu, og réðst einnin til bardaga. Þá flýði allt lið frá Jonatha og þar var enginn eftir utan alleinasta höfuðsmennirnir Mathatias Absolomíson og Júdas Kalfíson. Þá sundurreif Jonathas sín klæði og dreifði moldu yfir höfuð sér og baðst fyrir. Og hann renndi að óvinunum aftur og sló þeim á flótta. En sem hans fólk sem áður hafði flúið sá það þá sneru þeir einnin aftur að veita Jonathe fullting og þeir ráku flóttann óvinanna allt til Kedes í þeirra herbúðir og þeir gjörðu sér og so þar herbúðir. Og þar féllu á þeim degi nær þrjár þúsundir heiðingja. [ Því næst fór Jonathas heim aftur til Jerúsalem.