III.

Almáttugur Drottinn, þú Ísraels Guð, eg ákalla þig í þessari stórri angist og neyð. [ Bænheyrðu og vertu miskunnsamur, Drottinn, því að vér höfum syndgast í móti þér, þú drottnar ætíð og að eilífu, en vér forgöngum jafnan. Almáttugur Drottinn, þú Ísraels Guð, heyr nú Ísraels bænir sem nú er staddur í dauðans kverkum og bænir þeirra barna sem syndgast hafa í móti þér og ei hafa hlýtt röddu Drottins síns Guðs. Þar fyrir hefur hefndarstraffið hangt ætíð yfir voru höfði.

Minnstu ekki á misgjörðir vorra feðra heldur minnstu nú á þína hönd og á þitt nafn. Því að þú, Drottinn, ert að vísu vor Guð. Þá viljum vér lofa þig, Drottinn. Því að þar fyrir hefur þú gefið þinn ótta í vor hjörtu að vér skulum ákalla þitt nafn og vegsama þig í vorum fjötrum. Því að allar misgjörðir vorra feðra sem syndguðu á móti þér þær ganga oss til hjarta, vér sem nú erum í vorri herleiðing þar sem þú hefur útdreift oss til smánar, til bölvunar og svívirðingar, vegna allra misgjörða vorra feðra sem sneru sér frá Drottni Guði sínum.

Heyrðu, Ísrael, lífsins boðorð, gefðu grandvarlega gætur að því og varðveittu það vel. Hvernin kemur það til, Ísrael, að þú vanmegnast í landi heiðingjanna, að þú ert í ókunnu landi, að þú saurgar þig á meðal þeirra dauðu, að þú ert reiknaður á meðal þeirra sem fara til helvítis? Þetta er af því skeð að þú hefur yfirgefið spekinnar brunn. Hefðir þú blifið á Guðs götu þá hefðir þú ætíð búið með friði.

So lær nú sanna speki so að þú megir reyna hver sá sé sem að gefur langa lífdaga, auðlegð, gleði og fögnuð. Hver veit hvar hún býr? Hver hefur komið í hennar herbergi? Hvar eru heiðingjanna höfðingjar sem drottna yfir villudýrunum á jörðu, þeir sem leika við fugla loftsins, þeir sem safna silfri og gulli, hvar á að menn setja sitt traust og kunna aldrei þar af mettir að verða (því að þeir útvega féð og hafa alla kostgæfni á því og það er þó allt saman til einkis)? Þeir eru afmáðir og fóru niður til helvítis og aðrir eru komnir í staðinn þeirra. Þeirra eftirkomendur sjá að sönnu ljósið og búa á jarðríki en hitta þó ekki á þann veginn þar eð speki verður fundin því að þeir fyrirlíta hana. Þar með hafa og þeirra börn villt farið.

Í Kanaanslandi heyra menn ekkert af henni. Í Teman sést hún ei. Synir Hagar leita að vísu eftir jarðlegri speki. Sömuleiðis kaupmennirnir af Meran og í þeirri Teman sem halda sig hyggna að vera en þó hitta þeir ekki á þann veg þar sem spekin finnst.

Ó Ísrael, hvað dýrðlegt er Drottins hús, hvað víður og stór er sá staður þar hann býr! Hann hefur öngvan enda og er ómælanlega hár. Þar voru forðum risar, miklir, nafnfrægir menn og sterkir stríðsmenn, þá hina sömu hefur Drottinn ekki útvalið og eigi heldur opinberað þeim viðurkenningarinnar veg og með því þeir höfðu ekki spekina þá eru þeir foreyddir í sinni heimsku.

Hver er farinn upp í himininn og sótt hana og hafi hana ofan hingað úr skýjunum? Hver hefur siglt yfir um hafið og fundið hana og flutt hana hingað fyrir kostulegt gull? Snöggt að segja, þar er enginn sá sem þann veg veit þar eð spekin finnst.

En sá sem alla hluti veit hann þekkir hana og hann hefur fundið hana fyrir sinn skilning. [ Sá sem tilbjó jarðríkið og uppfyllti það af alls kyns dýrum. Hann sem lætur ljósið upp renna og þá nær hann kallar það aftur þá hlýtur það að hlýða honum. Stjörnurnar lýsa í sinni skikkan með fagnaði og þá hann kallar á þær þá svara þær: „Hér erum vér“ og þær lýsa með gleði hans vegna sem þær hefur skapað. Það er vor Guð og enginn er honum samjafn. Hann hefur fundið spekina og hann gaf hana Jakob sínum þénara og Ísrael sínum elskulega. Eftir það birtist hún á jörðunni og bjó meðal fólksins.

Þessi speki er sú boðorðabók og það lögmál sem er eilíft. Allir þeir sem halda henni þeir munu lifa en þeir sem brjóta hana þeir munu deyja. Snúðu þér þangað aftur, Ísrael, og meðtaktu hana, gakktu eftir þvílíku ljósi sem fyrir þér skín. Yfirgef þú ekki öðrum þína vegsemd og einu annarlegu fólki þinn fésjóð. Og sælir eru vér, Ísrael, því að Guð hefur opinberað oss sinn vilja.