LIII.

Sjá þú, minn þjón mun forsjállega breyta og hann mun forhefjast og mjög hátt upphafinn vera so það margir munu hneykslast á honum af því að hans ásjóna er viðurstyggilegri heldur en annarra manna og hans yfirlitur heldur en mannanna sona. [ En hann mun með þessu [ afleysa margar þjóðir so það einnin kóngarnir muni sínum munni saman halda fyrir honum. Því að það sem ekkert er þar af kunngjört þeir sömu munu sjá það með fagnaði og hinir sem þar hafa ekki neitt út af heyrt þeir munu merkja það.

En hver trúir vorri prédikan og hverjum verður armleggur Drottins opinberaður? Því að hann sprettur upp fyrir honum líka sem víðirunnur og so sem önnur rót úr þurru landi. Hann hefir öngvan yfirlit né fegurð. Vér sáum hann og þar var ekkert álit so að vér hefðum mátt girnast hans, hann var sá hinn allra fyrirlitnasti og hinn forsmánarlegasti, fullur af sorg og krankleik, so var hann forsmáður að menn byrgðu sína ásjónu fyrir honum, þar fyrir öktuðum vér hann einskis.

Sannarlega þá bar hann var krankdæmi og vorum hryggðum hlóð hann upp á sig. [ En vér héldum hann fyrir þann sem plágaður var og af Guði væri sleginn og píndur. En fyrir vorra misgjörða sakir er hann særður og fyrir vorra synda sakir er hann lemstraður. Hegningin hún liggur á honum upp á það vér hefðum friðinn og fyrir hans benjar erum vér heilbrigðir vorðnir. [ Vér fórum allir villt sem sauðir, hver einn þá rásaði sína götu en Drottinn lagði allar vorar syndir upp á hann.

Þá hann varð straffaður og píndur upplauk hann ei sínum munni líka sem lamb það til dráps er leitt og so sem sá sauður eð þegir fyrir þeim eð rýir hann og upplýkur ei sínum munni. [

En úr þeirri angist og þeim dómi er hann í burt numinn, hver mun lengd hans lífdaga mega út segja? Þvi að hann er af jörðu lifandi manna í burt slitinn þá eð hann fyrir misgjörða sakir míns fólks plágaður var og er greftraður líka sem sá hinn óguðlegi og deyði eins líka og hinn forríki, þó að hann hefði öngum órétt gjört og það engin svik væri fundin í hans munni. En Drottinn vildi so kremja hann niður með krankdæmi.

Fyrst hann hefur nú sitt líf til syndoffurs útgefið þá mun hann sæði hafa og allt lengi lifa og Drottins [ áform mun fyrir hans hönd framganga. Þar fyrir að hans sála hefir erfiði drýgt mun hann fögnuð sjá og nægð hafa. Og fyrir sína viðurkenning mun hann, minn þjón sá hinn réttláti, marga réttláta gjöra það hann ber þeirra syndir. Þar fyrir mun eg honum mikinn fjölda manna til býtis gefa og honum skulu hinir öflugu að herfangi skiptast, þar fyrir að hann hefur sitt líf í dauðann út gefið og er á meðal spillvirkjanna reiknaður og hann hefur margra syndir borið og hefur fyrir yfirtroðslumönnunum beðið.