VIII.

Og á þeim degi gaf Assverus kóngur Ester drottningu Amans hús, óvinar Gyðinga. Og Mardokeus kom fyrir kónginn því Ester hafði sagt honum að hann væri hennar föðurbróðir. Og kóngurinn tók af sér eitt fingurgull sem hann hafði tekið aftur af Aman og gaf það Mardokeo. Og Ester setti Mardokeum yfir hús Aman.

Og Ester drottning talaði enn framar meir til kóngsins og féll til fóta honum og bað með gráti að hann vildi í burt taka illsku Aman Agagiter og hans uppsátur sem hann hafði hugsað í gegn Gyðingafólki. [ Þá rétti kóngurinn gullspíruna að Ester. En hún stóð upp og gekk til kóngsins og sagði: „Ef það þóknast kónginum og hafi eg fundið náð fyrir honum og líki honum það þá látið bréf út ganga svo hljóðanda að þér afturkallið bréf og ráðagjörð Aman sonar Medata Agagiter sem hann skrifaði að Gyðingafólk skyldi drepið verða í öllum kóngsins löndum. Því hvernin má eg horfa á það vonda sem koma mun yfir mitt fólk? Eða hvernin má eg sjá upp á það að mín ætt skal so fyrirfarast?“

Þá sagði Assverus kóngur til drottningarinnar Ester og til Mardokeum Gyðings: „Sjá, eg hefi gefið Ester hús Aman en hann bauð eg að hengja í gálga því að hann lagði sínar hendur á Gyðingafólk. Þar fyrir skrifi þið nú vegna Gyðinga svo sem ykkur líkar undir kóngsins nafni og innsiglið það með kóngsins hring.“ Því að allt það sem skrifað er undir kóngsins nafni og er síðan innsiglað með hans eigin hring það mátti enginn mann afturkalla. [

Þá voru kallaðir kóngsins skrifarar á þeim sama tíma, á þeim þriðja mánaði, það er sá mánuður sívan, á þeim þriðja og tuttugasta degi þess mánaðar. Og bréfin voru so skrifuð sem Mardokeus bífalaði, til Gyðinganna og til höfðingjanna, hirðstjóranna og til allra höfuðsmanna í löndunum frá Indialandi og allt til Blálands, sem var hundrað sjö og tuttugu lönd, hverju landi eftir sinni skrift og hverju fólki eftir sínu tungumáli, og svo til Gyðinganna eftir þeirra skrift og tungumáli.

Og þetta var skrifað undir kóngsins Assverus nafni og so innsiglað með hans eigin gullhring. Og hann sendi bréfin með ríðandi sendimönnum á ungum múlum, í hverjum bréfum að kóngurinn gaf Gyðingum leyfi að verja sig fyrir sínum óvinum hvar í borgum sem þeir væri og heimtast saman og verja líf sitt og eyðileggja og drepa alla magt þess fólks og lands sem á þá stríddi, með þeirra kvinnum og börnum, og að ræna þeirra góssi á einum degi í öllum kóngsins Assveri löndum, sem var sá þrettándi dagur í þeim tólfta mánaði, það er sá mánuður adar. [

Og innihald bréfanna er þetta, að ein bífalning væri útgefin yfir öll lönd og skyldi opinberast öllu fólki að Gyðingarnir væri viðbúnir á þeim degi að hefna sín á sínum óvinum. Og þeir sendiboðar riðu sem mest og skjótast á sínum múlum eftir skipan kóngsins. Og þessi bífalning var uppslegin á Súsansloti.

Og Mardokeus gekk út frá kónginum í konunglegum klæðum, gulum og hvítum, og klæddur einum möttli af silki og purpura og hafandi eina stóra gullkórónu. Og borgin Súsan gladdist og varð fagnandi. En Gyðingum var komið ljós og fögnuður, gleði og dýrð. Og í öllum löndum og borgum hvert helst sem kóngsins orð og boðskapur kom þá varð þar gleði og fögnuður á meðal allra Gyðinga, gestaboð og gleðidagar. Og margir af landsfólkinu gjörðust Gyðingar því að ótti Gyðinga féll yfir þá.