XXIX.

Esekías kóngur hafði fimm um tvítugt þá hann varð kóngur og ríkti níu ár og tuttugu í Jerúsalem. [ Hans móðir hét Abía dóttir Zacharie. Og hann gjörði það sem Drottni vel þóknaðist svo sem hans faðir Davíð. Á fyrsta mánaði og á því fyrsta ári síns kóngsríkis lét hann upp dyrnar á húsi Drottins og endurbætti þær. Og hann framleiddi kennimenn og Levíta og samansafnaði þeim á það breiða stræti mót austri og sagði til þeirra: „Þér allir kennimenn og Levítar, heyrið mér: Helgið yður nú so að þér megið og helga Drottins Guðs yðvars feðra hús og berið öll óhreinindi út af helgidóminum sem þar er innkomin. Því að vorir forfeður hafa misgjört og gjörðu það sem Drottni vorum Guði illa líkaði og hafa yfirgefið hann. [ Því þeir sneru sínu andliti frá Drottins tjaldbúð og sneru sínu baki við henni og hafa læst dyrunum á forhúsinu, útslökktu lampana og brenndu ekkert reykelsi, færðu og ekki brennifórnir Ísraels Guði í helgidóminum.

Og sökum þvílíks er Drottins reiði komin yfir Júda og Jerúsalem so hann hefur gefið þá í sundurdreifing og í foreyðslu so að menn blístra að þeim so sem þér sjáið með yðrum augum. Því að sjáið, þess vegna eru vorir feður fallnir fyrir sverði, vorar kvinnur, synir og dætur herteknar. Nú hefi eg það í mínu sinni að eg vil gjöra eitt sáttmál við Drottin Ísraels Guð svo að hans reiði og grimmd víki frá oss. Nú mínir synir, verið eigi tregir því að yður hefur Drottinn útvalið að þér skuluð standa fyrir honum og þjóna honum og brenna fyrir honum reykelsi.“

Þá tóku Levítarnir sig upp, Mahat son Amasaí og Jóel son Asarja af sonum Kahat. En af sonum Merarí: Kís son Abdí og Asarja son Jehaleel. En af sonum Gerson:Jóab son Simma og Eden son Jóa. Og af sonum Elísafan: Simrí og Jeíel. Og af Assaf: Sakaría og Matanja. Og af sonum Heman: Jehíel og Semeí. Og af sonum Jedítún: Semaja og Úsíel. Og þeir samansöfnuðu sínum bræðrum og helguðu sig og gengu inn eftir kóngsins boði og eftir Drottins orði að hreinsa hús Drottins.

Og kennimennirnir gengu inn í musteri Drottins að hreinsa það og báru allan þann óhreinleika (sem fundinn var í húsi Drottins) út í garðinn fyrir utan hús Drottins. [ En Levítarnir tóku það og báru út í lækinn Kedron. Og þeir tóku til á þeim fyrsta degi þess fyrsta mánaðar að helga sig en á þeim áttunda degi í sama mánuði gengu þeir inn í Drottins forhús og helguðu hús Drottins í átta daga svo að allt var fullkomnað á sextánda degi í fyrsta mánaði.

Eftir það gengu þeir inn fyrir kóng Esekíam og sögðu: „Vér höfum hreinsað allt hús Drottins: Brennioffursaltarið og öll þess ker, borðið skoðunarbrauðanna og öll þau ker þar heyra til og þau ker sem kóng Akas saurgaði þá hann var kóngur þá hann misgjörði, þau höfum vér helgað og tilbúið. Sjá, þau eru öll sett fyrir altari Drottins.“

Snemma morguns tók kóngurinn sig upp og samansafnaði öllum þeim yppustu höfðingjum í staðnum og gekk upp í hús Drottins og hafði upp þangað sjö yxn, sjö hrúta, sjö lömb og sjö hafra til syndaoffurs fyrir kóngsríkið, fyrir helgidóminn og fyrir Júda. [ Og hann bauð prestunum, Arons sonum, að þeir skyldu færa fórnir yfir altari Drottins. Prestanir sæfðu uxana og tóku blóðið og stökktu því yfir altarið. Þeir slátruðu og hrútum og stökktu blóðinu á altarið og þeir slátruðu lömbunum og stökktu blóðinu á altarið. Síðan leiddu þeir hafrana fram til syndaoffurs fyrir kónginn og almúgann og þeir lögðu sínar hendur yfir þá. Og prestarnir sæfðu þá og stökktu blóðinu á altarið til að forlíka allan Ísrael. Því að kóngurinn hafði so boðið að þeir skyldu færa brennioffur og syndaoffur fyrir allan Ísraelslýð.

Og hann skikkaði Levítana í Drottins húsi með cymbaalis, psalterio og hörpum svo sem Davíð hafði bífalað og Gað kóngsins sjáandi og Natan spámaður því það var Drottins boð fyrir hans spámenn. Og Levítarnir stóðu með allsháttuðum strengjahljóðfærum Davíðs og prestarnir með sínum lúðrum. Og Esekías bauð þeim að færa brennioffur yfir altarið. Og á þeim sama tíma þá þeir tóku til að færa brennioffur þá upphófu þeir og lofsöngva Drottins með lúðrum og á allra handa strengjaleikum Davíðs Ísraelskóngs. En allur almúginn baðst fyrir en söngvararnir með sinn allsháttaðan söng og þeir eð í lúðra blésu með sínar básúnur voru að því þar til að brennioffrið var fullkomnað. En að því fullkomnuðu þá laut kóngurinn niður og allir þeir sem hjá honum voru og báðust fyrir.

Og Esekías kóngur og höfðingjarnir báðu Levítana að lofa Drottin með lofsöngvum Davíðs og Assaf sjáanda. Og þeir lofuðu Guð með gleði, féllu á kné og báðust fyrir.

Þá svaraði Esekías og sagði: „Þér hafið nú uppfyllt yðar hendur Drottni. Farið nú og berið hingað fórnir og lofgjörðaroffur í hús Drottins.“ Og almúginn bar fram fórnir og lofgjörðaroffur og brennifórnir af sjálfviljugu hjarta. [ En talan á þeim brennifórnum sem almúginn bar fram var sjötígi uxar, hundrað hrútar og tvö hundruð lamba og það allt saman var offrað til brennifórnar Drottni. Hér að auk helguðu þeir sex hundruð uxa og þrjú þúsund sauði.

En prestarnir voru of fáir svo þeir gátu ekki tekið skinnin af öllum brennifórnum og því tóku þeir Levítana sína bræður til sín svo lengi sem þessi þjónusta var ekki úti og þar til að prestarnir helguðu sig. Því að Levítana var auðveldara að helga en kennimennina. En brennioffrið var mikið með þakkaroffursins feitleika og drykkjaroffrið til brennioffursins. Og í þvílíkan máta varð embættið fullkomnað í húsi Drottins. Og Esekías gladdist með öllu fólkinu að þjónustugjörð Guðs var úti því að það skeði so skjótlega.