XVIII.

Og Jósafat hafði mikinn ríkdóm og mikla dýrð og hann tengdist með mægðum við Akab. [ Og að tveimur árum liðnum fór hann ofan til Akab í Samaría. Og Akab kóngur lét slátra til hans og til þess fólks sem með honum var fjölda fjár og uxa. Og hann ráðlagði honum að ferðast upp til Ramót í Gíleað. Og Akab Israelis kóngur sagði til Jósafat Júdakóngs: „Far þú með mér til Ramót í Gíleað.“ Hann svaraði: „Eg er so sem þú og mitt fólk so sem þitt fólk, vér viljum fara með þér til bardaga.“

En Jósafat sagði til Ísraelskóngs: „Leita þú til orða Drottins um ráð í dag.“ Og Israeliskóngur samansafnaði spámönnum, fjórum hundruðum að tölu, og sagði til þeirra: „Skulum vér ferðast til bardaga í Ramót Gíleað eða skal eg láta svo búið standa?“ Þeir sögðu: „Far þú upp þangað, Drottinn skal gefa hana í kóngsins hönd.“ Þá sagði Jósafat: „Er hér ekki neinn af Drottins spámönnum so vér megum spyrja hann að?“ Ísraelskóngur sagði til Jósafat: „Er hér einn maður fyrir hvern að vér mættum spyrja Drottin. En mér er illa við hann því að hann spáir mér einskis góðs heldur jafnan ills og það er Míkeas son Jemla.“ Jósafat svaraði: „Kóngurinn tali ekki svo.“

Og Ísraelskóngur kallaði einn sinn herbergjasvein og sagði: „Far sem skjótast og kalla á Míkeam son Jemla.“ Og Israeliskóngur og Jósafat kóngur Júda sátu báðir saman, hver á sínum stól, skrýddir konunglegum skrúða, á flöt nokkrum fyrir portdyrum Samaria og allir spámenn spáðu fyrir þeim. Og Sedekía son Knaena gjörði sér járnhorn og sagði: [ „Svo segir Drottinn: Með þessu skalt þú steyta þá Syros þar til þú eyðileggur þá.“ Og allir spámennirnir spáðu með sama hætti og sögðu: „Far upp þangað, það skal lukkast vel, Drottinn skal gefa þá í kóngsins hönd.“

Og sendimaðurinn sem var í burt genginn að kalla á Míkeam kom til hans, talaði við hann og sagði: [ „Sjá, spámenn segja allir kóngi fyrir með einum munni farsællega hluti. Eg bið að þú látir þín orð og vera samhljóða þeim og tala þú það sem gott er.“ Míkeas svaraði og sagði: „So sannarlega sem að Drottinn lifir: Hvað minn Guð segir mér, það skal eg tala.“ Og sem hann kom til kóngsins segir kóngurinn til hans: [ „Míkea, skulu vér fara að berjast í Ramót Gíleað eða skal eg hvergi fara?“ Hann svaraði: „Já, far upp þangað og skal þér að góðu verða, það skal gefast í þínar hendur.“

Þá svaraði kóngurinn honum: „Eg særi þig enn einu sinni að þú segir mér ekki annað en hvað satt er í nafni Drottins.“ Þá sagði hann: „Eg sá allan Ísrael í sundurtvístrast á fjöllum uppi líka sem sauðir þeir sem öngvan hirðir hafa. Og Drottinn sagði: Hafa þessir öngvan herra? Snúi hvör og einn aftur með friði.“ Þá sagði Ísraelskóngur til Jósafats: „Sagða eg þér ekki að hann spáir mér einskis góðs heldur ills?“

Og hann sagði: „Þar fyrir heyri þér orð Drottins: Eg sá Drottinn sitja á hans tignarstóli og allur himinsins her stóð til hans hægri og vinstri handar. Og Drottinn sagði: Hver vill ráðleggja Akab Ísraelskóngi það að hann fari upp og falli í Ramót Gíleað? En sem einn sagði þetta en annar það þá kom þar einn andi fram og gekk fyrir Drottin og sagði: Eg vil koma honum til þess. Og Drottinn sagði til hans: Með hverju móti? Hann svaraði: Eg vil fara út og vera einn lygiandi í allra hans spámanna munnum. Og Drottinn sagði: Þú munt koma honum þar til og þú munt koma því til leiðar. Far burt og gjör so. Sjá nú, Drottinn hefur gefið einn lygianda í mun þessara þinna spámanna og Drottinn hefur talað illt í gegn þér.“

Þá gekk Sedekía son Knaena fram og sló Míkeam pústur og sagði: [ „Um hvern veg er andi Drottins genginn frá mér að hann talar við þig?“ Míkeas sagði: „Sjá, þú munt sjá það á þeim degi nær þú fer hús af húsi að fela þig.“ Þá sagði Ísraelskóngur: „Takið Míkeam og látið hann vera hjá Ammon staðarins fóvita og hjá Jóas kóngssyni og segið: Svo segir kóngurinn: Leggið þennan í myrkvastofu og fæðið hann með sorgarbrauði og hryggðarvatni þar til að eg kem aftur með friði.“ Míkeas sagði: „Ef þú kemur með friði aftur þá hefur Drottinn eigi talað fyrir mig.“ Og hann sagði: „Heyri það allur lýður.“

Kóng Ísrael og Jósafat kóngur Júda fóru nú upp til Ramót í Gíleað. Og Ísraelskóngur sagði til Jósafat: „Eg vil breyta klæðabúnaði mínum og fara svo til bardaga en haf þú þín eigin klæði.“ Og Ísraelskóngur torkenndi sig og fór so í bardagannn. En Syriakóngur bauð sínum yppurstum riddörum segjandi: „Þér skuluð ekki berjast, hverki í mót einum né öðrum, smám eða stórum, utan alleinasta í mót Ísraelskóngi.“

Nú sem þeir yppustu riddarar sáu Jósafat þá ætluðu þeir að Ísraelskóngur mundi það vera og þeir slógu hring um hann og veittu honum harða aðsókn. [ En Jósafat kallaði upp og Drottinn hjálpaði honum og Guð sneri þeim frá honum. Því þá þeir yppustu af riddaraliðinu sáu að það var ekki Ísraelskóngur þá sneru þeir frá honum. So bar til að einn mann spannaði sinn boga, óvitandi á hvern hann stefndi, og skaut Ísraelskóng millum brynjunnar og sverðreimarinnar. [ Þá sagði hann til síns vagnmanns: „Snú þinni hendi og flyt mig úr bardaganum því eg er sár orðinn.“ Og það varð hörð orrosta á þeim sama degi og Ísraelskóngur stóð í sínum vagni á mót þeim Syris allt til kvelds og andaðist um sólarsetur.