XI.
Á þessum tíma fór sá höfðingi þeirra Moabitarum sem hét Nahas upp með mikið lið og settist um Jabes í Gíleað. [ En sem þeir í Jabes heyrðu það sendu þeir allir boð til Nahas og létu svo segja: „Gjör sáttmál við oss, svo viljum vér þjóna þér.“ En Nahas Amoriter svaraði þeim: „Með þessu móti vil eg sáttmál gjöra með yður að eg vil stinga ið hægra auga út á öllum yður og gjöra yður til háðungar á meðal Ísrael.“ Þá svöruðu auldungarnir af Jabessonum og sögðu: „Gef oss sjö daga frest svo að vér megum senda boð til allra landamerkja í Ísrael. Og ef þar finnst enginn sá sem oss frelsar þá viljum vér koma út til þín.“
Svo kom þessi boðskapur fyrir Saul í Gíbea og þeir kunngjörðu svoddan fyrir fólksins eyrum. En sem almúginn heyrði slíkt þá upphófu allir sína raust og grétu. Og sjá, í þessu bili kom Saul af akri og gekk eftir arðuruxum og sagði: „Hvað er fólkinu að það grætur?“ Og þeir kunngjörðu honum erindi þeirra manna sem komnir voru af Jabes. Þá styrktist Guðs andi yfir Saul þá hann heyrði þessi orð og hann varð mjög reiður. Og hann tók eitt par uxa og hjó það í sundur í stykki og sendi þau til allra Israelis landamerkja með þessum boðskap og lét svo segja: „Hver sem ekki út fer og fylgir Saul og Samúel þá skal so gjöra hans uxum.“
Þá kom Drottins ótti yfir fólkið og það fór út so sem einn maður væri. Og hann skoraði manntal í þeim stað sem kallaðist Basek. Og Israelissynir voru að tölu þrisvar sinnum hundrað þúsund manns en Júda synir þrjátígi þúsund. [ Og þeir sögðu til sendiboðanna sem komnir voru: „Segið þeim mönnum í Jabes í Gíleað svo: Þér skuluð fá hjálp á morgin þegar sem sólin skín heitt.“ En sem sendiboðarnir komu aftur og kunngjörðu þetta borgarmönnum í Jabes urðu þeir glaðir. Og þeir sögðu (til sinna óvina): „Á morgun skulu vér koma út til yðar, gjörið þá við oss allt hvað þér viljið.“
Og nú sem annar dagur kom þá skipti Saul fólkinu í þrjár fylkingar og þeir komu að þeirra herbúðum árla í dögun og slógu þá Amoniter allt til miðdags. En þeir sem lífinu héldu dreifðust víðs vegar í sundur so að af þeim öllum her voru ekki tveir og tveir til samans.
Þá sagði fólkið til Samúel: „Hvar eru þeir menn sem það sögðu: Skal Saul ríkja yfir oss? Látið þá koma hingað svo að vér drepum þá.“ Saul sagði: „Nei, þar skal enginn deyja á þessum degi því Drottinn hefur í dag gefið hjálpræði Ísrael.“
Samúel sagði til fólksins: „Komið og skulum vér fara í Gilgal og endurnýja þar kóngsríkið.“ Síðan ferðaðist almúginn til Gilgal og settu þar Saul til kóngs fyrir Drottni í Gilgal og offruðu þakkaroffri fyrir Drottni. [ Og Saul og allir Ísraelsmenn urðu þar mjög glaðir.