II.
Og þar var einn maður, hann var náinn að frændsemi við bónda Naemí því hann var af ætt Elímelek. Hann hét Bóas, hann var einn máttugur maður og mjög ríkur.
Og Rut sú móverska sagði til Naemí: „Leyf mér að eg fari út um akra og saman lesi öxin eftir þeim sem að ekki amast við mér.“ Hún sagði til hennar: „Far þú, mín dóttir.“ Hún fór af stað og tíndi upp öxin eftir kornskurðarmönnum akursins. En so bar til að þennan sama akur átti Bóas frændi Elímelek. Og sjá, í þessu bili kom Bóas frá Betlehem og kvaddi svo kornskurðarmenn sína: „Veri Drottinn með yður.“ Þeir svara: „Guð blessi þig.“
Og Bóas mælti til fyrirmanns kornskurðarins: „Hverjum heyrir þessi stúlka til?“ Sveinninn svaraði: „Það er sú móverska kvinna sem er komin með Naemí af landi Moabitarum. Því hún sagði: Bið eg að þú leyfir mér að safna til samans og upp að lesa það sem fellur á millum bindinanna eftir kornskurðarmönnunum. So kom hún hér og hefur staðið hér frá morni og inn til þessa og var ekki nema litla stund heima.“
Þá sagði Bóas til Rut: „Heyrðu, mín dóttir. Þú skalt ekki fara um aðra akra að safna saman og ekki heldur héðan heldur fylg þú ambáttum mínum og sjá til hvar þær skera kornið af akrinum og gakk eftir þeim. Eg hefi boðið mínum þénurum að enginn komi við þig. Og ef þig þystir þá gakk að kerinu og drekk sem mínir þénarar ausa af.“ [ Rut fellur þá fram öll til jarðar, bað hann og sagði til hans: „Með hverju hefi eg þvílíka náð fundið fyrir þínum augum að þú þekkir mig so þar sem eg er ein útlend kvinna?“
Bóas svaraði og sagði til hennar: „Sagt er mér allt hvað þú hefur gjört við þína mágkonu eftir fráfall þíns bónda að þú hefur yfirgefið þinn föður og þína móður og svo þitt föðurland og hefur farið til þess fólks sem þú þekkir ekki. Guð umbuni þér þinn gjörning og þín laun skulu vera fullkomin hjá Drottni Israelis Guði til hvers að þú ert nú komin að hafa skjól undir hans vængjum.“ Hún svaraði: „Minn herra, lát mig finna náð í þínu augliti því þú hefur huggað mig og blíðlega talað við þína ambátt þar sem eg má þó ekki samvirðast einni af þínum ambáttum.“
Bóas mælti til hennar: „Þá máltíðartíminn er þá kom hingað og et brauð og drep þínum bita í edik.“ Og hún setti sig utan hjá kornskurðarmönnunum. En hann lagði steikt axin fyrir hana. Og hún át og varð mett og leyfði af. Og sem hún stóð upp saman að tína þá bauð Bóas sínum sveinum og sagði: „Látið hana og so safna saman á meðal bindininna og amist ekki við hana. Látið og nokkuð ei óviljandi eftir verða svo hún megi samanlesa það og enginn skal ávíta hana þar fyrir.“
Svo samanlas hún um akurinn allt til kvelds og barði kornið af hálminum sem hún hafði samanlesið og hún fékk eitt efa með bygg. Hún tók það upp og kom í staðinn og sýndi mágkonu sinni það hún hafði aflað. Hún lét og fram og gaf henni þær vistaleifar sem henni voru afgangs.
Þá mælti mágkona hennar: „Hvar samansafnaðir þú í dag og hvar hefur þú arfiðað? Blessaður sé sá maður er þig þekkti.“ En hún sagði sinni mágkonu hjá hverjum hún hefði unnið og sagði: „Sá maður heitir Bóas á hvers akri eg hefi í dag unnið.“
Og Naemí sagði til hennar: „Blessaður veri hann fyrir Drottni því hann hefur ekki yfirgefið sína miskunnsemd, hverki við þá lifnuðu né við þá framliðnu.“ Og Naemí sagði til hennar: „Þessi maður er frændi vor og vor erfingi.“ Rut sú móverska svaraði: „Hann sagði og það til mín: „Þú skalt fylgja mínum kornskurðarmönnum þar til lokið er öllu akurverki.“ Naemí sagði til Rut, sinnar sonarkvinnu: „Betra er, mín dóttir, að þú gangir út með hans ambáttum so að enginn megi tala þér vont til á öðrum ökrkum.“ Síðan fylgdi hún ambáttum Bóas og hún safnaði saman þar til bæði bygg og hveiti var lokið að uppskera og kom aftur til mágkonu sinnar.