XVI.

Samson gekk í burt til Gasa og sá þar eina skækju og gekk inn til hennar. Þetta fréttu borgarmenn Gasa: „Samson er kominn hingað til vor.“ Og þeir umkringdu hann og létu sitja um hann alla nóttina í staðarportinu en voru kyrrir um alla nóttina og sögðu: „Verum kyrrir. Á morgun strax að birtir þá viljum vér slá hann í hel.“ Samson svaf til miðrar nætur. Síðan stóð hann upp að miðri nóttu og tók báðar hurðirnar frá staðarportinu með báðum dyrastólpunum og slagbröndunum og lagði á sínar herðar og bar það efst upp á fjallið sem veit til Hebron.

Og eftir þetta lagði hann ást við eina kvinnu sem bjó í þeim [ dal sem hét Sórek. Sú nefndist Dalíla. [ Til hennar komu höfðingjar Philistinorum og sögðu henni: „Komstu á slægsmuni við hann að verðir þú vís hvar af hann hefur svo mikinn styrkleika og með hverju móti að vér megum sigra hann so vér fáum bundið hann og yfirbugað. Ef þú gjörir það þá viljum vér gefa þér hver um sig þúsund og hundrað silfurpeninga.“

Dalíla sagði til Samson: „Minn kæri, seg þú mér í hverju að falinn er þinn mikli sterkleiki og með hverju að þig má binda svo þú slítir ekki.“ [ Samson svaraði henni: „Ef eg er bundinn með sjö línstrengjum nýjum votum þá verð eg veikur og so sem hver annar maður.“ Þá fengu Philistei henni sjö línstrengi nýja sem ei voru enn þurrir og hún batt hann þar með (en þeir leyndust í herberginu hjá henni) og hún sagði til hans: „Philistei yfir þig, Samson!“ En hann rykkti í sundur strengjunum sem þá hörtygill fer í sundur þá hann kennir elds. Og veit nú ekki gjör en áður um hans afl.

Þá sagði Dalíla til Samson: „Sjá, þú hefur gabbað mig og logið að mér. Seg mér nú þó með hverju þig megi binda?“ Hann svaraði henni: „Ef þeir binda mig með nýjum reipum sem til öngrar vinnu hafa höfð verið þá verð eg óstyrkur og so sem aðrir menn.“ Þá tók Dalíla ný reip og batt hann þar með og sagði: „Philistei yfir þig, Samson!“ (en þeir leyndust í herberginu) og hann sleit þau í sundur af sínum armleggjum sem hörþráð.

En Dalíla sagði til hans: „Þú hefur enn nú gabbað mig og logið að mér. Kæri, seg mér þó hvar með þig megi binda?“ En hann svaraði henni: „Ef þú samansnýr mína sjö höfuðlokka með einum hárdregli og festir þá við hæl.“ Og hún sagði til hans: „Philistei yfir þig, Samson!“ Og hann vaknaði af sínum svefni og rykkti upp sínum fléttuðum lokkum með hælunum og hárdreglinum. Þá sagði hún til hans: „Hvernin mátt þú segja að þú hafir ást á mér þar þitt hjarta er ei með mér? Í þrjár reisur hefur þú nú gabbað mig og ekki sagt mér í hverju þitt mikla afl fólgið væri.“

En sem hún heldur á því hinu sama við hann alla daga þá mæddist hugur hans mjög so til dauða so hann lét henni í ljósi sitt hjarta og sagði til hennar: „Aldrei hefur hárhnífur komið á mitt höfuð því eg er Guðs [ Nazareus frá móðurkviði. [ Og ef þú rakar mitt hár af mínu höfði þá hverfur minn styrkur frá mér svo eg verð so óstyrkur sem aðrir menn.“ En sem Dalíla sá nú að hann hafði birt henni sína alvöru þá sendi hún og lét kalla á höfðingja Philistinorum og lét segja þeim: „Komið nú enn um sinn upp hingað því að hann hefur nú birt mér sitt hjarta.“

Þá komu höfðingjar Philisteis upp til hennar og höfðu með sér fé það sem þeir lofuðu henni. Og hún lét hann sofna yfir knjám sér og kallaði þann til sín sem alla hans lokka sjö rakaði af hans höfði. Og hún tók til að hrinda honum frá sér. Hvarf þá frá honum hans styrkleiki. Og hún sagði til hans: „Philistei yfir þig, Samson!“ En sem hann nú uppvaknaði af sínum svefni hugsaði hann: „Eg mun ganga út so sem eg hefi áður oft gjört og hrista mig.“ [ Og hann vissi ekki að Drottinn var vikinn frá honum. Jafnsnart gripu Philistei hann og stungu út bæði hans augu og fluttu hann til Gasa og bundu hann með tveimur koparviðjum að hann skyldi draga kvern í myrkvastofu. En hans höfuðhár tóku að spretta aftur þar þau voru afrökuð.

En þá höfðingjar Philistinorum söfnuðust saman að gjöra mikið offur sínum guði Dagón og sig sjálfa glaða að gjöra þá sögðu þeir hver til annars: „Vor guð hefur gefið oss vorn óvin Samson í vorar hendur.“ [ Sömuleiðis alþýðufólkið lofaði þeirra guð því þeir sögðu: „Vor guð hefur gefið vorn óvin í vorar hendur, sá sem eyddi vort land og drepið hefur mikinn mannfjölda fyrir oss.“ Og sem drykkur kætir nú hjörtu þeirra þá segja þeir: „Látið sækja Samson so hann leiki fyrir oss.“ Þá tóku þeir Samson af fangelsinu og hann lék fyrir þeim. Og þeir settu hann á millum tveggja stólpa.

En Samson sagði til þess ungmennis sem hann leiddi við hönd sér: „Lát þú mig fara þangað að þeim stólpum sem húsið stendur á so eg megi styðja mig við þá.“ En húsið var alskipað bæði af mönnum og kvinnum. Þar voru í því sama sinni samankomnir allir höfðingjar Philisteis og upp á þakinu voru nær þrjár þúsundir manns og kvinnur sem horfðu á hvernin Samson lék. En Samson ákallaði Drottin og sagði: „Drottinn Guð, minnst þú nú mín og gef mér nú, Guð, aftur styrkleik minn (hinn fyrra) so að eg megi um sinn hefna mín á Philisteis fyrir mín bæði augu!“

Og hann greip sinni hendi um hvorn stólpa sem í miðju húsinu stóðu, hverjir að héldu því öllu upp. [ Og hann sagði: „Deyi önd mín með þeim Philisteis!“ Og hann svipti stólpunum styrklega undan svo að húsið féll ofan á höfðingjana og á allt fólkið sem þar var inni svo að hann drap fleiri deyjandi en hann hafði drepið meðan hann lifði. Eftir þetta komu hans bræður ofan þangað og allir af hans föðurs húsi og tóku hann upp og færðu hann þaðan og grófu hann í síns föðurs Manóa gröf hver að liggur á millum Sarea og Estaól. Hann var dómandi yfir Ísrael í tuttugu ár.