Þar eftir var Jósef sagt: „Sjá, þinn faðir er sjúkur.“ Þá tók hann sína báða sonu, Manasse og Efraím, með sér. Þá var sagt Jakobi: „Sjá, þinn sonur Jósef kemur til þín.“ [ Þá hreysti Jakob sig og settist upp í sænginni og sagði til Jósef:
„Almáttugur Guð birtist mér í Lús í landi Kanaan og blessaði mig og sagði til mín: Sjá, eg vil láta þig vaxa og margfaldast og láta fjölda fólks koma af þér og eg vil gefa þínu sæði þetta land til ævinlegrar eignar. So skulu nú þínir tveir synir, Manasse og Efraím, sem þér eru fæddir í Egyptalandi áður en eg kom hingað til þín, vera mínir, líka sem Rúben og Símeon. [ En þeir sem þú átt hér eftir, þeir skulu vera þínir og kallast sem þeirra bræður í þeirra arfskipti.
Því að þá eg kom af Mesopotamia andaðist Rakel fyrir mér í því landi Kanaan á þeim vegi þá eg var eina mílu vegar til Efrata. Og eg gróf hana þar í þeim sama stað á veginum til Efrata“ sem nú kallast Betlehem.
Og Ísrael sá Jósefs sonu og sagði: „Hverjir eru þessir?“ Jósef svaraði sínum föður: „Þessir eru mínir synir sem Guð hefur hér gefið mér.“ Hann sagði: „Lát þá hingað til mín so að eg blessi þá.“ Því að Ísrael glaptist sýn af elli so að hann gat ekki vel séð. Og hann leiddi þá til hans. En hann kyssti á og tók þá í fang sér og sagði til Jósef: „Sjá, eigi hugða eg að eg mundi sjá þitt andlit og sjá, Guð hefur að auk þess og látið mig sjá þitt sáð.“ Og Jósef tók þá af hans faðmi og hneigði sig til jarðar á sína ásjónu.
So lét Jósef þá báða, Efraím sér til hægri handar mót Ísraels vinstri hönd, en Manasses til vinstri handar móti Ísraels hægri hönd, og leiddi þá til hans. [ En Ísrael rétti sína hægri hönd út og lagði hana á Efraíms höfuð sem var yngri og sína vinstri hönd á Manasses höfuð, skiptandi so viljandi um sínar hendur, því Manasses var sá hinn frumgetni. Og hann blessaði Jósef og sagði: „Guð í hvers augliti mínir forfeður Abraham og Ísak gengu, sá Guð sem að fæddi mig mína lífstíð in til þessa dags, sá engill sem mig hefur frelst frá öllu vondu, hann blessi þessa sveina, að þeir kallist [ eftir mínu nafni og eftir minna forfeðra Abrahams og Ísaks nafni, og þeir vaxi og verði margir á jörðunni.“
En sem Jósef sá það að faðir hans lagði sína hægri hönd uppá Efraíms höfuð, þá mislíkaði það honum. Og hann tók upp síns föðurs hönd af höfði Efraím og vildi leggja hana yfir Manasses höfuð og sagði til hans: „Ekki so, minn faðir, þessi er sá hinn frumgetni, legg þína hægri hönd uppá hans höfuð.“ En hans faðir neitaði því og sagði: „Eg veit það vel minn son, eg veit það vel. Þessi skal og verða að fólki og margfaldast. En hans yngri bróðir skal verða meiri en hann og hans sæði skal verða eitt mikið fólk.“ Svo blessaði hann þá þann sama dag og sagði: „Hver sem vill blessa nokkurn í Ísrael, hann skal segja: Guð gjöri við þig líka sem við Efraím og Manasse.“ Og so setti hann Efraím fyrir Manasse.
Og Ísrael sagði til Jósefs: „Sjá, eg andast. Og Guð skal vera með yður og leiða yður aftur í yðvart föðurland. Eg hefi gefið þér einn hluta landsins fram yfir þína bræður, hvern eg tók af þeirra hendi Amorreis með mínu sverði og boga.“