1Loks lauk Job upp munni sínum og bölvaði fæðingardegi sínum.2Hann tók til máls og sagði:3Farist sá dagur, sem ég fæddist á, og nóttin, sem sagði: Sveinbarn er getið!4Sá dagur verði að myrkri, Guð á hæðum spyrji ekki eftir honum, engin dagsbirta ljómi yfir honum.5Myrkur og niðdimma heimti hann aftur, skýflókar leggist um hann, dagmyrkvar skelfi hann.6Sú nótt myrkrið hremmi hana, hún gleðji sig eigi meðal ársins daga, hún komi eigi í tölu mánaðanna.7Sjá, sú nótt verði ófrjó, ekkert fagnaðaróp heyrist á henni.8Þeir sem bölva deginum, formæli henni, þeir sem leiknir eru í að egna Levjatan.9Myrkvist stjörnur aftureldingar hennar, vænti hún ljóss, en það komi ekki, og brágeisla morgunroðans fái hún aldrei litið,10af því að hún lokaði eigi fyrir mér dyrum móðurlífsins og byrgði ei ógæfuna fyrir augum mínum.11Hví dó ég ekki í móðurkviði, andaðist jafnskjótt og ég var kominn af móðurlífi?12Hvers vegna tóku kné á móti mér og hví voru brjóst til handa mér að sjúga?13Því þá lægi ég nú og hvíldist, væri sofnaður og hefði frið14hjá konungum og ráðherrum jarðarinnar, þeim er reistu sér hallir úr rústum,15eða hjá höfðingjum, sem áttu gull, þeim er fylltu hús sín silfri.16Eða ég væri ekki til eins og falinn ótímaburður, eins og börn, sem aldrei hafa séð ljósið.17Í gröfinni hætta hinir óguðlegu hávaðanum, og þar hvílast hinir örmagna.18Bandingjarnir hafa þar allir ró, heyra þar eigi köll verkstjórans.19Smár og stór eru þar jafnir, og þrællinn er þar laus við húsbónda sinn.20Hví gefur Guð ljós hinum þjáðu og líf hinum sorgbitnu?21þeim sem þrá dauðann, en hann kemur ekki, sem grafa eftir honum ákafara en eftir fólgnum fjársjóðum,22„þeim sem mundu gleðjast svo, að þeir réðu sér ekki fyrir kæti, fagna, ef þeir fyndu gröfina;“23þeim manni, sem enga götu sér og Guð hefir girt inni?24Því að andvörp eru orðin mitt daglegt brauð, og kvein mitt úthellist sem vatn.25Því að óttaðist ég eitthvað, þá hitti það mig, og það sem ég hræddist, kom yfir mig.26Ég mátti eigi næðis njóta, eigi friðar, eigi hvíldar, þá kom ný mæða.
3.3 Fæðingardagur Job 10.18; Sír 23.14; Matt 26.24 og hlst.
3.8 Levíatan Jes 27.1; Slm 74.14; 104.26
3.10 Loka móðurlífi 1Mós 29.31; 30.22; 1Sam 1.5
3.14 Með konungum Jes 14.9-11; Esk 32.18-30
3.16 Eins fyrirburi Job 10.19; Slm 58.9; Préd 6.3
3.17 Hvílast Opb 14.13
3.19 Allir deyja Job 21.26; Préd 9.2-3
3.21 Þrá dauðann Job 6.9; 7.15; 1Kon 19.4; Jer 8.3; Jón 4.3; Opb 9.6
3.23 Króað af Job 1.9
3.24 Harmakvein Slm 42.4; 80.6; 102.10
3.25 Það sem ég óttaðist Job 15.24; Okv 10.24; Esk 11.8
3.26 Engin hvíld 5Mós 28.65-67; Matt 11.28-29; Opb 14.11