III.

Eftir það upplauk Job sínum munni og bölvaði sínum degi og sagði: [ „Fyrirfarist sá dagur á hverjum em eg fæddur og sú nótt á hverri sagt var: Sveinbarn er getið. Veri sá dagur myrkur og Guð hér ofan að, hann eigi ekki við að spyrja eftir honum. Ekkert ljós þá skíni yfir honum. Myrkur og þoka yfirfalli hann, þykkvir skýflókar blífi yfir honum og þokusvælan dagsins gjöri hann herfilegan. Og myrkrið eignist þá nótt svo hún gleðji sig ekki á meðal daganna ársins og komi hún eigi heldur í mánuðanna tölu. Sjá, veri sú nótt einmana og enginn gleðskapur sé á henni. Bölvi henni þeir sem formæla deginum og þeir sem reiðubúnir eru til að uppvekja þann levjatan. Stjörnur hennar verði myrkvar í hennar rökkri, hún voni eftir ljósinu og það komi ekki og eigi líti hún augabrún morgunroðans. Af því hún ei afturlukti dyrnar míns [ kviðar og byrgði ekki þá gæfuna fyrir mínum augum.

Hvar fyrir deyði eg ekki í móðurkviði? Því fyrirfórst eg þá ekki þegar að eg kom af minnar móður lífi? Hvar fyrir hafa þær lagt mig í kjöltu sér? Hvar fyrir var eg á brjósti uppfæddur? Því þá lægi eg nú og væri kyrr, svæfi og hefði hvíld með kóngunum og ráðsherrunum jarðarinnar sem byggja það sem í [ eyði er, elligar með þeim höfðingjum sem gullið eiga og þeirra húsin eru full af silfri, eður falinn svo sem einn ótímabær burður og væri ekki neitt, svo sem að þau ungu börnin er aldrei sáu ljósið, þar eð hinir ómildu munu afláta grimdaræðinu, þar eð hvíla sig þeir eð haft hafa mikið erfiði. Þar hafa og fangarnir frið hver við annan og heyra ekki kvalarans hljóð. Þar eru bæði smáir og stórir, þrællinn og sá sem frelsi er gefið af sínum herra.

Hvar fyrir er ljósið gefið hinum vesala og lífið sorgbitnum í hjarta? Þeim sem bíða eftir dauðanum og hann kemur ekki og græfi hann út af [ fylsnunum? Þeir mundu gleðja sig mjög og vera glaðir við það að þeir megi komast til grafarinnar. Og sá maður hvers vegur að [ byrgður er og Guð byrgir þann sama fyrir honum. Því þá nær eg skal matar neyta hlýt eg að andvarpa þar út af og minn grátur útrennur sem vatn. Því það hvað eg hræddist, það er yfir mig komið og fyrir því sem eg kvídda, það henti mig. Var eg ekki lukkusamlegur? Var eg ekki að hófi spaklátur? Hafði eg ekki góða hvíld? Og þar kom svoddan hrelling.“