1Þú, Drottinn, ert réttlátari en svo, að ég megi þrátta við þig! Þó verð ég að deila á þig: Hví lánast athæfi hinna óguðlegu, hví eru allir þeir óhultir, er sviksamlega breyta?2Þú gróðursetur þá, og þeir festa rætur, dafna og bera ávöxt. Þeir hafa þig ávallt á vörunum, en hjarta þeirra er langt frá þér.3En þú, Drottinn, þekkir mig, sér mig, og þú hefir reynt hugarþel mitt til þín. Skil þá úr, eins og sauði til slátrunar, og helgaðu þá drápsdeginum.4Hversu lengi á landið að syrgja og jurtir vallarins alls staðar að skrælna? Sakir illsku þeirra, er í því búa, farast skepnur og fuglar, þar eð þeir segja: Hann sér eigi afdrif vor.5Ef þú mæðist af því að hlaupa með fótgangandi mönnum, hvernig ætlar þú þá að þreyta kapphlaup við hesta? Og ef þú ert aðeins öruggur í friðuðu landi, hvernig ætlar þú þá að fara að í kjarrinu á Jórdanbökkum?6Jafnvel bræður þínir og skyldulið föður þíns einnig þeir eru þér ótrúir, einnig þeir hafa kallað fullum rómi á eftir þér. Treystu þeim ekki, þótt þeir tali vinsamlega til þín.7Yfirgefið hefi ég hús mitt, hafnað eign minni. Ég hefi gefið það, sem sál minni var kærast, óvinum hennar á vald.8Eign mín varð mér eins og ljón í skógi, hún öskraði í móti mér, fyrir því hata ég hana.9Er eign mín orðin mér eins og marglitur ránfugl? Ránfuglar sækja að henni öllumegin. Komið, safnið saman öllum dýrum merkurinnar, komið með þau til að eta.10Margir hirðar hafa eytt víngarð minn, fótum troðið óðal mitt, hafa gjört hið unaðslega óðal mitt að eyðilegri heiði.11Menn hafa gjört það að auðn, í eyði drúpir það fyrir mér, allt landið er í eyði lagt, af því að enginn leggur það á hjarta.12Eyðandi ræningjar hafa steypt sér yfir allar skóglausar hæðir í eyðimörkinni. Sverð Drottins eyðir landið af enda og á, enginn er óhultur.13Þeir sáðu hveiti, en uppskáru þyrna, þeir þreyttu sig, en varð ekki gagn að. Verðið því til skammar fyrir afrakstur yðar vegna hinnar brennandi reiði Drottins.14Svo segir Drottinn: Allir hinir vondu nágrannar mínir, þeir er áreitt hafa eignina, er ég gaf lýð mínum Ísrael, sjá, ég slít þá upp úr landi þeirra, og Júda hús vil ég upp slíta, svo að það sé eigi meðal þeirra.15En eftir að ég hefi slitið þá upp, mun ég aftur miskunna mig yfir þá og flytja þá heim aftur, hvern til síns óðals og hvern til síns lands.16Og ef þeir þá læra siðu þjóðar minnar og sverja við mitt nafn: Svo sannarlega sem Drottinn lifir! eins og þeir hafa kennt þjóð minni að sverja við Baal, þá skulu þeir þrífast meðal þjóðar minnar.17En ef einhver þjóð vill ekki heyra, þá slít ég þá þjóð upp og tortími henni segir Drottinn.
12.2 Hræsnarar Jer 9.7; Slm 62.5; Mík 7.6
12.3 Þú þekkir mig Jer 11.20; Slm 139.1+ – Guð hegnir Jer 10.25
12.4 Landið syrgir Jer 23.10; Hós 4.3; Jl 1.10; sbr Jer 14.2 – skepnur farast Jer 4.25+ – vegna illsku þeirra Jer 5.25; 6.19
12.6 Treystu ekki Jer 9.4+
12.7 Erfaðahlutur Guðs Jer 10.16+ – hús mitt Hós 8.1
12.9 Hrægömmum að bráð Jer 7.33; Jes 56.9; sbr Jer 16.4; 19.7
12.10 Víngarður minn Jes 5.1+ – eyðing jarðlendis Jer 6.3; Slm 80.14
12.11 Enginn skiptir sér af Jes 42.25; 57.1
12.13 Uppskáru þyrna Hós 8.7 – brennandi reiði Jer 4.8+
12.14 Vondir nágrannar Jer 10.25 – rífa upp Jer 1.10+
12.15 Aftur sýna miskunn Jer 3.17; 16.19-21; 23.23; 46.26; 48.47; 49.6,39; sbr 1Kon 8.41; Jes 19.19-25; Am 9.7; sbr Jer 29.14+ – flytja heim Esk 29.14
12.16 Sverja Jer 4.2+