1Að nokkrum tíma liðnum kom Samson um hveitiuppskerutímann að vitja konu sinnar og hafði með sér hafurkið. Og hann sagði við föður hennar: Leyf mér að ganga inn í afhýsið til konu minnar! En faðir hennar vildi ekki leyfa honum inn að ganga.2Og faðir hennar sagði: Ég var fullviss um, að þú hefðir fengið megna óbeit á henni og gifti hana því brúðarsveini þínum, en yngri systir hennar er fríðari en hún, hana skalt þú fá í hennar stað.3Þá sagði Samson við þá: Nú ber ég enga sök á því við Filista, þó að ég vinni þeim mein.4Síðan fór Samson og veiddi þrjú hundruð refi, tók blys, sneri hölunum saman og batt eitt blys millum hverra tveggja hala.5Síðan kveikti hann í blysunum og sleppti því næst refunum inn á kornakra Filista og brenndi þannig bæði kerfaskrúf, óslegið korn, víngarða og olíugarða.6Þá sögðu Filistar: Hver hefir gjört þetta? Og menn svöruðu: Samson, tengdasonur Timnítans, því að hann hefir tekið frá honum konuna og gift hana brúðarsveini hans. Þá fóru Filistar upp þangað og brenndu hana inni og föður hennar.7En Samson sagði við þá: Fyrst þér aðhafist slíkt, mun ég ekki hætta fyrr en ég hefi hefnt mín á yður.8Síðan barði hann svo óþyrmilega á þeim, að sundur gengu lær og leggir. Og hann fór þaðan og settist að í Etamklettaskoru.9Þá fóru Filistar upp eftir og settu herbúðir sínar í Júda og dreifðu sér um Lekí.10Og Júdamenn sögðu: Hví hafið þér farið í móti oss? En þeir svöruðu: Vér erum hingað komnir til þess að binda Samson, svo að vér megum með hann fara sem hann hefir farið með oss.11Þá fóru þrjú þúsund manns frá Júda ofan til Etamklettaskoru og sögðu við Samson: Veist þú ekki, að Filistar drottna yfir oss? Hví hefir þú þá gjört oss þetta? Hann svaraði þeim: Eins og þeir fóru með mig, svo hefi ég farið með þá.12Þeir sögðu við hann: Vér erum hingað komnir til að binda þig, svo að vér getum selt þig í hendur Filista. Þá sagði Samson við þá: Vinnið mér eið að því, að þér sjálfir skulið ekki drepa mig.13Þeir svöruðu honum: Nei, vér munum aðeins binda þig og selja þig í hendur þeirra en drepa þig munum vér ekki. Og þeir bundu hann með tveimur reipum nýjum og fóru með hann burt frá klettinum.14En er Samson kom til Lekí, fóru Filistar með ópi miklu í móti honum. Þá kom andi Drottins yfir hann, og urðu reipin, sem voru um armleggi hans, sem þræðir í eldi brunnir, og hrukku fjötrarnir sundur af höndum hans.15Og hann fann nýjan asnakjálka, rétti út höndina og tók hann og laust með honum þúsund manns.16Þá sagði Samson: Með asnakjálka hefi ég gjörsamlega flegið þá, með asnakjálka hefi ég banað þúsund manns!17Og er hann hafði mælt þetta, varpaði hann kjálkanum úr hendi sér, og var þessi staður upp frá því nefndur Ramat Lekí.18En Samson var mjög þyrstur og hrópaði því til Drottins og mælti: Þú hefir veitt þennan mikla sigur fyrir hönd þjóns þíns, en nú hlýt ég að deyja af þorsta og falla í hendur óumskorinna manna!19Þá klauf Guð holuna, sem var í Lekí, svo að vatn rann fram úr henni. En er hann hafði drukkið, kom andi hans aftur og hann lifnaði við. Fyrir því var hún nefnd Hrópandans lind. Hún er í Lekí fram á þennan dag.20En Samson var dómari í Ísrael um daga Filista í tuttugu ár.
15.14 Andi Drottins Dóm 3.10+
15.18 Óumskornir (Filistar) Dóm 14.3+
15.19 Vatn af kletti 2Mós 17.6; Slm 78.15-16
15.20 Samson, dómari í Ísrael Dóm 16.31