XV.

Og það skeði svo eftir nokkra daga á hveitkornskurðartíma að Samson fór að vitja sinnar konu og hafði með sér eitt hafurkið. Og sem hann ætlaði sér að ganga í herbergið til konu sinnar þá lét hennar faðir öngvan kost á því og sagði: „Eg atlaði að þú mundir henni orðinn reiður og því gifta eg hana þínum lagsmanni. En hún hefur aðra yngri þá systur sem fríðari er en hún, lát hana verða þína fyrir hina.“ En Samson svaraði og sagði til þeirra: „Eg hefi nú einu sinni fengið rétta sök á móti þeim Philisteis. Eg skal gjöra yður skaða.“

Og Samson gekk þaðan og veiddi þrjú hundruð refa og hann tók sér eldskíð, batt þá saman á hölunum og batt eitt eldsskíð á millum hverra tveggja og kveikti eld í þeim og sleppti þeim lausum í akra þeirra Philistim og uppbrenndi þeirra bindini og svo það standanda korn og þeirra víngarða og viðsmjörstré. Þá sögðu Philistei: „Hver hefur gjört þetta?“ Þá var þeim sagt: „Samson, mágur hans í Timnat, fyrir það að hans mágur tók hans hústrú og gaf hana hans vin.“ Þá fóru Philistei upp þangað og brenndu inni konuna og hennar föður með eldi.

En Samson sagði til þeirra: „En þó að þér hafið þetta gjört þá vil eg sem áður hefna mín sjálfur á yður og láta af síðan.“ Og hann sló þá harðlega bæði á [ herðar og lendar. Og hann fór ofan og bjó í einni bjargskoru í Etam.

Þá fóru Philistei upp í landið Júda og settu herbúðir sínar í Lehí. En þeir af Júda sögðu: „Því eru þér hér uppkomnir í móti oss?“ Þeir svöruðu: „Þess erindis erum vér hingað komnir að binda Samson og gjalda honum umbön fyrir það sem hann hefur gjört oss.“ Eftir það fóru þrjár þúsundir manna af Júda ofan til bjargskorunnar í Etam og sögðu Samsoni: „Veistu ekki að Philistei drottna yfir oss? Því hefur þú svo breytt við oss?“ Hann svaraði: „So sem þeir gjörðu við mig, so hefi eg og gjört við þá.“

Og þeir sögðu: „Vér erum komnir hér ofan að binda þig og selja þig í hendur þeim Philisteis.“ [ Samson sagði til þeirra: „Þá sverjið mér eið að þér viljið ekki lífláta mig.“ Þeir svöröðu honum: „Eigi viljum vér hindra þig að neinu heldur viljum vér aðeins binda þig og gefa þig svo í þeirra hendur en ei viljum vér slá þig í hel.“ Síðan bundu þeir hann með tveimur reipum nýjum og fluttu hann burt af bjarginu (Etam).

En sem hann kom til Lehí hlaupa Philistei þegar í móti honum með miklum fagnaði. En andi Drottins kom yfir Samson og reipin af hans armleggjum urðu sem þráður brunninn í eldi, svo slitnuðu þau bönd sem voru á hans höndum. Og hann fann einn fúinn asnakjálka og útrétti sína hönd og greip hann upp og sló með honum þúsund manna. [ Og Samson sagði: „Þar liggja þeir í hrúgu. Með einum asnakjálka hefi eg slegið þúsund menn.“ Og sem hann hafði það sagt kastaði hann kjálkanum frá sér og kallaði þann stað [ Ramat Lehí.

Og hann varð mjög þystur, kallaði hann til Drottins og sagði: „Þú, Drottinn, hefur gefið þessa miklu heilsu fyrir hönd þíns þénara. En nú hlýt eg að deyja af þosta og falla í hendur óumskorinna manna.“ Þá lét Guð einn jaxla losna úr asnakjálkanum so þar spratt upp úr vatn. Og sem hann drakk þá endurlifnaði andi hans og hann hresstist aftur. Þar fyrir kallast sá staður enn á þessum degi Ákallarans brunnur sem varð í kjálkanum. Og hann dæmdi Ísrael á dögum Philisteis í tuttugu ár.