1Öllu þessu veitti ég athygli, og allt þetta reyndi ég að rannsaka: Að hinir réttlátu og vitru og verk þeirra eru í hendi Guðs. Hvorki elsku né hatur veit maðurinn fyrir, allt liggur fram undan þeim.2Allt getur alla hent, sömu örlög mæta réttlátum og óguðlegum, góðum og hreinum og óhreinum, þeim er fórnfærir og þeim er ekki fórnfærir. Hinum góða farnast eins og syndaranum, og þeim er sver eins og þeim er óttast svardaga.3Það er ókostur við allt, sem við ber undir sólinni, að sömu örlög mæta öllum, og því fyllist hjarta mannanna illsku, og heimska ríkir í hjörtum þeirra alla ævi þeirra, og síðan liggur leiðin til hinna dauðu.4Því að meðan maður er sameinaður öllum sem lifa, á meðan er von, því að lifandi hundur er betri en dautt ljón.5Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist.6Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólinni.7Far því og et brauð þitt með ánægju og drekk vín þitt með glöðu hjarta, því að Guð hefir þegar lengi haft velþóknun á verkum þínum.8Klæði þín séu ætíð hvít og höfuð þitt skorti aldrei ilmsmyrsl.9Njót þú lífsins með þeirri konu, sem þú elskar, alla daga þíns fánýta lífs, sem hann hefir gefið þér undir sólinni, alla þína fánýtu daga, því að það er hlutdeild þín í lífinu og það sem þú fær fyrir strit þitt, sem þú streitist við undir sólinni.10Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.11Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.12Því að maðurinn þekkir ekki einu sinni sinn tíma: Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá.13Þetta sá ég einnig sem speki undir sólinni, og fannst mér mikið um:14Einu sinni var lítil borg og fáir menn í henni. Voldugur konungur fór í móti henni og settist um hana og reisti mikil hervirki gegn henni.15En í borginni var fátækur maður, en vitur, og hann bjargaði borginni með viturleik sínum. En enginn maður minntist þessa fátæka manns.16Þá hugsaði ég: Viska er betri en afl, en viska fátæks manns er fyrirlitin, og orðum hans er eigi gaumur gefinn.17Orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna.18Viska er betri en hervopn, en einn syndari spillir mörgu góðu.
9.2 Réttlátur og óguðlegur Préd 7.15+
9.4 Hundur Slm 22.17; Okv 26.11; Matt 7.6; Lúk 16.21
9.7 Njóta lífsins Préd 2.24+
9.9 Konan, sem þú elskar Okv 5.18
9.12 Þekkir ekki sinn tíma Lúk 12.20
9.16 Gildi spekinnar Okv 8.11+