1Sjöunda hvert ár skalt þú veita umlíðun skulda.2En þeirri umlíðun er svo farið: Sérhver lánardrottinn skal veita umlíðun á því, sem hann hefir lánað náunga sínum. Hann skal eigi ganga hart að náunga sínum og bróður, því að umlíðun hefir boðuð verið Drottni til dýrðar.3Að útlendum manni mátt þú ganga hart, en það, sem þú átt hjá bróður þínum, skalt þú líða hann um.4Reyndar mun enginn fátækur hjá þér vera, því að Drottinn mun blessa þig ríkulega í landi því, sem Drottinn Guð þinn gefur þér sem arf til eignar,5ef þú aðeins hlýðir kostgæfilega raustu Drottins Guðs þíns með því að gæta þess að halda allar þessar skipanir, sem ég legg fyrir þig í dag.6Því að Drottinn Guð þinn hefir blessað þig, eins og hann hefir heitið þér, svo að þú munt lána mörgum þjóðum, en sjálfur eigi þurfa að taka lán, og þú munt drottna yfir mörgum þjóðum, en þær munu eigi drottna yfir þér.7Ef með þér er fátækur maður, einhver af bræðrum þínum, í einhverri af borgum þínum í landi þínu, því er Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki herða hjarta þitt og eigi afturlykja hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum,8heldur skalt þú upp ljúka hendi þinni fyrir honum og lána honum fúslega það, er nægi til að bæta úr skorti hans.9Gæt þín, að eigi komi sú ódrengskaparhugsun upp í hjarta þínu: Sjöunda árið, umlíðunarárið, er fyrir hendi! og að þú lítir eigi fátækan bróður þinn óblíðu auga og gefir honum ekkert, svo að hann hrópi til Drottins yfir þér, og það verði þér til syndar.10Miklu fremur skalt þú gefa honum og eigi gjöra það með illu geði, því að fyrir það mun Drottinn Guð þinn blessa þig í öllu verki þínu og í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur,11því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu. Fyrir því býð ég þér og segi: Þú skalt fúslega upp ljúka hendi þinni fyrir bróður þínum, fyrir þurfamanninum og hinum fátæka í landi þínu.12Ef bróðir þinn, hebreskur maður eða hebresk kona, selur sig þér, þá skal hann þjóna þér í sex ár, en sjöunda árið skalt þú láta hann lausan frá þér fara.13Og þegar þú lætur hann lausan frá þér fara, þá skalt þú ekki láta hann fara tómhentan.14Þú skalt gjöra hann vel úr garði og gefa honum af hjörð þinni, úr láfa þínum og vínþröng þinni, þú skalt gefa honum af því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með.15Og þú skalt minnast þess, að þú varst þræll í Egyptalandi og að Drottinn Guð þinn leysti þig. Fyrir því legg ég þetta fyrir þig í dag.16En segi hann við þig: Ég vil ekki fara frá þér, af því að honum er orðið vel við þig og skyldulið þitt, með því að honum líður vel hjá þér,17þá skalt þú taka al og stinga í gegnum eyra honum inn í hurðina, og skal hann síðan vera þræll þinn ævinlega. Á sömu leið skalt þú og fara með ambátt þína.18Lát þér eigi fallast um það, þótt þú eigir að láta hann lausan frá þér fara, því að í sex ár hefir hann unnið þér tvöfalt, miðað við kaup kaupamanns. Og Drottinn Guð þinn mun blessa þig í öllu, sem þú gjörir.19Alla frumburði karlkyns, sem fæðast á meðal nautgripa þinna og sauðfjár þíns, skalt þú helga Drottni Guði þínum. Frumburði nauta þinna skalt þú ekki hafa til vinnu né klippa frumburði sauðfjár þíns.20Frammi fyrir augliti Drottins Guðs þíns skalt þú eta þá á ári hverju á þeim stað, sem Drottinn velur, ásamt skylduliði þínu.21En ef einhver lýti eru á þeim, ef þeir eru haltir eða blindir eða hafa einhvern annan slæman galla, þá skalt þú eigi fórna þeim Drottni Guði þínum.22Innan borgarhliða þinna skalt þú eta þá, og það jafnt óhreinn sem hreinn, sem væri það skógargeit eða hjörtur.23„Blóðsins eins skalt þú ekki neyta; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.“
15.2 Lán 5Mós 15.6-11; 2Mós 22.25+ ; Slm 37.26; Sír 29.1-7
15.3 Bróðir þinn 5Mós 23.20
15.4 Landið er arfur 5Mós 3.20+
15.5 Hlýða Drottni 5Mós 4.30+ – gæta þess að halda 5Mós 5.1+ – ákvæði 5Mós 4.2+ ; 5.31+
15.6 Lán gegn veði 5Mós 24.6; 2Mós 22.26+
15.7 Loka hendi með harðýðgi 1Jóh 3.17+
15.8 Ljúka upp hendi sinni Sír 3.30-4.10
15.9 Ákalla Drottin … Sír 4.5-6
15.11 Fátækir Mrk 14.7 og hlst.
15.12 Hebreskir þjónar 2Mós 21.2+ ; Jer 34.8-16 – láta frjálsan þrælinn Jóh 8.35+
15.15 Þræll í Egyptalandi 5Mós 5.15+ – Guð frelsaði Ísrael 5Mós 7.8+
15.16-17 Hafnar frelsinu 2Mós 21.5-6
15.19 Frumburðir helgaðir Dottni 2Mós 13.1+
15.20 Eta frammi fyrir Drottni 5Mós 12.7+ – staður, sem Guð velur 5Mós 12.5+
15.21 Dýr með lýti 3Mós 22.20+
15.22 Eta kjöt 5Mós 12.15-16
15.23 Ekki neyta blóðs 5Mós 12.16+