Sjöunda árið: Uppgjöf skulda
1 Sjöunda hvert ár skaltu fella niður skuldir. 2 Eftir þessum reglum skaltu fella niður skuldir: Sérhver lánardrottinn skal falla frá kröfum vegna láns sem hann hefur veitt náunga sínum. Hann skal ekki ganga eftir greiðslu hjá náunga sínum og meðbróður því að niðurfelling skulda hefur verið boðuð vegna Drottins. 3 Þú mátt ganga hart að útlendingi en þú skalt gefa bróður þínum það eftir sem þú átt hjá honum.
4 Raunar á enginn þín á meðal að vera fátækur því að í landinu, sem Drottinn, Guð þinn, fær þér sem erfðaland og þú tekur til eignar, mun Drottinn blessa þig ríkulega 5 ef þú aðeins hlýðir Drottni, Guði þínum, og gætir þess að halda öll ákvæðin sem ég set þér í dag. 6 Því að Drottinn, Guð þinn, mun blessa þig eins og hann hét þér. Þá munt þú lána mörgum þjóðum en sjálfur ekki þurfa að taka lán og þú munt ríkja yfir mörgum þjóðum en engin mun ríkja yfir þér.
Lán til fátækra Ísraelsmanna
7 Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi 8 heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.
9 Gæt þess að hleypa ekki þessari ódrengilegu hugsun að: „Nú er skammt til sjöunda ársins þegar skuldir skulu felldar niður,“ og þú lítir þurfandi bróður þinn illu auga og gefir honum ekkert. Þá mun hann ákalla Drottin og ásaka þig og það verður þér til syndar.
10 Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. 11 Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.
Lausn hebreskra þræla
12 Selji landi þinn sig þér, hvort sem er hebreskur karl eða kona, skal hann þjóna þér í sex ár en sjöunda árið skaltu láta hann frjálsan frá þér fara. 13 Þegar þú leysir hann skaltu ekki láta hann fara tómhentan. 14 Þú skalt fá honum svo mikið sem hann getur borið af sauðahjörð þinni og þreskivelli og úr vínpressu þinni og gefa honum af öllu sem Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig með. 15 Minnstu þess að þú varst sjálfur þræll í Egyptalandi og Drottinn, Guð þinn, keypti þig lausan. Þess vegna legg ég þetta boð fyrir þig í dag.
16 En segi nú þessi þræll við þig: „Ég vil ekki fara frá þér,“ af því að honum þykir vænt um þig og fjölskyldu þína og líður vel hjá þér, 17 þá skaltu taka al og stinga honum í gegnum eyrnasnepil hans og í hurðina. Hann verður þá þræll þinn ævilangt. Á sama hátt skaltu fara með ambátt þína.
18 Taktu það ekki nærri þér að þurfa að senda hann frá þér frjálsan mann því að hann hefur unnið fyrir þig í sex ár fyrir jafngildi þess sem þú hefðir þurft að greiða kaupamanni. Og Drottinn mun blessa þig í öllu sem þú gerir.
Frumburðir búfjár
19 Þú skalt helga Drottni, Guði þínum, alla karlkyns frumburði nautgripa þinna og sauðfjár. Þú skalt ekki hafa frumburði nauta þinna til vinnu og ekki rýja frumburði sauðfjár þíns.
20 Á hverju ári skaltu eta frumburði búfjár þíns með fjölskyldu þinni, frammi fyrir Drottni, Guði þínum, á staðnum sem Drottinn velur.
21 En séu einhver lýti á dýri, það halt eða blint eða með annan slæman galla, skaltu ekki færa það Drottni, Guði þínum, að sláturfórn. 22 Þú skalt neyta þess í heimaborg þinni. Bæði hreinn maður og óhreinn mega eta það saman eins og það væri skógargeit eða hjörtur. 23 En þú mátt ekki neyta blóðsins, þú skalt hella því á jörðina eins og vatni.