1Á fjórða ríkisári Daríusar konungs kom orð Drottins til Sakaría. Á fjórða degi hins níunda mánaðar, í kislevmánuði,2sendu Betel Sareser og Regem Melek og menn hans sendimenn til þess að blíðka Drottin.3Þeir lögðu svolátandi fyrirspurn fyrir prestana, sem þjónuðu í húsi Drottins allsherjar, og fyrir spámennina: Á ég að gráta og fasta í fimmta mánuðinum, eins og ég hefi gjört nú í mörg undanfarin ár?4Þá kom orð Drottins allsherjar til mín, svo hljóðandi:5Tala þú til alls landslýðsins og til prestanna á þessa leið: Þar sem þér hafið fastað og kveinað í fimmta og sjöunda mánuðinum nú í sjötíu ár, hvort var það þá mín vegna, að þér föstuðuð?6Og er þér etið og drekkið, eruð það þá ekki þér, sem etið, og eruð það ekki þér, sem drekkið?7Eru þetta ekki þau orð, er Drottinn lét kunngjöra fyrir munn hinna fyrri spámanna, þá er Jerúsalem var byggð og naut friðar, ásamt borgunum umhverfis hana, og þá er Suðurlandið og sléttlendið voru byggð?8Þá kom orð Drottins til Sakaría, svo hljóðandi:9Svo segir Drottinn allsherjar: Dæmið rétta dóma og auðsýnið hver öðrum kærleika og miskunnsemi.10Veitið ekki ágang ekkjum og munaðarleysingjum, útlendingum né fátækum mönnum, og enginn yðar hugsi öðrum illt í hjarta sínu.11En þeir vildu ekki gefa því gaum og þverskölluðust. Þeir gjörðu eyru sín dauf, til þess að þeir skyldu ekki heyra,12og þeir gjörðu hjörtu sín að demanti, til þess að þeir skyldu ekki heyra fræðsluna og orðin, sem Drottinn allsherjar sendi fyrir anda sinn, fyrir munn hinna fyrri spámanna, og það kom mikil reiði frá Drottni allsherjar.13Og eins og hann kallaði, en þeir heyrðu ekki, svo skulu þeir nú sagði Drottinn allsherjar kalla, en ég ekki heyra.14Og ég feyki þeim burt meðal allra þjóða, er þeir eigi hafa þekkt, og landið skal verða að auðn, þá er þeir eru burt farnir, svo að enginn fer þar um á leið fram eða aftur. Þannig gjörðu þeir unaðslegt land að auðn.
7.3 Fyrirspurn fyrir presta 3Mós 27.8,11-12,14; Jer 2.8; Esk 7.26; Sak 7.1-3; Mal 2.7 – harma Slm 137.1; Hlj 2.18 – og fasta Jl 2.12-17
7.5 Umdeild fasta Jes 58.5; Matt 6.16 – sjötíu ár Jer 25.11; 29.10
7.10 Ekkja og munaðarleysingi … Jes 1.16-17+ ; sbr Am 8.4
7.11 Dauf eyru Jes 6.10; Jer 18.12; Esk 2.4-5
7.12 Hjörtu að steini sbr 2Kon 17.14; Esk 11.19; Neh 9.16 – áminningar og viðvaranir (lögmálið og spámennirnir) Matt 7.12; 22.40
7.13 Kallað, en ekki svarað Jes 50.2; 65.12; 66.4; Jer 7.13; 35.17; Okv 1.24-33