1Biðjið Drottin um regn. Hann veitir vorregn og haustregn á réttum tíma. Helliskúrir og steypiregn gefur hann þeim, hverri jurt vallarins.2Húsgoðin veittu fánýt svör, og spásagnamennirnir sáu falssýnir. Þeir kunngjöra aðeins hégómlega drauma og veita einskisverða huggun. Fyrir því héldu þeir áfram eins og hjörð, eru nú nauðulega staddir, af því að enginn er hirðirinn.3Gegn hirðunum er reiði mín upptendruð og forustusauðanna skal ég vitja. Því að Drottinn allsherjar hefir litið til hjarðar sinnar, Júda húss, og gjört þá að skrauthesti sínum í stríðinu.4Frá þeim kemur hornsteinninn, frá þeim kemur tjaldhællinn, frá þeim kemur herboginn, frá þeim koma allir saman hershöfðingjarnir.5Þeir munu í stríðinu verða eins og hetjur, sem troða niður saurinn á strætunum, og þeir munu berjast vasklega, því að Drottinn er með þeim, svo að þeir verða til skammar, sem hestunum ríða.6Ég gjöri Júda hús sterkt, og Jósefs húsi veiti ég hjálp. Ég leiði þá aftur heim, því að ég aumkast yfir þá, og þeir skulu vera eins og ég hefði aldrei útskúfað þeim. Því að ég er Drottinn, Guð þeirra, og ég vil bænheyra þá.7Þá munu Efraímsmenn verða eins og hetjur og hjarta þeirra gleðjast eins og af víni. Börn þeirra munu sjá það og gleðjast, hjarta þeirra skal fagna yfir Drottni.8Ég vil blístra á þá og safna þeim saman, því að ég hefi leyst þá, og þeir skulu verða eins fjölmennir og þeir forðum voru.9Ég sáði þeim út meðal þjóðanna, en í fjarlægum löndum munu þeir minnast mín og uppala þar börn sín og snúa síðan heim.10Ég mun leiða þá heim aftur frá Egyptalandi og safna þeim saman frá Assýríu. Ég leiði þá inn í Gíleaðland og inn á Líbanon, og skorta mun landrými fyrir þá.11Þeir fara yfir Egyptalandshaf, og hann lýstur hið bárótta haf, og allir álar Nílfljótsins þorna. Hroki Assýríu skal niður steypast og veldissprotinn víkja frá Egyptalandi.12Ég vil gjöra þá sterka í Drottni, og af hans nafni skulu þeir hrósa sér segir Drottinn.
10.2 Ómerk goð Jes 44.20; 46.7; Jer 10.5; Slm 115.5-7; svör draumanna blekking Esk 12.24; 13.6-9; 21.29; 22.28 – hjörð án hirðis Esk 34.5; Matt 9.36 og hlst.
10.4 Hornsteinn Sak 4.7; Slm 118.22
10.5 Drottinn er með þeim Sak 8.23; Jes 7.14+
10.6 Ég leiði þá heim Jes 14.1; Jer 27.11; Esk 37.14 – eiga samúð mína Hós 2.23 – hafnað-frelsað Jes 54.6-8
10.8 Drottinn blístrar Jes 5.26
10.9 Dreifði þeim Jer 31.10; Esk 11.16; 34.5 – minnast mín Esk 6.9; 36.31; Hlj 3.19; sbr Jer 51.50 – snúa aftur 5Mós 30.1-3
10.10 Gíleaðland Hós 12.12; Mík 7.14
10.11 Fara yfir 2Mós 14.21-22; Jes 51.10, Slm 106.9 – hroki Assýríu … Jes 10.12,15
10.12 Ganga í nafni Drottins Mík 4.5