1Þegar ákveðið var, að vér skyldum sigla til Ítalíu, voru Páll og nokkrir bandingjar aðrir seldir í hendur hundraðshöfðingja, er Júlíus hét, úr hersveit keisarans.2Vér stigum á skip frá Adramýttíum, sem átti að sigla til hafna í Asíu, og létum í haf. Aristarkus, makedónskur maður frá Þessaloníku, var oss samferða.3Á öðrum degi lentum vér í Sídon. Júlíus sýndi Páli þá mannúð að leyfa honum að fara á fund vina sinna og þiggja umönnun þeirra.4Þaðan létum vér í haf og sigldum undir Kýpur, því að vindar voru andstæðir.5Þá sigldum vér yfir hafið undan Kilikíu og Pamfýlíu og komum til Mýru í Lýkíu.6Þar fann hundraðshöfðinginn skip frá Alexandríu, er sigla átti til Ítalíu, og kom oss á það.7Siglingin gekk tregt allmarga daga. Komumst vér með herkjum móts til Knídus, en þar bægði vindur oss. Þá sigldum vér undir Krít við Salmóne.8Vér beittum þar hjá með naumindum og komumst á stað einn, sem kallast Góðhafnir, í grennd við borgina Laseu.9Enn leið drjúgur tími, og sjóferðir voru orðnar hættulegar, enda komið fram yfir föstu. Páll vildi því vara þá við10og sagði við þá: Það sé ég, góðir menn, að sjóferðin muni kosta hrakninga og mikið tjón, ekki einungis á farmi og skipi, heldur og á lífi voru.11En hundraðshöfðinginn treysti betur skipstjóra og skipseiganda en því, er Páll sagði.12Höfnin var óhentug til vetrarlegu. Því var það flestra ráð að halda þaðan, ef þeir mættu ná Fönix og hafa þar vetrarlegu. Sú höfn er á Krít og veit til útsuðurs og útnorðurs.13Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi.14En áður en langt leið, skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur.15Skipið hrakti, og varð ekki beitt upp í vindinn. Slógum vér undan og létum reka.16Vér hleyptum undir litla ey, sem nefnist Káda. Þar gátum vér með naumindum bjargað skipsbátnum.17„Þeir náðu honum upp og gripu til þeirra ráða, sem helst máttu til bjargar verða, og reyrðu skipið köðlum. Þeir óttuðust, að þá mundi bera inn í Syrtuflóa; því felldu þeir segl og létu reka.“18Daginn eftir hrakti oss mjög undan ofviðrinu. Þá tóku þeir að ryðja skipið.19Og á þriðja degi vörpuðu þeir út með eigin höndum búnaði skipsins.20Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna, og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um það, að vér kæmumst af.21Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: Góðir menn, þér hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þér komist hjá hrakningum þessum og tjóni.22En nú hvet ég yður að vera vonglaðir, því enginn yðar mun lífi týna, en skipið mun farast.23Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs, sem ég heyri til og þjóna, og mælti:24Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Og sjá, Guð hefur gefið þér alla þá, sem þér eru samskipa.25Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.26Oss mun bera upp á einhverja eyju.27Á miðnætti, þegar vér höfðum hrakist um Adríahaf í hálfan mánuð, þóttust skipverjar verða þess varir, að land væri í nánd.28Þeir vörpuðu grunnsökku, og reyndist dýpið tuttugu faðmar. Aftur vörpuðu þeir grunnsökku litlu síðar, og reyndist dýpið þá fimmtán faðmar.29Þeir óttuðust, að oss kynni að bera upp í kletta, og köstuðu því fjórum akkerum úr skutnum og þráðu nú mest, að dagur rynni.30En hásetarnir reyndu að strjúka úr skipinu. Þeir settu bátinn útbyrðis og þóttust vera að færa út akkeri úr framstafni.31Þá sagði Páll við hundraðshöfðingjann og hermennina: Ef þessir menn eru ekki kyrrir í skipinu, getið þér ekki bjargast.32Hermennirnir hjuggu þá festar bátsins og létu hann fara.33Undir dögun hvatti Páll alla að neyta matar og sagði: Þér hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og engu nærst.34Það er nú mitt ráð, að þér fáið yður mat. Þess þurfið þér, ef þér ætlið að bjargast. En enginn yðar mun einu hári týna af höfði sér.35Að svo mæltu tók hann brauð, gjörði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta.36Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.37Alls vorum vér á skipinu tvö hundruð sjötíu og sex manns.38Þá er þeir höfðu etið sig metta, léttu þeir á skipinu með því að kasta kornfarminum í sjóinn.39Þegar dagur rann, kenndu þeir ekki landið, en greindu vík eina með sandfjöru. Varð það ráð þeirra að reyna að hleypa þar upp skipinu.40Þeir losuðu akkerin og létu þau eftir í sjónum, leystu um leið stýrisböndin, undu upp framseglið og létu berast undan vindi til strandar.41Þeir lentu á rifi, skipið strandaði, stefnið festist og hrærðist hvergi, en skuturinn tók að liðast sundur í hafrótinu.42Hermennirnir ætluðu að drepa bandingjana, svo að enginn þeirra kæmist undan á sundi.43En hundraðshöfðinginn vildi forða Páli og kom í veg fyrir ráðagjörð þeirra. Bauð hann, að þeir, sem syndir væru, skyldu fyrstir varpa sér út og leita til lands,44en hinir síðan ýmist á plönkum eða braki úr skipinu. Þannig komust allir heilir til lands.
27.2 Aristarkus Post 19.29+
27.3 Sýndi mannúð Post 27.43; 28.2; sbr Post 10.1-2; 23.17 – á fund vina sinna Post 24.23
27.9-10 Hættur 2Kor 11.26
27.9 Fastan 3Mós 16.29
27.10 Sbr Post 27.22
27.22 Skipið mun farast Post 27.10,31
27.24 Óttast þú eigi Post 18.9 – áform Guðs Post 2.23; 3.21; Post 23.11
27.26 Bera upp á eyju Post 28.1
27.31 Skilyrði til mannbjargar Post 27.22
27.34 Ekki eitt hár … 1Sam 14.45; 2Sam 14.11; Matt 10.30; Lúk 12.7
27.35 Braut brauð … Matt 15.36; Mrk 8.6; Lúk 22.19; Post 20.7; 1Kor 11.23-24
27.41 Liðast sundur Post 27.22
27.44 Komust heilir til lands Post 27.22,24