1Og hann sýndi mér móðu lífsvatnsins, skínandi sem kristall. Hún rann frá hásæti Guðs og lambsins.2Á miðju stræti borgarinnar, beggja vegna móðunnar, var lífsins tré, sem ber tólf sinnum ávöxt. Á mánuði hverjum gefur það ávöxt sinn, og blöð trésins eru til lækningar þjóðunum.3Og engin bölvun mun framar til vera. Og hásæti Guðs og lambsins mun í borginni vera og þjónar hans munu honum þjóna.4Þeir munu sjá ásjónu hans og nafn hans mun vera á ennum þeirra.5Og nótt mun ekki framar til vera og þeir þurfa ekki lampaljós né sólarljós, því að Drottinn Guð skín á þá og þeir munu ríkja um aldir alda.6Og hann sagði við mig: Þessi orð eru trú og sönn. Og Drottinn, Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms.7Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar.8Og ég, Jóhannes, er sá sem heyrði og sá þetta. Og er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta.9Og hann segir við mig: Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð.10Og hann segir við mig: Innsigla þú ekki spádómsorð þessarar bókar, því að tíminn er í nánd.11Hinn rangláti haldi áfram að fremja ranglæti og hinn saurugi saurgi sig áfram og hinn réttláti stundi áfram réttlæti og hinn heilagi helgist áfram.12Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.13Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn.14Sælir eru þeir, sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina.15Úti gista hundarnir og töframennirnir og frillulífismennirnir og manndrápararnir og skurðgoðadýrkendurnir og hver sem elskar og iðkar lygi.16Ég, Jesús, hef sent engil minn til að votta fyrir yður þessa hluti í söfnuðunum. Ég er rótarkvistur af kyni Davíðs, stjarnan skínandi, morgunstjarnan.17Og andinn og brúðurin segja: Kom þú! Og sá sem heyrir segi: Kom þú! Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.18Ég votta fyrir hverjum þeim manni, sem heyrir spádómsorð þessarar bókar, að leggi nokkur við þau, mun Guð á hann leggja þær plágur, sem um er ritað í þessari bók.19Og taki nokkur burt nokkuð af orðum spádómsbókar þessarar, þá mun Guð burt taka hlut hans í tré lífsins og í borginni helgu, sem um er ritað í þessari bók.20Sá sem þetta vottar segir: Já, ég kem skjótt. Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!21Náðin Drottins Jesú sé með öllum.
22.2 Lífsins tré Opb 2.7+ – lækning þjóðunum Esk 47.12
22.3 Engin bölvun 1Mós 3.22-24; Sak 14.11 – hásæti Guðs Opb 4.2+
22.4 Þeir munu sjá Guð Slm 17.15; 42.3; Matt 5.8 – nafn hans á ennum þeirra Opb 3.12+
22.5 Nóttin ekki framar til Opb 21.23,25+ – þeir munu ríkja Opb 5.10+
22.6 Verður innan skamms Opb 1.1
22.7 Ég kem skjótt Opb 2.16+
22.8-9 Varastu þetta Opb 19.10+
22.10 Innsigla ekki Opb 10.4+ – tíminn er í nánd Opb 1.3
22.11 Hinn rangláti og hinn réttláti Dan 12.10
22.12 Eins og verk hans er Opb 2.23+
22.13 Alfa og Ómega Opb 1.8,17+
22.14 Þvo skikkjur sínar Opb 7.14 – lífsins tré Opb 2.7+
22.15 Úti gista hundarnir 1Kor 6.9-10; Opb 21.8
22.16 Rótarkvistur Davíðs Opb 5.5+ – morgunstjarnan Opb 2.28
22.17 Sá sem þyrstur er Opb 21.6+
22.18-19 Hvorki taka burt né leggja við 5Mós 4.2; 13.1
22.20 Ég kem skjótt Opb 2.16+ – ég kem 1Kor 16.22