1Svo bar við einn dag, er hann var að kenna lýðnum í helgidóminum og flutti fagnaðarerindið, að æðstu prestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum gengu til hans2og sögðu: Seg þú oss, með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver hefur gefið þér þetta vald?3Hann svaraði þeim: Ég vil og leggja spurningu fyrir yður. Segið mér:4Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?5Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?6Ef vér svörum: Frá mönnum, mun allur lýðurinn grýta oss, því að hann er sannfærður um, að Jóhannes sé spámaður.7Þeir kváðust því ekki vita, hvaðan hún væri.8Jesús sagði við þá: Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.9Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala.10Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan.11Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan.12Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út.13Þá sagði eigandi víngarðsins: Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.14En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.15Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá?16Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn. Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: Verði það aldrei.17Jesús horfði á þá og mælti: Hvað merkir þá ritning þessi: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn?18Hver sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.19Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari.20Þeir höfðu gætur á honum og sendu njósnarmenn, er létust vera einlægir. Þeir áttu að hafa á orðum hans, svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans.21Þeir spurðu hann: Meistari, vér vitum, að þú talar og kennir rétt og gjörir þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika.22Leyfist oss að gjalda keisaranum skatt eða ekki?23En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá:24Sýnið mér denar. Hvers mynd og yfirskrift er á honum? Þeir sögðu: Keisarans.25En hann sagði við þá: Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.26Og þeir gátu ekki haft neitt á orðum hans í viðurvist lýðsins, en undruðust svar hans og þögðu.27Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:28Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.29Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus.30Gekk þá annar bróðirinn31og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu.32Síðast dó og konan.33Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana.34Jesús svaraði þeim: Börn þessarar aldar kvænast og giftast,35en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.36Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar.37En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.38Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir.39Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: Vel mælt, meistari.40En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.41Hann sagði við þá: Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?42Davíð segir sjálfur í sálmunum: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,43þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.44Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?45Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína:46Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.47Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm.
20.1 Æðstu prestarnir .. Mrk 11.27+
20.4 Skírn Jóhannesar Matt 3.6+ ; Post 1.22; 10.37 – Guð Lúk 11.16+
20.5 Hví trúðuð þið honum ekki? Matt 21.32
20.6 Óttuðust fólkið Matt 14.5+ ; Mrk 14.2
20.9-19 Hlst. Matt 21.33-46; Mrk 12.1-12
20.9 Víngarður Jes 5.1
20.10-12 Þjónar sendir 2Kro 36.15-16
20.17 Steinninn Slm 118.22; Post 4.11; 1Pét 2.4,7; sbr Jes 28.16
20.18 Molast … merja Jes 8.14-15; Dan 2.44 – björgun eða eyðing Lúk 2.34; Róm 9.33; 1Pét 2.5-8
20.19 Vildu leggja hendur á hann Lúk 19.47 – óttuðust fólkið Matt 14.5+ ; Post 5.26
20.20-26 Hlst. Matt 22.15-22; Mrk 12.13-17
20.20 Höfðu gætur á Matt 16.1+ ; Lúk 11.54 – létust einlægir Lúk 16.15; 18.9
20.21 Meistari, við vitum að .. Jóh 3.2 – gera engan mannamun 3Mós 19.15; Post 10.34; Róm 2.11; Gal 2.6; Ef 6.9; Kól 3.25; Jak 2.1 – vegurinn Slm 25.4,9; 27.11; 51.15; Post 9.2
20.22 Gjalda skatt Róm 13.6-7
20.27-40 Hlst. Matt 22.23-33; Mrk 12.18-27
20.27 Saddúkear Post 23.8
20.28 Mággskyldan 5Mós 25.5-6; 1Mós 38.8
20.37 Þyrnirunninn 2Mós 3.2 – Guð Abrahams … 2Mós 3.6
20.38 Honum lifa allir Róm 14.8-9
20.41-44 Hlst. Matt 22.41-46; Mrk 12.35-37
20.42-43 Sbr Slm 110.1; Matt 22.44+
20.45-47 Hlst. Matt 23.1-36; Mrk 12.38-40; Lúk 11.37-54