1Orð Drottins, sem kom til Jóels Petúelssonar.2Heyrið þetta, þér öldungar, og hlustið, allir íbúar landsins! Hefir slíkt nokkurn tíma til borið á yðar dögum eða á dögum feðra yðar?3Segið börnum yðar frá því og börn yðar sínum börnum og börn þeirra komandi kynslóð.4Það sem nagarinn leifði, það át átvargurinn, það sem átvargurinn leifði, upp át flysjarinn, og það sem flysjarinn leifði, upp át jarðvargurinn.5Vaknið, þér ofdrykkjumenn, og grátið! Kveinið allir þér, sem vín drekkið, yfir því að vínberjaleginum er kippt burt frá munni yðar.6Því að voldug þjóð og ótöluleg hefir farið yfir land mitt, tennur hennar eru sem ljónstennur og jaxlar hennar sem dýrsins óarga.7Hún hefir eytt víntré mín og brotið fíkjutré mín, hún hefir flegið allan börk af þeim og varpað þeim um koll, greinar þeirra urðu hvítar.8Kveina þú eins og mær, sem klæðist sorgarbúningi vegna unnusta æsku sinnar.9Matfórnir og dreypifórnir eru numdar burt úr húsi Drottins, prestarnir, þjónar Drottins, eru hryggir.10Vellirnir eru eyddir, akurlendið drúpir, því að kornið er eytt, vínberjalögurinn hefir brugðist og olían er þornuð.11Akurmennirnir eru sneyptir, vínyrkjumennirnir kveina, vegna hveitisins og byggsins, því að útséð er um nokkra uppskeru af akrinum.12Vínviðurinn er uppskrælnaður, fíkjutrén fölnuð, granateplatrén, pálmaviðurinn og apaldurinn, öll tré merkurinnar eru uppþornuð, já, öll gleði er horfin frá mannanna börnum.13Gyrðist hærusekk og harmið, þér prestar! Kveinið, þér altarisþjónar! Komið, verið á næturnar í hærusekk, þér þjónar Guðs míns, því að matfórn og dreypifórn eru burt numdar úr húsi Guðs yðar.14Stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu. Kallið saman öldungana, alla íbúa landsins í húsi Drottins, Guðs yðar, og hrópið til Drottins.15Æ, sá dagur! Því að dagur Drottins er nálægur, og hann kemur sem eyðing frá hinum Almáttka.16Hefir ekki fæðan verið hrifin burt fyrir augum vorum og er ekki gleði og fögnuður horfinn úr húsi Guðs vors?17Frækornin liggja skorpnuð undir moldarkökkunum, forðabúrin eru eydd, kornhlöðurnar niðurrifnar, því að kornið er uppskrælnað.18Ó, hversu skepnurnar stynja, nautahjarðirnar rása ærðar, af því að þær hafa engan haga, sauðahjarðirnar þola og nauð.19Til þín, Drottinn, kalla ég, því að eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar og logi sviðið öll tré merkurinnar.20Jafnvel dýr merkurinnar mæna til þín, því að vatnslækirnir eru uppþornaðir og eldur hefir eytt hagaspildum eyðimerkurinnar.
1.5 Drykkjusvolar Jes 5.11; 28.7-8, 56.12; Am 4.1; SSal 2.7-9
1.6 Ljónstennur Opb 9.8
1.7 Vínviður og fíkjutré 1Kon 5.5; Mík 4.4; Sak 3.10; sbr Jes 5.1, Slm 80.9-19
1.10 Engin eydd Hós 4.3 – korn, vínlögur, olía Jl 2.19; 1Mós 27.28; 4Mós 18.12; 5Mós 7.13; 2Kon 18.32; Jes 36.17, Hós 2.7,24
1.12 Skrælnað, visið Am 4.7-9 – gleðin horfin Jes 16.10; Jer 25.10
1.14 Fasta Jl 2.12-13,15-17; Jón 3.5-9; sbr 1Kon 21.9; Esr 8.21; Neh 9.1 – hrópa til Drottins Jl 1.19-20; 2Mós 14.10; 5Mós 26.7; Dóm 3.9,15, 10.12; 1Sam 7.8, Jes 19.20, Jón 3.8; Mík 3.4; Slm 3.5, 4.2,4 o.áfr.; Lúk 18.7
1.15 Dagur Drottins Jl 2.1-2,11; 3.4,19; Jes 13.6,9; Esk 30.2-3; Am 5.18; Ób 15; Sef 1.7,14-15; Sak 14.1; Mal 3.2-5,19-21; sbr Hós 1.5+
1.16 Gleði og fögnuður Jes 35.10; 51.11; Slm 14.7; Matt 5.12 – svipt burt Jes 16.10; Jer 48.33
1.18 Dýrin barma sér Hós 4.3+ ; Jer 14.3-6, Jón 3.7; Slm 135.8
1.19 Kalla til Drottins Jl 1.14+ ; Slm 28.1; 30.9; 86.3 – eldur, tákn eyðingar Jl 2.3; Am 1.4,7,10,14; 2.2,5