1Sjá, hönd Drottins er eigi svo stutt, að hann geti ekki hjálpað, og eyra hans er ekki svo þykkt, að hann heyri ekki.2Það eru misgjörðir yðar, sem skilnað hafa gjört milli yðar og Guðs yðar, og syndir yðar, sem byrgt hafa auglit hans fyrir yður, svo að hann heyrir ekki.3Hendur yðar eru blóði ataðar og fingur yðar misgjörðum, varir yðar tala lygi og tunga yðar fer með illsku.4Enginn stefnir fyrir dóm af því, að honum gangi réttlæti til, og enginn á í málaferlum sannleikans vegna. Menn reiða sig á hégóma og tala lygi, þeir ganga með ranglæti og ala illgjörðir.5Þeir klekja út hornormseggjum og vefa köngulóarvefi. Hverjum sem etur af eggjum þeirra er dauðinn vís, og verði eitthvert þeirra troðið sundur, skríður úr því eiturormur.6Vefnaður þeirra er ónýtur til klæða, og það sem þeir vinna verður eigi haft til skjóls: Athafnir þeirra eru illvirki, og ofbeldisverk liggja í lófum þeirra.7Fætur þeirra eru skjótir til ills, og fljótir til að úthella saklausu blóði. Ráðagjörðir þeirra eru skaðræðisráðagjörðir, eyðing og tortíming er á vegum þeirra.8Veg friðarins þekkja þeir ekki, og ekkert réttlæti er á þeirra stigum. Þeir hafa gjört vegu sína hlykkjótta, hver sá, er þá gengur, hefir ekki af friði að segja.9Fyrir því er rétturinn fjarlægur oss og réttlætið kemur ekki nálægt oss. Vér væntum ljóss, en það er myrkur, væntum dagsbirtu, en göngum í niðdimmu.10Vér þreifum fyrir oss, eins og blindir menn með vegg, fálmum eins og þeir, sem misst hafa sjónina. Oss verður fótaskortur um hábjartan daginn eins og í rökkri, í blóma lífsins erum vér sem dauðir menn.11Vér rymjum allir sem birnir, kurrum eins og dúfur. Vér væntum réttar, en hann fæst ekki, væntum hjálpræðis, en það er langt í burtu frá oss.12Afbrot vor eru mörg frammi fyrir þér og syndir vorar vitna í gegn oss, því að afbrot vor eru oss kunn og misgjörðir vorar þekkjum vér.13Vér höfum horfið frá Drottni og afneitað honum og vikið burt frá Guði vorum. Vér höfum látið oss ofríki og fráhvarf um munn fara, vér höfum upphugsað og mælt fram af hjarta voru lygaorð.14Og rétturinn er hrakinn á hæl, og réttlætið stendur langt í burtu, því að sannleikurinn hrasaði á strætunum og hreinskilnin kemst ekki að.15Sannleikurinn er horfinn, og sá sem firrist það, sem illt er, verður öðrum að herfangi. Og Drottinn sá það, og honum mislíkaði réttleysið.16Og hann sá að þar var enginn, og hann undraðist, að enginn vildi í skerast. En þá hjálpaði honum armleggur hans, og réttlæti hans studdi hann.17Hann íklæddist réttlætinu sem pansara og setti hjálm hjálpræðisins á höfuð sér. Hann klæddist klæðum hefndarinnar sem fati og hjúpaði sig vandlætinu eins og skikkju.18Eins og menn hafa unnið til, svo mun hann gjalda: mótstöðumönnum sínum heift og óvinum sínum hefnd, fjarlægum landsálfum endurgeldur hann.19Menn munu óttast nafn Drottins í frá niðurgöngu sólar og dýrð hans í frá upprás sólar. Já, hann brýst fram eins og á í gljúfrum, er andgustur Drottins knýr áfram.20En til Síonar kemur hann sem frelsari, til þeirra í Jakob, sem snúið hafa sér frá syndum segir Drottinn.21Þessi er sáttmálinn, sem ég gjöri við þá segir Drottinn: Andi minn, sem er yfir þér, og orð mín, sem ég hefi lagt í munn þér, þau skulu ekki víkja frá munni þínum, né frá munni niðja þinna, né frá munni niðja niðja þinna, segir Drottinn, héðan í frá og að eilífu.
59.2 Syndir yðar … Jes 50.1; Jer 5.25 – hylja auglit hans Jes 8.17; 5Mós 31.17-18
59.3 Ataðar blóði Jes 1.15
59.4 Ganga með … fæða Slm 7.15; Job 15.35; sbr Jak 1.15
59.5 Nöðruegg Jes 14.29; sbr Slm 58.3-10; Matt 3.7
59.7-8 Sjá Okv 1.16; Róm 3.15-16
59.8 Hlykkjóttir vegir Okv 2.15; 10.9 – þekkir ekki frið Jes 48.22; 57.21
59.9 Myrkur í stað ljóss Jer 13.16; Am 5.18-20; Job 30.26
59.10 Eins og blindir 5Mós 28.29; Sef 1.17
59.11 Vér væntum … en Jer 8.15
59.12 Syndir vitna gegn Jer 14.7 – stöðugt hjá oss Slm 51.5
59.13 Misgjörðir Jer 7.9; sbr Róm 1.29+
59.14 Á torginu Slm 55.11-12
59.15 Forðast illt Job 1.1,8; 2.3
59.16 Enginn Jes 41.28+ – armur Jes 40.10+
59.17 Hann klæddist Jes 61.10 – afbrýðinnar Jes 63.15; sbr Jes 9.6; 37.32 – hertygi Drottins SSal 5.17-23; Ef 6.14-17; 1Þess 5.8 – réttlæti og hjálpræði Jes 45.8+
59.19 Óttast sbr Jes 33.3 – nafn og dýrð Drottins Jes 24.14-15; Slm 102.16 – í vestri og austri Mal 1.11; Matt 8.11 – stormur frá Drottni Jes 30.27-28
59.20-21 Sjá Róm 11.26
59.20 Lausnari Jes 41.14+
59.21 Andi minn Jes 11.2+ ; 42.1+ – þér í munn Jes 51.16+