1Vei hinum þverúðugu börnum segir Drottinn. Þau taka saman ráð, er eigi koma frá mér, og gjöra bandalag, án þess að minn andi sé með í verki, til að hlaða synd á synd ofan.2Þau gjöra sér ferð suður til Egyptalands án þess að leita minna atkvæða, til að leita sér hælis hjá Faraó og fá sér skjól í skugga Egyptalands.3En hælið hjá Faraó skal verða yður til skammar og skjólið í skugga Egyptalands til smánar!4Látum höfðingja lýðsins vera í Sóan og sendimenn hans komast alla leið til Hanes!5Þeir munu allir skammast sín fyrir þá þjóð, sem eigi hjálpar þeim, er að engu liði verður og til engrar hjálpar, heldur eingöngu til skammar og háðungar.6Spádómur um dýr Suðurlandsins. Um torfæruland og angistar, þar sem ljónynjur og ljón, eiturormar og flugdrekar hafast við, flytja þeir auðæfi sín á asnabökum og fjársjóðu sína á úlfaldakryppum til þeirrar þjóðar, sem eigi hjálpar þeim.7Liðveisla Egyptalands er fánýt og einskis virði. Fyrir því kalla ég það: Stórgortarinn, er eigi hefst að.8Far nú og rita það á spjald hjá þeim og letra það í bók, svo að það á komandi tímum verði til vitnisburðar ævinlega.9Því að þetta er þrjóskur lýður, lygin börn, börn sem eigi vilja heyra kenningu Drottins.10Þau segja við sjáendur: Þér skuluð eigi sjá sýnir, og við vitranamenn: Þér skuluð eigi birta oss sannleikann. Sláið oss heldur gullhamra og birtið oss blekkingar.11Farið út af veginum, beygið út af brautinni, komið Hinum heilaga í Ísrael burt frá augliti voru.12Fyrir því segir Hinn heilagi í Ísrael svo: Sökum þess að þér hafnið þessu orði, en reiðið yður á ofríki og andhælisskap og styðjist við það,13fyrir því skal þessi misgjörð verða yður eins og veggjarkafli, sem bungar út á háum múrvegg og kominn er að hruni. Skyndilega og að óvörum hrynur hann.14Og hann brotnar sundur, eins og þegar leirker er brotið, vægðarlaust mölvað, svo að af molunum fæst eigi svo mikið sem leirbrot til að taka með eld af arni eða til að ausa með vatni úr þró.15Svo hefir hinn alvaldi Drottinn, Hinn heilagi í Ísrael, sagt: Fyrir afturhvarf og rósemi skuluð þér frelsaðir verða, í þolinmæði og trausti skal styrkur yðar vera. En þér vilduð það ekki16og sögðuð: Nei, á hestum skulum vér þjóta fyrir því skuluð þér flýja! og á léttum reiðskjótum skulum vér ríða fyrir því skulu þeir vera léttir á sér, sem elta yður!17Eitt þúsund skal flýja fyrir ógnunum eins manns, fyrir ógnunum fimm manna skuluð þér flýja, uns eftirleifar yðar verða sem vitastöng á fjallstindi og sem hermerki á hól.18En Drottinn bíður þess að geta miskunnað yður og heldur kyrru fyrir, uns hann getur líknað yður. Því að Drottinn er Guð réttlætis. Sælir eru allir þeir, sem á hann vona.19Já, þú lýður í Síon, þú sem býr í Jerúsalem, grát þú eigi án afláts. Hann mun vissulega miskunna þér, þegar þú kallar í neyðinni, hann mun bænheyra þig, þegar hann heyrir til þín.20Drottinn mun gefa yður neyðarbrauð og þrengingarvatn. En hann, sem kennir þér, mun þá eigi framar fela sig, heldur munu augu þín líta hann,21og eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: Hér er vegurinn! Farið hann!22Þá munuð þér óhrein telja hin silfurlögðu skurðgoð yðar og hin gullbúnu líkneski yðar. Þú munt burt snara þeim eins og einhverri viðurstyggð, þú munt segja við þau: Burt héðan.23„Þá mun hann regn gefa sæði því, er þú sáir í akurland þitt, og brauð af gróðri akurlandsins; kjarngott og kostmikið mun það vera; fénaður þinn mun á þeim degi ganga í víðlendum grashaga.“24Uxarnir og asnarnir, sem akurinn erja, skulu eta saltan fóðurblending, sem hreinsaður hefir verið með varpskóflu og varpkvísl.25Á hverju háu fjalli og á hverri gnæfandi hæð munu vatnslækir fram fljóta á hinum mikla mannfallsdegi, þegar turnarnir hrynja.26Þá mun tunglsljósið verða sem sólarljós, og sólarljósið sjöfaldast, eins og sjö daga ljós, þann dag er Drottinn bindur um sár þjóðar sinnar og græðir hennar krömdu undir.27Sjá, nafn Drottins kemur úr fjarlægð. Reiði hans bálar og þykkan reykjarmökk leggur upp af. Heiftin freyðir um varir hans og tunga hans er sem eyðandi eldur.28Andgustur hans er sem ólgandi vatnsfall, það er tekur manni í háls. Hann mun drifta þjóðirnar í sáldi eyðingarinnar og leggja þjóðunum í munn bitil þann, er leiðir þær afvega.29Þá munuð þér syngja ljóð, eins og aðfaranótt hátíðar, og hjartans gleði á yður vera, eins og þegar gengið er með hljóðpípum upp á fjall Drottins til hellubjargs Ísraels.30Þá mun Drottinn heyra láta hina hátignarlegu raust sína og láta sjá til sín, þegar hann reiðir ofan armlegg sinn í brennandi reiði, með eyðandi eldslogum, með helliskúrum, steypihríðum og hagléljum.31Já, fyrir raustu Drottins mun Assýría skelfast, er hann lýstur hana með sprota sínum.32Og í hvert sinn sem refsivölur sá, er Drottinn reiðir á lofti uppi yfir henni, kemur niður, mun heyrast bumbuhljóð og gígjusláttur, og með því að sveifla hendinni mun hann berjast gegn þeim.33Brennslugróf er þegar fyrir löngu undirbúin, hún er og gjörð handa konunginum. Hann hefir gjört eldstæðið í henni djúpt og vítt, hann ber að mikinn eld og við. Andgustur Drottins kveikir í því, eins og brennisteinsflóð.
30.2 Gegn samningum við Egyptaland Jes 18.2+ ; sbr Jes 28.15
30.3 Yður til skammar Jes 20.5
30.6 Land neyðar og þrengingar Jes 8.22
30.7 Egyptaland er vindurinn Jes 36.6 – Rahab Slm 87.4; sbr Slm 89.11
30.8 Í tveim eintökum Jes 29.11+ – vitnisburður Jes 8.1-2; Jer 36.2; Hab 2.2-3
30.9 Þverúðug þjóð Jes 1.2,4 – leiðsögn Drottins Jes 8.16,20; 28.12
30.10 Sjáendur Jes 29.10 – sjáið ekki Jes 6.9 – spáið ekki Jer 11.21; Am 2.12 – segja eitthvað geðfellt 2Tím 4.3
30.11 Hætta að setja Drottin fyrir sjónir Jes 1.4; Job 21.14 – Hinn heilagi í Ísrael Jes 1.4+
30.12 Ofbeldi Slm 62.11 – treysta á klæki Jes 28.15
30.13 Sprunginn veggur hrynur Esk 13.14
30.14 Leirker brotið Jer 19.11
30.15 Hinn heilagi Jes 1.4+ – rósemi Jes 28.12 – þolinmæði Jes 7.4; 8.6 – vilduð þetta ekki Matt 23.37
30.16 Flýja Jes 22.3
30.17 Vegna hótunar eins 5Mós 32.30 – merkisstöng Jes 1.8 – hermerki Jes 5.26+
30.18 Guð réttlætis Jes 5.16; Hós 2.21; Slm 36.6-7; 48.10-12; 88.12-13 – sælir Slm 1.1+ – sem á hann vona Jes 8.17; 25.9; 26.8; 33.2; 49.23; 51.5; Slm 25.3+ ; 31.25+ ; Okv 16.20
30.19 Jerúsalem hugguð Jes 12.1; 25.8 – bænheyra Jes 65.24
30.22 Skurðgoðum fleygt í burtu Jes 2.20; 27.9
30.25 Turnarnir hrynja Jes 2.12-15; 26.5
30.26 Ljós Jes 9.1 – sár og benjar Jes 1.6 – græðir Hós 6.1
30.27 Nafn Drottins 5Mós 12.5; 1Kon 8.29
30.28-29 Sem ólgandi vatnsfall Jes 28.2+
30.28 Afvega sbr Jes 29.7; 2Kon 6.18-20
30.29 Hátíðar 1Kon 8.2-65; Esk 45.25; sbr Slm 81; 84; 122 – bjarg Slm 28.1+
30.30 Hátignarraust Slm 29.4
30.31 Gegn Assúr Jes 10.5-19 – kylfa Jes 10.24-26; Jes 14.26-27
30.32 Bumbusláttur 2Mós 15.20; Dóm 11.34 – reiða til höggs Jes 11.15; 19.16
30.33 Brennisteinsflóð 1Mós 19.24; Esk 38.22