1Verðið eigi margir kennarar, bræður mínir. Þér vitið, að vér munum fá þyngri dóm.2Allir hrösum vér margvíslega. Hrasi einhver ekki í orði, þá er hann maður fullkominn, fær um að hafa stjórn á öllum líkama sínum.3Ef vér leggjum hestunum beisli í munn, til þess að þeir hlýði oss, þá getum vér stýrt öllum líkama þeirra.4Sjá einnig skipin, svo stór sem þau eru og rekin af hörðum vindum. Þeim verður stýrt með mjög litlu stýri, hvert sem stýrimaðurinn vill.5Þannig er einnig tungan lítill limur, en lætur mikið yfir sér. Sjá hversu lítill neisti getur kveikt í miklum skógi.6Tungan er líka eldur. Tungan er ranglætisheimur meðal lima vorra. Hún flekkar allan líkamann og kveikir í hjóli tilverunnar, en er sjálf tendruð af helvíti.7Allar tegundir dýra og fugla, skriðkvikindi og sjávardýr má temja og hafa mennirnir tamið,8en tunguna getur enginn maður tamið, þessa óhemju, sem er full af banvænu eitri.9Með henni vegsömum vér Drottin vorn og föður og með henni formælum vér mönnum, sem skapaðir eru í líkingu Guðs.10Af sama munni gengur fram blessun og bölvun. Þetta má ekki svo vera, bræður mínir.11Gefur lindin úr sama uppsprettuauga bæði ferskt og beiskt vatn?12Mun fíkjutré, bræður mínir, geta af sér gefið olífur eða vínviður fíkjur? Eigi getur heldur saltur brunnur gefið ferskt vatn.13Hver er vitur og skynsamur yðar á meðal? Hann láti með góðri hegðun verk sín lýsa hóglátri speki.14En ef þér hafið beiskan ofsa og eigingirni í hjarta yðar, þá stærið yður ekki og ljúgið ekki gegn sannleikanum.15Sú speki kemur ekki að ofan, heldur er hún jarðnesk, andlaus, djöfulleg.16Því hvar sem ofsi og eigingirni er, þar er óstjórn og hvers kyns böl.17En sú speki, sem að ofan er, hún er í fyrsta lagi hrein, því næst friðsöm, ljúfleg, sáttgjörn, full miskunnar og góðra ávaxta, óhlutdræg, hræsnislaus.18En ávexti réttlætisins verður sáð í friði þeim til handa, er frið semja.
3.2 Fullkominn Jak 1.4+
3.6 Tungan og líkaminn Matt 12.36-37; 15.11,18-19 – helvíti Matt 5.22+
3.8 Full af eitri Slm 140.4; sbr Róm 3.13
3.9 Í líkingu Guðs 1Mós 1.26-27; 1Kor 11.7
3.15 Speki að ofan Jak 1.5,17
3.17 Ávextir spekinnar sbr Gal 5.22-25 – friðsöm Matt 5.9; Heb 12.11; 1Pét 3.10-11 – miskunn Jak 2.13 – ljúfleg Matt 5.4; Jak 1.21; 1Pét 3.4,16
3.18 Friður og réttlæti Jes 32.17; Heb 12.11 – semja frið Matt 5.9