1Gleð þig ekki, Ísrael, svo að þú ráðir þér ekki fyrir kæti, eins og heiðnu þjóðirnar, því að þú hefir tekið fram hjá Guði þínum, þú hefir elskað hórgjald á öllum kornláfum.2En láfi og vínlagarþró munu ekki vilja við þá kannast, og vínberjalögurinn mun bregðast þeim.3Þeir munu eigi búa kyrrir í landi Drottins, heldur mun Efraím verða að fara aftur til Egyptalands, og þeir munu eta óhreina fæðu í Assýríu.4Þá munu þeir eigi færa Drottni neitt vín að dreypifórn og eigi bera fram fyrir hann sláturfórnir sínar. Brauð þeirra mun verða eins og sorgarbrauð. Allir sem eta það, munu óhreinir verða. Því að brauð þeirra mun aðeins seðja hungur þeirra, en eigi koma í hús Drottins.5Hvað viljið þér gjöra á löghelgum og á hátíðardögum Drottins?6Sjá, þegar þeir eru komnir burt frá eyðingunni, mun Egyptaland samansafna þeim, Memfis veita þeim legstað. Silfurgersemar þeirra munu þistlarnir eignast, þyrnar vaxa í tjöldum þeirra.7Hegningartíminn kemur, endurgjaldstíminn kemur. Ísrael mun sjá, að spámaðurinn verður af því fífl og andans maður óður, að misgjörð þín er svo mikil og ofsóknin svo mikil.8Efraím er á verði gegn Guði mínum. Fyrir spámanninn er lögð fuglarasnara á öllum vegum hans, hersporar í húsi Guðs hans.9Þeir hafa framið mikil óhæfuverk, eins og forðum í Gíbeu. Hann minnist misgjörðar þeirra, hann vitjar synda þeirra.10Ég fann Ísrael eins og vínber á eyðimörku, sá feður yðar eins og frumfíkju á fíkjutré, þá er það fyrst ber ávöxt. En er þeir komu til Baal Peór, helguðu þeir sig svívirðingunni og urðu andstyggilegir eins og goðið sem þeir elskuðu.11Fólksfjöldi Efraíms mun burt fljúga eins og fuglar, svo að konur skulu þar ekki framar fæða, ekki þungaðar vera og ekki getnað fá.12Og þótt þeir ali upp börn sín, þar til er þau verða fulltíða, þá skal ég þó gjöra þá barnlausa, svo að mannskortur verði. Já, vei og sjálfum þeim, þegar ég vík frá þeim.13Efraím er, eins og ég lít hann allt til Týrus, gróðursettur á engi, og Efraímítar verða að framselja morðingjum sonu sína.14Gef þeim, Drottinn, hvað skaltu gefa? gef þeim ófrjósöm móðurlíf og mjólkurlaus brjóst.15Öll vonska þeirra kom fram í Gilgal. Já, þar fékk ég hatur á þeim. Vegna hins vonda athæfis þeirra vil ég reka þá burt úr húsi mínu, ég vil eigi elska þá lengur. Allir höfðingjar þeirra eru þvermóðskufullir.16Efraím mun lostinn verða, rót þeirra skrælnar, þeir munu engan ávöxt bera. Þótt þeir eignist sonu, mun ég deyða hin elskuðu lífsafkvæmi þeirra.17Guð minn mun hafna þeim, því að þeir hafa ekki hlýtt honum, og þeir munu fara landflótta meðal þjóðanna.
9.2 Njóta ekki ávaxtanna Hós 2.11; 8.7; sbr Jes 65.22; 5Mós 28.38-43
9.3 Aftur til Egyptalands Hós 8.13+ – í Assýríu Hós 10.6; 11.5
9.5 Hátíð 2Mós 23.14-17
9.8 Vörður Jer 6.17; Esk 3.17; 33.2-7 – ofsóttur spámaður Am 7.10-17; Jer 20.1-6; 36.26; 37.15-16; 38.4-6; 2Kro 24.20-21; Matt 23.29-36; Lúk 11.51
9.9 Á dögum Gíbeu Hós 10.9 – Guð minnist Hós 7.2+
9.10 Í eyðimörkinni Hós 2.16; 5Mós 32.10 – Baal (eða Bet) Peór 5Mós 3.29; 4.46; 34.6
9.12 Gjöra barnlausa 5Mós 32.25
9.14 Móðurlíf óbyrju Job 3.11-12; Lúk 23.29
9.15 Gilgal Hós 4.15+ – hús Drottins Hós 8.1+